Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 21:15:45 (6114)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. skýr og greinargóð svör. Ég fagna því sem hann sagði. Hann er tilbúinn til þess milli 2. og 3. umr. að skoða eftirágreiðslufyrirkomulagið og það er auðvitað fyrsta skrefið sem við verðum að stíga. Öll markmiðin, hæstv. ráðherra, sem menn setja sér með breytingunum á lánasjóðnum, að styrkja framtíðarhlutverk lánasjóðsins, nást með þeim breytingum sem gerðar eru á frv. en eftirágreiðsla hefur ekkert með það að gera hvort þessi grundvallarbreyting næst fram, að styrkja stöðu sjóðsins í framtíðinni. Eftirágreiðslan er bara eins árs frestun á greiðslum úr ríkissjóði til lánasjóðsins eða til námsmanna og menn mega auðvitað ekki setja eins árs markmið eða hafa það sem úrslitaatriði þegar rætt er um hvort hugsanlega geti náðst víðtæk samstaða í þinginu. Bara einn milljarður kr. í eitt skipti, einfaldlega til þess að ríkisstjórnin geti sýnt betri árangur í ríkisfjármálum það árið. Það hefur ekkert með það að gera, hæstv. ráðherra, hvort menn eru að tryggja stöðu sjóðsins til frambúðar. Það eru þær grundvallarbreytingar sem Alþfl. ætlar að standa að með Sjálfstfl., að svipta sjóðinn þessu félagslega hlutverki sínu. Stjórnarandstaðan á þingi getur auðvitað ekkert sagt við því, hún hefur ekki afl til að breyta því. En hún vill auðvitað ganga til móts við ríkisstjórnina, ef þess er einhver kostur, til að fresta þessu

a.m.k. ef ekki að koma í veg fyrir að þetta skref með eftirágreiðslurnar verði stigið.