Náttúrufræðistofnun Íslands

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 17:39:17 (6098)


     Frsm. umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Sú brtt. sem hv. 3. þm. Reykn. hefur lagt fram við frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur miðar fyrst og fremst að því að setur Náttúrufræðistofnunar Íslands verði aðeins tvö. Í frv. er gert ráð fyrir því að setrin geti orðið fimm þótt í bráðabirgðaákvæði frv. sé aðeins gert ráð fyrir því að við samþykkt frv., ef það verður að lögum, þá verði setrin tvö. Þarna má því líta svo á að í 3. gr. frv. sé heimildarákvæði sem varpar nokkru ljósi á það hvaða hugmyndir höfundar frv. höfðu um það hvernig æskilegast væri að Náttúrufræðistofnun Íslands byggðist upp þegar öll setur hennar væru farin að starfa. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að andi brtt. er hluti af þeim umræðum sem hafa farið fram um sparnað af hálfu ríkisins. Þarna er verið að ræða um að heimila ekki þessa fjölgun setranna. Brtt. gengur því þvert á þessa grundvallarhugmynd um uppbyggingu um fimm setur um land allt. Ég held því að grundvöllurinn að þessari brtt. sé fyrst og fremst fólginn í sparnaðarsjónarmiðum og þeirri hugsun að verið sé að ráðast í of viðamikið verkefni með þeim heimildarákvæðum sem 3. gr. opnar.