Almenn hegningarlög

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:23:00 (6107)


     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess að við höfum samþykkt að hafa ekki mjög langa umræðu hef ég ekki möguleika til að fara í smáatriðum ofan í athugasemdir hv. frsm. meirihlutaálits. Ég vil þó gera tvær athugasemdir og ég held að þær skýri mitt mál nokkuð vel.
    Í fyrsta lagi tel ég mig hafa gert nógsamlega grein fyrir því hvers vegna ég tel ekki ástæðu til þess að refsa fyrir vændi og hvers vegna ég tel að varnaðaráhrif greina, sem ekki eru notaðar, séu lítil. Hins vegar hef ég bent á að ef eigi á annað borð að refsa fyrir vændi þá sé mjög óréttlátt að aðeins öðrum aðilanum en ekki hinum sé refsað. Ég mun ekki eyða fleiri orðum að því og vona að það hafi allt komist til skila. Ég vil reyndar vekja athygli á því að ekki er allur meiri hlutinn sammála þessu eins og skilja mátti af orðum hv. frsm. meiri hlutans.
    Varðandi brtt. á 8. gr. langar mig að lesa saman greinina eins og hún mundi hljóða ef brtt. mínar verða samþykktar og ég held að það skýri nákvæmlega hvers vegna þetta er fullnægjandi ákvæði að mínu mati. Refsivernd gildir fyrir þá sem eru yngri en 15 ára. Ég hef jafnframt látið kanna tillögur mínar og það tók ærinn tíma en ég gekk frá þeim með þeim hætti sem ég taldi best og ég stend við það. En mig langar bara til þess að stytta umræðuna að lesa greinina eins og hún liti út að samþykktum brtt. við 3. gr. frá minni hluta allshn., þ.e. frá mér. Þá liti greinin svo út:
    ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja, systkini sitt eða systkinabarn skal sæta fangelsi allt að sex árum og allt að tíu ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.
    Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja, systkini sínu eða systkinabarni en sú, er greinir í 1. mgr., varðar allt að tveggja ára fangelsi og allt að fjögurra ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.``
    Þannig liti þá greinin út. Ég sé ekki annað en að þetta styðji nákvæmlega það sem ég er að segja, að í stærstu atriðum veiti þetta meiri refsivernd gagnvart alvarlegri brotum en girði fyrir þann möguleika að það systkinið sem er fórnarlamb, ef það ekki sannast að um misneytingu sé að ræða eða ásetningsbrot eins og notað er til skýringar 18. gr. almennra hegningarlaga um að þarna þurfi ásetning til, þá finnst mér að þetta hljóti að verja það systkini sem er fórnarlamb vegna þess að ég sé ekki að það sé mikil vörn nema út frá 18. gr. almennra hegningarlaga í þessari 3. efnismgr. sem ég vil að falli brott úr 8. gr.:
    ,,Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að fjórum árum. Hafi annað

systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri þegar verknaður átti sér stað má ákveða að refsing falli niður að því er þau varðar.``
    Varðandi það að fella niður refsingu hef ég þegar tilgreint það að gerandi yngri en 15 ára nýtur áfram refsiverndar. Í öðru lagi sé ég ekki --- þar sem í fyrstu tveim málsgreinunum með þessum breytingum er talað um að annar sé gerandi og hinn þolandi --- að það sé mögulegt að fórnarlambinu sé refsað eins og mögulegt er með 3. efnismgr. 8. gr.