Almenn hegningarlög

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:14:32 (6105)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af áliti minni hlutans langar mig til þess að segja nokkur orð. Ég er í sjálfu sér sammála því að orðið manneskja sé ágætisorð en á það var hins vegar bent í umsögnum og um það var rætt í allshn. að orðið maður væri almenn íslensk málnotkun í íslensku lagamáli og í íslensku máli almennt. Við getum t.d. litið á umboðsmann Alþingis og velt því fyrir okkur hvernig það liti út ef heitið væri umboðsmanneskja Alþingis og fleiri slík dæmi mætti að sjálfsögðu taka. En mig langar til þess að vekja sérstaka athygli á 3. lið brtt. í minnihlutaálitinu sem fjallar um 8. gr. Þar er lagt til að í 1. efnismgr., á eftir orðunum ,,barn sitt og annan niðja`` komi ,,systkini sitt eða systkinabarn`` og að sams konar breyting verði gerði á 2. mgr. Rökstuðningurinn fyrir þessari tillögu virðist samkvæmt nál. minni hlutans vera sá að með þessu sé reynt að girða fyrir þann möguleika að hægt sé að refsa fórnarlambi kynferðislegs ofbeldis. Þá segir þar einnig að þetta verndi einnig börn sem tengd eru brotamanni í hliðarlegg. Þá segir minni hlutinn einnig að samkvæmt þessu ákvæði, væntanlega núv. 3. mgr., sé möguleiki á því að systkini sem brotið er á sé refsað ef ekki sannast að um misneytingu sé að ræða. Minni hlutinn telur að með þessu orðalagi sé hagsmunum barns betur borgið og almenn ákvæði um sakhæfi í 14. gr. hegningarlaganna veiti geranda næga vernd sé hann undir 15 ára aldri en 15 ára aldur er einmitt sakhæfisaldur.
    Hér virðist um mikinn misskilning að ræða. Ef þessi brtt. verður samþykkt þýðir hún aðallega að refsingar fyrir kynmök systkina verða þyngdar frá því sem nú er lagt til í frv. óháð aldri þannig að í stað þess að refsihámark sé fjögur ár, sbr. 3. mgr. 8. gr. frv., verður refsihámark almennt sex ár og tíu ár ef annað eða bæði systkinin eru yngri en 16 ára. Ef bæði eru yngri en 16 ára væri þó refsihámarkið í reynd

átta ár, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. hegningarlaganna en í henni segir að refsingu megi færa niður úr lágmarki þegar brot er framið af manni sem þá er ekki fullra 18 ára að aldri og álíta megi vegna æsku hans að þessi refsing sé ónauðsynleg eða skaðleg og það á aldrei vera meiri refsing en átta ára fangelsi. Auk þess fellir brtt. brott þá refsibrottfallsheimild sem er í 3. mgr. gagnvart þeim sem eru yngri en 18 ára, oft brotaþoli, og eins og við höfum heyrt um, oft yngra kvenkyns systkini, og gerir stöðu hans þannig lakari. Það er rangt að með brtt. sé aukin refsivernd gagnvart börnum. Vakin er athygli á því að ef annar aðilinn er yngri en 14 ára ber jafnframt að refsa fyrir brot gegn 202. gr. hegningarlaganna, sbr. 10. gr. frv., en þar verður refsihámarkið 12 ár ef brtt. meiri hlutans verður samþykkt.
    Í sjálfu sér er ósköp skiljanlegt að upp komi vangaveltur um hegningarlagaákvæði sem snerta vændi. En vændi er almennt refsilaust athæfi. Það er einungis ef það er stundað sem atvinnugrein sem viðurlög eru. Hins vegar er megináherslan lögð á milliliði í 13. gr. frv. og kveðið á um mun þyngri refsingar í alls fjórum málsgreinum þar sem tekið er á margháttuðum aðstæðum. Hegningarlögum er ekki einungis ætlað að refsa fyrir afbrot heldur er þeim ætlað að hafa varnaðaráhrif, þ.e. að koma í veg fyrir að afbrot séu framin og sérhver breyting á þeim á að vera til bóta fyrir almenningsheill. Meiri hluti allshn. telur að brtt. minni hlutans hvað þetta varðar sé ekki til bóta í þessu sambandi og a.m.k. sé sú breyting ekki tímabær.