Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 20:54:00 (6112)


     Finnur Ingólfsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hann skyldi gefa mér leyfi til að fá að koma hér inn í umræðuna aftur þar sem ég gat ekki verið viðstaddur þegar umræðan hófst eftir hlé.
    Hæstv. menntmrh. kvartar yfir því að hv. stjórnarandstæðingar komi og haldi alltaf sömu ræðuna. Það kann vel að vera að það sé margt svipað í þessum ræðum sem stjórnarandstaðan er að halda. Ástæðan og tilgangurinn með því að halda svipaðar ræður og tala um sama efnið er kannski að fá ríkisstjórnina til þess að skilja alvöru málsins og það er það sem við erum hér fyrst og fremst að reyna.
    Það sem er þó kannski alvarlegast er að þeir sem ættu helst að skilja það sem hér er verið að tala um eru þeir alþýðuflokksmenn sem ekki láta sjá sig hér í þingsalnum. Ég veit að hæstv. menntmrh. er farinn að skilja alvöru málsins og þess vegna held ég að nú sé að koma tími á það, hæstv. menntmrh., að menn setjist niður milli 2. og 3. umr. og ræði það í alvöru hvort ekki sé hægt að gera samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ég trúi því að það geti einnig orðið samkomulag milli þings og námsmanna um að gera hér lítils háttar lagfæringar, breytingar á þessu frv. sem felast í því að falla frá þessari eftirágreiðslu lánanna. Þá tel ég, þrátt fyrir að ég sé í grundvallaratriðum ósammála mörgu af því sem er í þessu frv., að umræðan og átökin snúist núna fyrst og fremst um það hvort ekki sé hægt að stíga skrefið til baka og falla frá þessari eftirágreiðslu. Mér finnst full ástæða til, þegar 2. umr. lýkur, að hæstv. menntmrh. leiti eftir því samkomulagi bæði við námsmenn og stjórnarandstöðuna á þingi hvort ekki sé rétt að gera slíkar breytingar.
    Í fyrri hluta ræðu minnar í gær --- ég ætla auðvitað ekki að fara að tíunda það allt aftur því að hæstv. menntmrh. sat þá og hlutstaði að ég held ágætlega --- lagði ég áherslu á hið mikla vald sem hæstv. menntmrh. hefur á hinu háa Alþingi og í ríkisstjórn og hvernig hann í raun og veru getur ráðskast með allar gerðir og athafnir þeirra alþýðuflokksmanna, ekki aðeins í þessu lánasjóðsmáli. Það er auðvitað auðséð hver þar hefur ráðið þrátt fyrir flokksþingssamþykktir Alþfl., sem þingmenn flokksins gera síðan ekkert með þegar komið er inn á Alþingi en standa að því á flokksráðsfundum að samþykkja slíkar ályktanir og skora á sjálfa sig en snúa svo baki við öllum slíkum samþykktum þegar þær koma til raunverulegrar umræðu í þinginu. Sama gildir auðvitað og gott dæmi um það er hvernig hæstv. menntmrh. ráðskast með það hverjir sitja í stjórnum, nefndum og ráðum fyrir Alþfl.
    Í öðru lagi ræddi ég lítils háttar um þá barnleysisstefnu sem hæstv. ríkisstjórn er nú að reka og hefur komið fram á þingi með mörg mál því til staðfestingar eins og það að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra, loka Fæðingarheimili Reykjavíkur, loka fæðingardeildum sjúkrahúsanna úti um allt land, koma með þetta frv. um lánasjóðinn og svo auðvitað að lækka barnabæturnar.
    Ég spurði hæstv. menntmrh. hvort ekki væri hægt að fá það upplýst í þessari umræðu hvað það tvöfalda endurgreiðslukerfi, sem ég lýsti við 1. umr. og bað um að sérstaklega yrði skoðað sem hæstv. ráðherra tók vel undir, hvað það í raun þýddi, hvort þingið eða a.m.k. menntmn. hefði milli 2. og 3. umr. möguleika á því að fá það á skjali hvað þetta tvískipta endurgreiðslufyrirkomulag þýddi í raun en ekki aðeins óljósar hugmyndir um að á þeim, sem hafa lágar tekjur, verði greiðslubyrðin þung síðustu 15 árin en á þeim sem hafa háar tekjur verði greiðslubyrðin létt. Þetta eru auðvitað allt atriði sem menn gátu sagt sér fyrir fram. En þegar þær víðtæku heimildir, sem nú hafa verið opnaðar fyrir stjórn lánasjóðsins að taka ákvarðanir um að fella niður lán og létta greiðslubyrði einstaklinga eftir því hvernig aðstæður þeirra eru, þegar þeir eiga að fara að greiða lánin, finnst mér auðvitað að hægt sé að skoða í slíku samhengi. Það er einfaldlega vegna þess að það endurgreiðslufyrirkomulag sem nú er í frv. nær ekki því markmiði sem menn settu sér í upphafi um að koma í veg fyrir að þeir einstaklingar, sem í dag taka sér sjálfkrafa styrki úr lánasjóðnum, geti haldið því áfram. Það verður engin breyting á þó að menn komi upp þessu fyrirkomulagi og þessum breytingum um harðari tekjutengingu og vexti á lánin. Það sem gerist er einfaldlega það að þeir einstaklingar, sem greitt hafa lánin sín að fullu, greiða núna meira en þeir, sem hafa tekið sér námsstyrki án þess að spyrja nokkurn um leyfi eða fá nokkrar heimildir fyrir því hjá öðrum en sjálfum sér, halda auðvitað áfram. Þessi hópur sem er innan við 5% heldur áfram að taka sér sjálfkrafa námsstyrki. Endurgreiðslufyrirkomulagið nær því ekki þessu markmiði.
    Það er svo aftur annað mál og ég minntist á það í fyrri hluta ræðu minnar að auðvitað verður það

ekki á valdi stjórnarandstöðunnar að koma í veg fyrir það í þinginu að frv. nái fram að ganga. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Hins vegar vil ég skilja á milli þess hvort þessir tveir stjórnarflokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., hafa hugsað sér að gera þessar grundvallarbreytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna, sem nú eru boðaðar og í frv. eru, eða þá aðför sem er verið að gera að námsmönnum með því að taka upp þetta eftirágreiðslufyrirkomulag. Það er auðvitað ekkert hægt að segja við því þó að Alþfl. hangi aftan í Sjálfstfl. í þessu máli eins og öllum öðrum með því einfaldlega að segja sem svo: Þetta er svo ágætt hjá ykkur karlar mínir að við verðum auðvitað með. Það er auðvitað svo í þessum málum sem öðrum og það er nú bara þetta sem minni hlutinn, stjórnarandstaðan í þinginu, þarf að búa við og gleður sjálfsagt sjálfstæðismenn mjög. Því er ekkert við því að segja að þessar grundvallarbreytingar séu gerðar. En setjumst nú niður, stjórn og stjórnarandstaða, með námsmönnum og athugum það gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að finna einhverjar leiðir til þess að koma í veg fyrir að þetta eftirágreiðslufyrirkomulag verði tekið upp.
    Menn hafa vitnað oft í viðtal við Gunnar Birgisson, formann stjórnar lánasjóðsins, og þær upplýsingar sem gefnar voru í hádegisútvarpinu í gær um hver þessi staða í raun og veru væri, hvað það væri stór hópur lántakenda í sjóðnum sem hefði fengið meira en þeir áttu. Það er auðvitað alvarlegt. Hins vegar held ég að niðurstaðan sé sú að þarna sé um mjög mikla oftúlkun á hlutunum að ræða. Það held ég að hafi komið í ljós í ræðu hæstv. menntmrh. í gær að það eru ekki nema 8,1 millj. eða rúmlega það, sem hefur verið ofgreidd í lán. Það er auðvitað allt of mikið en það er ekkert af þessari upphæð tapað af þeirri ástæðu að það eru ábyrgðir fyrir þessu öllu saman. Það skilar sér hins vegar ekki í tæka tíð.
    Eitt rak ég augun í og fannst vera nokkuð merkilegt í þessu viðtali við Gunnar Birgisson í útvarpinu. Þar segir hann að það sé ákveðið --- eða ég a.m.k. skil það svo af orðum hans --- að stjórn lánasjóðsins taki tillit til þeirra vaxtagreiðslna sem námsmenn þurfa að inna af hendi við bankana þann tíma sem þeir eru að fjármagna nám sitt á meðan þeir bíða eftir lánum úr lánasjóðnum.
    Við skulum gefa okkur að það sé um 1 milljarður kr. sem þarna er um að ræða og segjum að vextirnir séu 10%. Þetta sé kannski ekki nema í hálft ár þannig að við gætum verið að reikna með 5% vöxtum, þá erum við að tala um 50 millj. kr. í viðbótarútgjöld fyrir sjóðinn til viðbótar við þær 80 millj. sem menntmrh. segist hafa ákveðið að auka útgjöld sjóðsins um með því að breyta viðmiðunartekjunum hjá sjóðnum. Þarna erum við þá komin upp í 130 millj. Hæstv. ráðherra sagði að inni í þessum 80 millj. kr., ef ég skildi hann rétt, væri bæði tekjutillitsbreytingin og einnig aukin ásókn námsmanna í sjóðinn. Ég bað hæstv. ráðherra um að skýra það fyrir mér, hvort sem hann gerir það í andsvari á eftir eða við 3. umr., hvernig þetta skiptist, Annars vegar tekjutillitið og hins vegar sá aukni fjöldi sem inn í sjóðinn mun koma við það að hætta að taka tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stendur.
    Því miður held ég að hér sé um gríðarlega alvarlega hluti að ræða og ítreka þess vegna enn: Ég held að stjórn og stjórnarandstaða ásamt námsmönnum þurfi að setjast niður. Við skulum taka eitt dæmi sem gæti verið raunhæft dæmi: Ung hjón sem bæði eru í námi við Háskóla Íslands á öðru eða þriðja ári, hafa haft lágar sumartekjur, eiga eitt ungt barn. Þau þurfa að fá í haust vini eða venslamenn til að skrifa upp á skuldbindingar við banka til að geta lifað fram í janúar eða febrúar á næsta ári. Þetta gætu verið 800 þús. til 1 millj. kr. Við skulum segja að um áramótin, þegar þetta fólk er að fara í próf, að eitthvað kæmi nú upp, barnið veiktist, annað hvort þeirra veiktist. Þegar námsárangur liggur fyrir úr þeim prófum sem þessi ungu hjón tóku við háskólann kemur í ljós að þau hafa ekki staðist prófin, kannski vegna þess að aðstæður voru þannig á heimilinu að það var ómögulegt. Hver er þá staðan? Vinir og foreldrar hafa skrifað upp á skuldabréf, víxla í bönkunum, í trausti þess að þetta unga fólk fengi lán í lánasjóðnum í febrúar til að greiða þessar ábyrgðir. En nú var það bara svo, að vegna veikinda barnsins eða eigin veikinda hefur það ekki náð prófunum. Það fær ekkert úr lánasjóðnum. Þá er um tvennt að ræða: Fá einhverja aðra eða kannski sömu aðila til að halda áfram að skrifa upp á skuldbindingar og reyna aftur í vor og athuga hvort ekki takist betur til eða einfaldlega hætta í námi eða stunda hlutanám og vinna með til þess að þurfa sem allra minnst á aðstoð sjóðsins að halda. Um leið og þetta unga fólk er farið að vinna með skóla er mun meiri hætta á því að það standist ekki prófin að vori. Þannig er hætta á að algjör vítahringur skapist ef hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin ætla að halda því til streitu að koma þessu fyrirkomulagi á. Það er kannski þetta umfram allt annað sem átt er við þegar maður heldur því fram að þarna sé verið að hætta að láta sjóðinn taka tillit til aðstæðna og koma á ákveðnu misrétti milli námsmanna. Það er þetta, hæstv. ráðherra, sem ég er hræddur um að muni geta gerst. Þá geta af þessu öllu saman orðið mjög alvarlegar afleiðingar.
    Nú kann hæstv. ráðherra að svara sem svo: Skapist þessar aðstæður er það auðvitað stjórn sjóðsins sem þarf að taka tillit til þessara hluta. En það er alveg útilokað fyrir námsmenn að búa við slíkt óöryggi, að það sé undir einhverri stjórn komið hvort þetta gangi allt saman upp eða ekki. Það að lesa fyrir próf í Háskóla Íslands og búa við þá pressu sem það skapar fyrir þetta unga fólk er auðvitað alveg óþolandi og útilokað að stunda nám við slíkar aðstæður. Ég ítreka það enn og af því að ég veit, kannski ekki af reynslu, en af orðum vinar míns Páls Péturssonar, að hæstv. menntmrh. er vænn maður, þá vill hann auðvitað að þessir hlutir gangi ekki fyrir sig með þeim hætti sem ég var að lýsa. Því bið ég um að þetta verði athugað mjög gaumgæfilega milli 2. og 3. umr.
    Það sem er auðvitað langverst, virðulegur forseti, við þetta lánasjóðsmál, er að þeir sem eru að fást við málið, sýsla við þessi mál lánasjóðsins, eru þeir sem voru í námi á þeim tíma þegar það kostaði ekki

neitt að taka lánin úr lánasjóðnum. Þegar þeir fengu gjafir, þegar þeir bjuggu við óverðtryggð lán, vaxtalaus lán, og auðvitað skilja þessir menn ekki þær aðstæður sem nú er búið við einfaldlega vegna þess að þeir eru að greiða fáar krónur á ári margir hverjir og þingmenn hér að státa sig af því að þetta séu ekki nema 20--30 kr. sem þeir greiði til lánasjóðsins. Ég þekki þetta af eigin raun. Ég naut lítils háttar aðstoðar sjóðsins eftir árið 1982 og ég er farinn að greiða af þeim lánum, þingmannslaunin eru auðvitað ekki óskaplega há, ég er reyndar ekki enn þá farinn að greiða af tekjum þingmannslaunanna, ég á von á því að þetta lækki aðeins á næsta ári hjá mér. Hins vegar hef ég fundið verulega fyrir því að það er mikil greiðslubyrði sem þessu er samfara. Þess vegna er ég hneykslaður á því að menn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., maður sem hefur verið formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, maður sem stóð hér á þingpöllunum varinn af námsmönnum til þess að þruma yfir þinginu þegar gerðar voru smávægilegar breytingar á lögunum um lánasjóðinn, skuli ekki hafa fyrir því hér og nú að sitja í þingsalnum og hlusta. Auðvitað er málið það viðkvæmt að hann treystir sér ekki til þess að sitja undir þeim ræðum sem hér eru fluttar. Hann er auðvitað maður sem ætti að skilja hvað hér er um að vera. En ég skil það í sjálfu sér að það er erfiðara fyrir þá menn, sem fengu gjafirnar og hafa ekki þurft að greiða lánin sín að fullu til baka og munu aldrei greiða þau að fullu til baka, að skilja hvað hér er um að ræða.
    Því ítreka ég það aftur, hæstv. ráðherra, að það verði kannað milli 2. og 3. umr. hvort ekki sé hægt að gera einhverjar breytingar á því frv. sem nú liggur fyrir. Ég þori að fullyrða að ef þær ganga í þá átt að breyta örlítið þessu eftirágreiðslufyrirkomulagi mun stjórnarandstaðan og námsmennirnir þakka fyrir það þegar upp er staðið.