Evrópskt efnahagssvæði og staða kvenna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 17:03:00 (6086)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þá till. til þál. sem liggur fyrir og mælt var fyrir áðan af hv. 15. þm. Reykv. Hér er um að ræða eitt af mörgum sviðum sem tengjast þeim samningi sem undirritaður var af hæstv. utanrrh. 2. maí sl. um Evrópskt efnahagssvæði og sýnir það eitt með öðru hversu takmarkaður undirbúningur hefur farið fram vegna þessa máls að á fjölmörgum afar þýðingarmiklum sviðum sem tengjast þessum samningi hefur lítil sem engin athugun verið gerð. Þar á ég við félagslegar afleiðingar m.a. sem gripið er á með þessari þáltill. um athugun á stöðu kvenna og líkleg áhrif þessa samnings á stöðu kvenna hérlendis. Ég tel að það megi á ekki löngum tíma draga saman margháttaða vitneskju og vísbendingar um það hvert stefni, hvert muni stefna í sambandi við stöðu kvenna sérstaklega ef þessi samningur verður gerður á þeim takmarkaða tíma sem ætlaður er til þessarar athugunar. Því tek ég undir efni tillögunnar og að hún verði samþykkt á þinginu fyrir þinglok. Þó að skammur tími sé til þingfrestunar ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir þingnefnd að taka afstöðu til tillögunnar. Ég tel brýnt að þessi athugun verði gerð á sumarmánuðum þannig að niðurstöður liggi fyrir þegar málið kemur aftur til umræðu hér, þá á ég við samning um Evrópskt efnahagssvæði, síðari hluta sumars eða á haustdögum.
    Margt hefur verið rætt og ritað um þessi efni á Norðurlöndum og reyndar í EB-ríkjunum því að hér erum við að fara inn á þann grundvöll sem verður sameiginlegur ef þessi samningur verður gerður með innri markaði Evrópubandalagsins sem gangverk í efnahagsstarfseminni. Það ber flest að sama brunni í þeim efnum að áhrif samrunans svokallaða á stöðu kvenna eru yfirgnæfandi neikvæð og afar mikil hætta á því að konur sem hafa fyrir veikari stöðu félagslega séð og á vinnumarkaði verði mun harðar fyrir barðinu á áhrifum samrunans en karlar. Það er markmiðið með Evrópsku efnahagssvæði að auka hagvöxt og hagræðingu, sameining fyrirtækja og annað af þeim toga er þar dagskrárefni. Það eru ekki líkur á því að innri markaðurinn leiði til þess að störfum fjölgi heldur þvert á móti að störfum fækki vegna hagræðingar og harðnandi samkeppni og það verði konur sem verði þolendur þess umfram karla. Í sjálfu Evrópubandalaginu er hrikalegt atvinnuleysi í mörgum löndum og fer vaxandi nú eftir að það hafði aðeins dalað um skeið. Síðan í fyrra fer atvinnuleysi vaxandi þar á nýjan leik og tölur bera vott um að það eru konur sem verða þar harðar úti en karlar.
    Það eru vissulega fleiri svið sem hafa verið allt of lítið athuguð varðandi þetta stóra mál og ég nefni þar sérstaklega áhrifin á byggðaþróun. Það liggur að vísu fyrir skýrsla sem Byggðastofnun, eða einhverjir sem unnu það verk á hennar vegum, tók saman fyrir rösku ári og ýmislegt athyglisvert kom þar fram. Ég hefði talið þörf á því að ofan í saumana á því samhengi yrði farið miklu betur og ítarlegar vegna þess að það er mikil ástæða til þess að óttast áhrif af hugsanlegri aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði á byggðaþróun í landinu, stöðu atvinnulífs úti um landsbyggðina og aukinn fólksflótta hingað til Suðvesturlands og beinlínis úr landi. Það mál ætla ég ekki að gera sérstaklega að umtalsefni.
    Við verðum hins vegar að vona að það fari ekki sem horfir í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði að Alþingi Íslendinga taki þær ákvarðanir sem ganga gegn því sem hæstv. utanrrh. hefur ætlað sér með undirritun samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Það liggur fyrir krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu, könnun á vilja þjóðarinnar til þessa máls og við skulum vona að Alþingi beri gæfu til að taka undir þá kröfu svo að þjóðin fái að segja sitt í þessu stóra máli.

    Í dag, eins og minnt var á af málshefjanda og 1. flm. þessarar tillögu, er birt í dag Gallupkönnun úr einu kjördæma landsins, Suðurlandi, sem sýnir mjög athyglisverðar niðurstöður þar sem yfirgnæfandi meiri hluti fólks sem spurður er og afstöðu tekur, það eru raunar 2 / 3 aðspurðra sem taka afstöðu samkvæmt upplýsingum í Morgunblaðinu, það reynast vera 70%, tjáir sig mótfallinn samningi um Evrópskt efnahagssvæði og enn stærra hlutfall er andvígt aðild að Evrópubandalaginu sem vissulega kemur ekki á óvart. Ég held að það sé hollt fyrir okkur á Alþingi að taka við slíkum vísbendingum og íhuga þær. Þótt ég sé ekki í hópi þeirra sem tel skoðanakannanir, eins og þær eru unnar, mjög ábyggilegar vísbendingar má þó draga ýmsar ályktanir af þeim og þær segja til um strauma í þjóðfélaginu. Það er vissulega ánægjuefni að sjá hvert þeir straumar liggja ef marka má niðurstöður þessarar könnunar.
    Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess fyrst og fremst að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa þáltill. Ég vænti þess að hv. félmn. afgreiði hana með jákvæðum hætti og Alþingi álykti um málið svo þessi brýna athugun sem þarna er lögð til hefjist hið fyrsta.