Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:28:00 (6108)

     Sigurður Hlöðvesson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta mál er mjög mikilvægt, mikilvægara en margan kann að gruna. Þetta mál varðar það hvort íslenskt æskufólk hefur tækifæri til náms án tillits til efnahags.
    Ítarleg umfjöllun hefur farið fram um frv. þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að sníða af því verstu agnúana. Einnig hafa verið bornar fram tillögur þar að lútandi. Ég vil ekki bæta miklu við þar um, heldur vil ég leyfa mér að beina orðum mínum sérstaklega til tveggja hv. þm., hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, formanns þingflokks Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokks Íslands, og hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Þannig vill til að hvorugur er í salnum einmitt þessa stundina en hv. þm. Össur Skarphéðinsson mun vera í húsinu. Svo bregður við að þegar frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur verið til umræðu þá fækkar ansi mikið í þingsalnum og ég held að það sé rétt að það hafi verið mest í salnum í senn tveir þingmenn frá þingflokki Alþfl. meðan ég hef hlýtt hér á 2. umr. Þeir eru báðir og sitja hér sem varaþingmenn en aðrir þingmenn hafa lítið látið sjá sig nema þingmaður Alþfl. hafi gegnt forsetastöðu. Ég held samt áfram máli mínu þó að hvorugur hlýði á mig að ég viti. Það verður þá að duga að þeir lesi þetta í þingtíðindum eða ég segi þeim frá því sjálfur seinna.
    Af hverju skyldi ég beina orðum mínum sérstaklega til þessara tveggja þingmanna? Það er einfaldlega vegna þess að mér þykir líklegt að þeir geti sett sig í spor námsmanna og skilið aðstöðu þeirra. Af hverju skyldi ég gera þá kröfu til þeirra? Jú, þeir hafa báðir ekki alls fyrir löngu lokið langskólanámi eins og komið hefur fram í umræðunni og hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í eina tíð formaður Stúdentaráðs. Þá flutti hann fyrstu þingræðu sína í þessu húsi, af þingpöllunum hér fyrir ofan, og mótmælti harðlega skerðingu námslána. Ég hef ekki heyrt efni ræðunnar né lýsingu á flutningi hennar en ég efa ekki að ræðumaður hafi leiftrað af eldmóði og hugsjón fyrir bættum kjörum íslenskra námsmanna og mótmælt harðlega öllum skerðingarákvörðunum. Gaman hefði verið að fá ræðuna og lesa hana í ræðustóli þannig að hin eiginlega jómfrúrræða hv. þm. kæmist í þingtíðindin. Ástæða þess að ég beini máli mínu einnig til hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar er kynni hans af námsmönnum og kjörum þeirra.
    Ef minnið svíkur mig ekki gersamlega þá man ég fyrst eftir honum ungum, reiðum og róttækum framhaldsskólanema fyrir mörgum árum. Það var á fundi framhaldsskólanema, gott ef ekki var verið að stofna til samtaka framhaldsskólanema. Þar bar mikið á kappanum og ekki fór á milli mála að eldur og róttækni brann í brjósti hans. Það er einmitt vegna fortíðar hv. þm., Össurar Skarphéðinssonar og Gunnlaugs Stefánssonar, að ég beini orðum mínum til þeirra. En eins og ég sagði áðan situr hvorugur í þingsalnum nú en hugsanlega heyrir annar eða báðir til mín.
    Þessir heiðursmenn fengu senda áskorun til alþingismanna með undirskrift 8.000 námsmanna þar sem farið var fram á að frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna verði tekið til endurskoðunar. Í þeirri áskorun segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það mun vera stefna allra þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi að á Íslandi sé jafnrétti til náms. Lánasjóður ísl. námsmanna er hornsteinn þeirrar stefnu. Þess vegna hljóta alþingismenn að standa vörð um sjóðinn sem félagslegt jöfnunartæki en skoða hann ekki sem peningastofnun sem verði að skila hagnaði. Námsmenn minna á að hin sanna arðsemi menntunar sést ekki í ársreikningum Lánasjóðs ísl. námsmanna heldur skilar sér beint út í þjóðfélagið því til eflingar.``
    Síðan er farið yfir þau þrjú atriði sem er mestur þyrnir í augum námsmanna og óskað er eftir að lagfærð verði. Þar er tilgreint að nú eru settir á með lögunum allt að 3% raunvextir á námslánin. Þar er bent á að endurgreiðsluhlutfall sem áður var 3,75% verður 5% fyrstu fimm árin en 7% af heildartekjum eftir það. Og þá er bent sérstaklega á ákvæðið um eftirágreiðslu lána. Öll þessi atriði stinga mjög í augu námsmanna og námsmen hafa hvatt þá þingmenn sem þeir sendu þessa áskorun og alla þingmenn til þess að taka þetta frv. til endurskoðunar með tilliti til þessara atriða.

    Það er ljóst að námsmenn hafa verið til viðræðu um breytingu á lögum um lánasjóðsinn og lagt fram tillögur þar um. Enn tala ég án þess að vita hvort þessir tveir ágætu hv. þm. heyra til mín. Það vill þó svo til að Össur vissi af því að ég ætlaði að ávarpa hann sérstaklega í minni ræðu þegar ég kæmist í stólinn en ég held samt áfram og vil spyrja ykkur, herrar mínir: Getið þið sætt ykkur við þá áróðursherferð sem farin hefur verið gagnvart íslenskum námsmönnum þar sem skellt er fram fréttum um meinta misnotkun íslenskra námsmanna á lánasjóðnum og þar sem öll tiltæk ráð og meðul eru notuð til þess að nefna dæmi um hversu ofdekraðir íslenskir námsmenn eru? Getið þið sætt ykkur við að íslensk ungmenni hafi ekki jöfn tækifæri til náms óháð efnahag? Getið þið sætt ykkur við að kjör íslenskra námsmanna séu skert eins og tillögur eru um í frv.? Getið þið sætt ykkur við að slegið sé á útrétta hönd námsmanna þegar þeir bera fram tillögu til lagfæringar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna til að sníða af þá agnúa sem á lögunum eru? Ef svo er þá held ég að nauðsynlegt sé að þið fáið kost á því að mæta á fund stúdenta 1. des. árið 1992 til þess að stappa í námsmenn stálinu og lýsa um leið hversu mikil auðlegð er fólgin í vel menntuðu ungu fólki. Ef svo er, þá segi ég að lokum: Blessuð sé minning þeirra hugsjóna sem bærðust í brjóstum ykkar þegar þið voruð ungir námsmenn.