Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 21:18:00 (6115)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram ítarlegar og fróðlegar umræður um Lánasjóð ísl. námsmanna og hefur verið komið víða við. Það sem ég kýs að staldra við núna er það sama og ég ræddi í fyrrakvöld og þó að hæstv. menntmrh. sé orðinn lúinn að heyra svipaða hluti aftur og aftur, og get ég út af fyrir sig vel skilið það, en það er partur af hlutverki ráðherra að hlusta á sömu ræðurnar nokkuð oft, ( Menntmrh.: Ég geri það.) þeir verða að þola það. Fyrir utan það að ræður stjórnarandstöðunnar eru ólíkt skemmtilegri núna en þær voru t.d. í fyrra og hittiðfyrra af vissum ástæðum. En það er svo aftur annað mál.
    Það sem ég ætlaði að víkja aðeins að í upphafi eru eftirágreiðslurnar sem hv. 11. þm. Reykv. var að ræða um áðan og við höfum rætt nokkuð stíft að undanförnu. Það er mál sem hefur ekki verið rætt fyrr en við 2. umr. Það er best að byrja á því að segja það að þau mál sem rædd voru við 1. umr. voru aðallega vextirnir, endurgreiðslukerfið og fleiri þættir af því taginu. Það er alveg hægt að halda því fram að meiri hluti hv. menntmn. hafi með nokkrum hætti komið til móts við þau sjónarmið eða fallist á eitthvað af þeim rökum sem fram komu við 1. umr. og er það vel þótt menn telji að sjálfsögðu að það hefði verið gott ef menn hefðu gengið lengra til móts við þau sjónarmið.
    Í 2. umr. hafa hins vegar augu okkar ekki síst beinst að þessu með eftirágreiðslurnar þar sem það hefur verið orðað þannig, a.m.k. af mér, að í raun og veru væri sjóðurinn lokaður í haust, það yrðu ekki greidd nein lán haustið 1992. Þetta væri svipað því og að svipta launamenn launum í nokkra mánuði.
    Nú hefur það gerst að hæstv. menntmrh. hefur haft forustu um það í kvöld á þessum fundi að bjóða upp á það eða taka undir það sem hefur komið fram frá mörgum talsmönnum stjórnarandstöðunnar að þetta mál með eftirágreiðslurnar verði sérstaklega skoðað og hæstv. menntmrh. orðaði það þannig að hann mundi skoða þetta mál á milli 2. og 3. umr. og hann mundi reyna, eins og hann orðaði það, að fá menn til að átta sig á því hvað það þýddi fyrir sjóðinn ef eftirágreiðsluákvæðinu yrði breytt og það er að sjálfsögðu eðlilegt að hæstv. ráðherra vilji gera það. Ég hygg þó að það sé alveg rétt sem hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan að þessi breyting með eftirágreiðslurnar mun ekki styrkja sjóðinn eða eiginfjárstöðu hans sem slíka. Hún gerir það ekki. Hún mun ekki minnka útlánaþörf sjóðsins þegar til lengri tíma er litið. Hún mun gera það árið 1992 en hún mun ekki gera það þegar til lengri tíma er litið. Þvert á móti hefur það komið fram að eftirágreiðsluaðferðin munu auka lánveitingar sjóðsins frá því sem ella væri af því að meiningin er að hækka námslánin vegna vaxtakostnaðar námsmanna í bönkunum meðan þeir eru að bíða eftir því að fá lánin sín. Með öðrum orðum, þessi aðferð mun þýða aukin útlán miðað við það sem ella væri til lengri tíma litið og þar af leiðandi þeim mun lakari stöðu sjóðsins. A.m.k. sé ég ekki nein rök fyrir því eins og stendur að þessi breyting með eftirágreiðsluna styrki sjóðinn til lengri tíma en ég er þó auðvitað tilbúinn til að skoða hvað eina í þeim efnum.
    Dæmið sem við erum að horfa á lítur þannig út að Lánasjóður ísl. námsmanna þarf að óbreyttum reglum 6,1 milljarð kr. á þessu ári. Hann hefur á fjárlögum 5,7 milljarða. Hann vantar að óbreyttum lögum 400 millj. kr. á þessu ári. Ef öllum haustlánunum er frestað þá er verið að fresta 1.200 millj. kr. af lánum yfir áramótin. Það þýðir að lánasjóðurinn er í plús miðað við fjárlögin um áramótin upp á 800 millj. kr. Hann er með afgang um áramótin upp á 800 millj. kr. miðað við fjárlögin eins og þau standa. Það sem ég skil ekki er af hverju menntmrh. tekur ekki um það ákvörðun hvað sem öllu öðru líður að borga a.m.k. út þessar 800 millj. kr. Það þýddi auðvitað að menn væru aðeins að borga upp í haustlánin en menn væru ekki að afnema þau eins og gert væri ráð fyrir í frv. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort þessi talnaskilningur, sem ég hef rakið, er ekki örugglega réttur. Auðvitað gæti mér sést yfir eitthvað í þeim efnum og þess vegna er nauðsynlegt að fá það upp hvort hæstv. ráðherra telur að um eitthverjar aðrar tölur sé að ræða. Ég held að það væri mjög æskilegt ef það væri hægt fara yfir málið á þessum grundvelli.
    Auðvitað erum ýmsir aðrir þættir í lánasjóðsfrv. sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að gagnrýna en ég segi fyrir mig að eins og staðan er núna þá tel ég þetta langversta ákvæði frv. og ég bendi á að hv. formaður menntmn. komst þannig að orði að það væri mikil harka í þessu ákvæði þannig að bersýnilegt er að meðal talsmanna stjórnarinnar í þessu máli er skilningur á því að þetta ákvæði gengur ekki. Ef hæstv. ráðherra er tilbúinn til þess að fara nánar yfir þetta mál eða láta nefndina gera það eða einhverja aðra aðila eftir atvikum --- það geta auðvitað ýmsir aðrir gert það --- þá horfir þetta mál auðvitað allt öðruvísi við ekki aðeins í augum stjórnarandstæðinga er ég sannfærður um heldur líka námsmannahreyfingarinnar og námsmannanna sjálfra og fjölskyldna þeirra. Ef það er hins vegar ekki ætlunin, virðulegi forseti, að greiða þessar 800 millj. kr. út núna á þessu ári þá vaknar upp sá grunur að það sé ætlunin að nota þennan afgang í sjóðnum núna, 800 millj. kr., um næstu áramót til að minnka sem því nemur framlögin í sjóðinn og/eða lántökur sjóðsins á árinu 1993 sem yrðu þá þar með innan við 5 milljarðar kr. Auðvitað getur vel verið að það sé meiningin hjá hæstv. ríkisstjórn að hafa það þannig og þá er ekkert annað að gera en að viðurkenna það. En það hlýtur í raun að hafa verið skýringin til þessa þó svo menn vilji gjarnan skoða þetta mál betur núna og ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir yfirlýsingar hans um það efni áðan þó að segi það bæði hans vegna og mín vegna alveg skýrt að ég skildi hann ekki svo að hann væri að lofa neinni efnislegri breytingu heldur aðeins að heita því að hann skyldi skoða málið.

    Í umræðum um málið að öðru leyti hefur auðvitað mjög margt komið fram sem væri ástæða til að fara yfir núna á þessum kvöldfundi. Það er ekki ætlun mín að fara nákvæmlega út í alla þá hluti sem hér hafa verið nefndir aðra en þá sem hæstv. ráðherra vék að minni ræðu í svari sínu ég held í gær. Hæstv. ráðherra kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með orðbragð ræðumanns. Það kom mér mjög á óvart vegna þess að ég er að jafnaði, eins og allir þingmenn vita, orðvar. Einkum þótti mér það leitt þegar hæstv. ráðherra lagði mér það í munn að ég hefði talið að ráðherrann væri þekktur fyrir þjóðkunnan skepnuskap. En þannig háttar til að í ræðu minni var ég að tala um ályktanir sem m.a. hafa birst frá samstarfsflokki hans, Alþfl., þar sem fram kemur að það verið að kenna menntmrh. um þetta mál og það sé Alþfl. óviðkomandi. Ég tel mig geta flutt mál mitt þannig að sæmilega glöggir menn eigi að geta heyrt hvort orð ættu að vera í tilvitnunarmerkjum eða ekki án þess að ég segi það í ræðu minni vegna þess að það mundi lengja ræður mínar oft verulega ef ég segði ævinlega ,,gæsalappir`` þar sem þær þyrftu kannski að vera til að halda öllu návæmlega til haga. Og mér finnst hæstv. ráðherra vera allt of viðkvæmur eða hafa heyrt allt of illa þegar hann leggur ræðu mína út á þennan veg eins og hann gerði vegna þess að eins og hann getur sagt sér sjálfur þá mundi ég aldrei hafa notað þessi orð um hæstv. menntmrh. og jafnvel ekki hæstv. heilbrrh. og er þá langt gengið.
    Ég vil einnig svara því sem hæstv. ráðherra kvartaði undan að ég hefði verið að gagnrýna sérstaklega formann og framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna og þeir væru fjarstaddir. Ja, hvernig á maður eiginlega að fara að í þessum stól ef það má aldrei gagnrýna menn sem eru ekki hér í húsinu? Það er orðið dálítið snúið og dálítið erfitt. ( GHelg: Það bjargar stjórnarflokkunum algjörlega frá allri gagnrýni.) Já, af því að þeir eru aldrei í húsinu. Það væri það. ( Menntmrh.: Það fer eftir því hvernig það er gert.) Og auk þess fer það að sjálfsögðu eftir því hvernig það er gert en hins vegar hefur hæstv. ráðherra, guði sé lof, engan sérstakan kórréttan mælikvarða í þeim efnum þannig að í þeim efnum verður auðvitað hver að liggja eins og honum sýnist.
    Hæstv. ráðherra kvartaði nokkuð undan því að við höfum talað um það og kannski ekki síst ég að í gangi væri ófrægingarherferð á hendur íslenskum námsmönnum. Því hefur verið svarað af öðrum þingmönnum eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. t.d. og fleiri þannig að ég tel ástæðulaust að fara nánar út í það.
    Fjórða atriðið, sem ég hyggst nefna úr ræðu hæstv. ráðherra þegar hann svaraði minni ræðu, snertir hins vegar afföllin. Hann orðar það þannig: ,,Í einhverjum tilfellum þarf að fella niður eftirstöðvar.`` Þetta er allt of óskýrt eins og það stendur núna. Það er alveg nauðsynlegt fyrir stjórn lánasjóðsins hver svo sem hún verður og hvernig svo sem þetta veltist allt að fá þetta skýrar. Hérna geta menn ekki búið við þá óvissu sem yfirlýsingar ráðherra benda til og hafa í för með sér um þessar mundir. Hæstv. menntmrh. hefur orðað það a.m.k. einu sinni þannig á opinberum fundi eða hvort það var hér á Alþingi að eftirstöðvarnar ætti að fella niður, það yrðu heimildir til að fella eftirstöðvarnar niður í því samhengi að mjög verulegar upphæðir væru eftir þegar menn létu af störfum. Og það var hægt að skilja þá yfirlýsingu hans þannig að það ætti að vera svo þegar verulegar uphæðir væru eftir þegar menn létu af störfum. ( Menntmrh.: Að teknu tilliti til eignastöðu viðkomandi.) Að teknu tilliti til eignastöðu viðkomandi. Það skýrir en það er hins vegar, hygg ég, hvergi í textum málsins þannig að ég tel að þetta sé t.d. veruleg skýring, ég segi það alveg eins og er og það getur út af fyrir sig verið að mér hafi sést yfir og að þetta hafi komið fram en þetta er mjög mikilvæg skýring í málinu og nauðsynlegt er að fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann endurtaki það þá úr þessum ræðustóli ef það hefur ekki þegar verið gert.
    Ég teldi hins vegar æskilegt að fari málið til nefndar á milli 2. og 3. umr. á nýjan leik sem er ekki óeðlilegt þá verði þessi texti á blaði í frhnál. vegna þess að hann er svo mikilvæg leiðsögn fyrir sjóðinn þegar fram í sækir.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara að rökræða núna við hæstv. menntmrh. um almenn pólitísk atriði þó að hann kysi að nota ræðu sína hér í gær til þess á köflum að haga sér eins og hann væri á framboðsfundi í Reykjaneskjördæmi. Ég ætla t.d. ekki að fara að rökræða það sérstaklega við hann hvort námslán séu sambærileg við vinnulaun eða ekki en fyrir námsmönnum eru þau auðvitað að þeim hættinum sambærileg að þau eru framfærslueyrir þessa fólks og þess vegna er það auðvitað nákvæmlega jafnharkalegt að taka námslán af fólki eins og að taka laun af fólki.
    Ég vildi aðeins leyfa mér, ef ég má trufla þennan fund sem þarna fer fram, ( Menntmrh.: Við heyrum.) Þið þurfið báðir að heyra, takk. Hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði nú fyrir ráðherrann og fer vel á því. Þá vildi ég aðeins inna eftir því hvernig ráðherra hugsar sér að námsmenn fái vaxtakostnað bættan við útreikning lána. Ég tel einnig að það sé mjög mikilvægt að það atriði komi fram þegar fjallað verður um málið milli 2. og 3. umr. Það hefur verið þannig að námslánin hafa byggst á tilteknum framfærslugrunni sem hefur verið fenginn með könnun sem Hagstofa Íslands hefur framkvæmt á hverjum tíma. Er ætlunin að það fari fram ný framfærslukönnun eða er ætlunin að nota gömlu framfærslukönnunina og tengja þá vaxtakostnaðinn við hana? Ég sé ekki alveg í fljótu bragði hvernig hæstv. ráðherra og ráðuneyti hafa hugsað sér að taka á þessu máli og því æskilegt að það verði rætt hér ítarlegar.
    Ég vil síðan nefna lítillega eitt pólitískt atriði sem hæstv. menntmrh. tönnlaðist á enn þá einu sinni í gær og snertir kjarabætur til námsmanna á þjóðarsáttartíma. Hann var greinilega ekkert mjög ánægður með þær kjarabætur, taldi að þær hefðu verið óheyrilegar miðað við allar aðstæður. Hverjar voru þær kjarabætur sem hæstv. menntmrh. var að tala um? Það voru breytingar á framfærslugrunni námslánanna þannig

að þær skerðingar sem ákveðnar höfðu verið í menntamálaráðherratíð Sjálfstfl. á árum áður voru bættar. Það var í raun og veru sú eina breyting sem átti sér stað auk þess sem útlánaheimildir voru skornar niður m.a. vegna þess að tekjutilliti var breytt.
    Hvað eru þessar hækkanir miklar ef við lítum t.d. yfir tíu ára tímabil eða svo miðað við launamenn almennt? Staðreyndin er sú að þessar hækkanir eru nokkurn veginn þær sömu og launamenn fengu á sama tíma. Hér var verið að rétta námsmenn við miðað við launamenn þannig að námsmenn væru með svipaðan kaupmátt og launamenn höfðu haft. Hér var því ekki um það að ræða að það væri verið að hækka námsmenn umfram hina almennu launamenn í landinu. En þetta sjónarmið heyrðist. Það er ekki nýtt. Og ég tel að þetta sjónarmið sé hluti af afskaplega leiðinlegri umræðu sem hefur verið í gangi um námsmenn og kjör þeirra á undanförnum árum, að þeir væru svo miklu betur settir en aðrir og menn hafa verið að því, stundum vísvitandi, að skapa úlfúð og tortryggni á milli námsmanna og launamanna. Það er afskaplega ljótur leikur að skapa úlfúð og tortryggni á milli námsmanna og launamanna í landinu.
    Loks er það þannig að þær breytingar sem gerðar voru á framfærslugrunninum í minni tíð voru í samræmi við lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var verið að framkvæma lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 1982 undanbragðalaust og ég heyrði engar, ég endurtek, engar tillögur um að breyta þeim lögum í skerðingarátt fyrir kosningar eða á síðasta kjörtímabili, t.d. af hálfu Sjálfstfl. Engar. Það voru engar tillögur uppi um það heldur þvert á móti. Hverjir voru aðaltalsmenn Sjálfstfl. í lánamálum námsmanna á síðasta kjörtímabili? Hverjir voru það? Það voru trúnaðarmenn Vöku í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Sumir þeirra prýddu síðan framboðslista Sjálfstfl. í síðustu kosningum. Þessir menn, a.m.k. einn þeirra, varamaður hæstv. menntmrh. á Alþingi, töldu að það væri allt of skammt gengið í að hækka námslánin og það gerðist allt of seint. Þeir mótmæltu öllum skerðingum sem voru ákveðnar í minni tíð á námslánunum, hvort sem það var breytt tekjutillit eða annað. Þannig að Sjálfstfl. er auðvitað að þessu leytinu til eins óheill og hugsast getur að koma svo í bakið á fólki eftir kosningar með þeim hætti sem gerð var tillaga um þegar frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna var lagt fyrir Alþingi.
    Ég vísa þessum orðum hæstv. menntmrh. því algjörlega á bug og ég nota sömu orð um þau og hann um ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. Ég segi: Það voru ósæmileg orð vegna þess að hann veit hvernig hlutirnir eru. Hann veit að vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna stafar fyrst og fremst af einu. Fyrst og fremst því að frá því að lögin voru sett hefur námsmönnum fjölgað gífurlega og langt umfram það sem menn gerðu ráð fyrir þegar lögin voru sett 1982.
    Hæstv. ráðherra tók það fram og fullyrti að víða væri boðuð sókn í mennta-, rannsókna- og vísindamálum um þessar mundir. Hann taldi það upp að hann hefði skipað nefnd til þess að móta tillögur um vísindastefnu. Það fannst mér athyglisvert því að sú vísindastefna er til og var gerð um það samþykkt á síðasta ári og tekin um það ákvörðun, eins og hæstv. ráðherra þekkir, að auka framlög til rannsókna og vísinda á síðasta ári að raunvirði um 22%. Auðvitað er það kjarni málsins að við ræðum aðeins um Lánasjóð ísl. námsmanna með hliðsjón af rannsóknum, vísindum, menntun og lífskjörum í þjóðfélaginu. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt hér á hv. Alþingi að ná upp stemningu fyrir vísindum og rannsóknum, að ég segi nú ekki meira.
    Ég man eftir því í fyrra eða hittiðfyrra þegar ég talaði á Alþingi fyrir þessari vísindastefnu til tíu ára, að það voru tveir eða þrír þingmenn sem höfðu áhuga á málinu að mig minnir og mér tókst að slíta þá upp í ræðustólinn á eftir mér með því að móðga þá um leið og ég fór niður úr stólnum vegna þess að ég sá að annars mundi stefna í hreint óefni um umræður um þetta mikilvæga mál.
    Auðvitað er það alveg rétt að það hefur verið mjög erfitt að fá Alþingi til að skilja hvað rannsóknir og vísindi þýða í raun og veru. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem sat á árunum 1983--1987, og var að flestu leyti heldur vond ríkisstjórn, satt að segja afar vond á köflum, en hún beitti sér fyrir því að stofna svokallaðan Rannsóknasjóð. Hann var mikið framfaraspor, satt að segja eitt mesta framfarasporið í rannsóknum sem maður hefur séð lengi í þessu landi.
    Þetta var hvati fyrir fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir til þess að fara út í rannsóknir og þróunarvinnu, grunnrannsóknir m.a. á ýmsum sviðum. Okkur tókst að halda því verki áfram sem þar hafði verið hafið af miklum myndarskap. En Steingrímur Hermannsson, fyrrv. hæstv. forsrh., var eins og kunnugt er lengi framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins og hefur alltaf sýnt þessum málum mikinn skilning og mikinn áhuga.
    Það er merkilegt að einmitt þessa daga, sem við erum að ræða um frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna, eru allt í einu að birtast í fjölmiðlum sem taka helst ekkert nema rokufréttir, stórtíðindi úr þessum rannsóknarheimi, sem er yfirleitt heldur hljóður og hversdagslegur og lítil tíðindi fara af. Rannsóknamenn, vísindamenn, ég tala nú ekki um þá sem eru í grunnrannsóknum, eru lítið fyrir að berja bumbur. En allt í einu þá kemur það upp að verkefni, sem hefur verið unnið í samvinnu opinberra aðila og íslenskra fyrirtækja, er að skila stórtíðindum. Hugbúnaðarverkefni þar sem gert er ráð fyrir þvílíkum stærðum á hugbúnaðarmarkaði að okkur óraði ekki fyrir að slíkt gæti gerst á Íslandi. Hér er um að ræða verkefni sem er þannig að þó að framleiðslan og markaðssetningin mundi að talsverðu leyti fara fram erlendis þá mundi forritunarvinna fara fram hér, skapa möguleika á að ráða hingað í vinnu bestu forritara í heimi, eins og sagði í frétt sjónvarpsstöðvarinnar Stöðvar 2 í gærkvöld. Það er verið að tala um þúsundir milljóna, segir talsmaður verkefnisins í sjónvarpsfréttum. Við erum að tala um að markaðstækifærið hljóði upp á fjárlög Íslands. Öll hönnunar- og þróunarvinna við þetta verkefni hefur farið fram í Tæknigarði við Háskóla Íslands, en Tæknigarður er í raun og veru ein undirstaðan undir samvinnu fyrirtækja og rannsóknastofnana. Það hefur einnig verið erfitt að skapa skilning hér fyrir þessu. Fréttamaðurinn er svo gapandi hlessa á þessum undrum að hann lýkur fréttinni með þessum orðum, í gærkvöldi, með leyfi forseta: ,,Af þessu öllu má kannski draga þá ályktun að framtíðin felist ekki í þorski og ýsu eða loðdýrum eða fiskeldi, heldur í hugmyndum og þekkingu hérna í háskólanum.``
    Það skyldi þó aldrei vera þannig að framtíðarlífskjör íslensku þjóðarinnar, sem eru auðvitað ofin úr mörgum þáttum, verði ekki síst tryggð með því að við séum með öfluga rannsókna- og vísindastarfsemi til þess að við getum orðið samkeppnisfær við aðrar þjóðir um lífskjör. Þá er það þekking og aftur þekking sem skiptir máli. Og það alvarlega við þá menntastefnu almennt, sem fylgt er um þessar mundir, er auðvitað það að hvergi er verið að lyfta neinu upp í ljósið. Það er hvergi flagg. Það er alls staðar skorið og hæstv. menntmrh. segir, það er hans skoðun og ég ætla ekki að fara að ræða það við hann: Við tókum við vondu búi. Ég get svo sem rætt það við hann við tækifæri, en ég ætla ekki að gera það núna. En spurningin er þá sú: Er það endilega víst að menntmrn. eigi að skerast flatt rétt eins og allir aðrir? --- Ég segi nei.
    Ef við lítum t.d. á framlög Íslendinga til heilbrigðismála þá eru þau svipuð og gerist með öðrum þjóðum sem hlutfall af þjóðartekjum. Ef við lítum á framlög til menntamála þá eru þau af þjóðartekjum milli 3,5 og 4%, en í grannlöndum okkar tala menn um 6,5--8% af þjóðartekjum. Þetta ástand er stórhættulegt ef það fær að halda svona áfram. Þetta nefni ég ekki vegna þess að ég telji að hæstv. menntmrh. viti út af fyrir sig ekki um þessar staðreyndir, heldur vegna þess að ég vil leggja honum lið í þeirri baráttu að halda menntamálunum fyrir utan þennan flata niðurskurðarhníf sem gengur yfir allt kerfið með algjöru miskunnarleysi og skilar yfirleitt engum sparnaði að lokum. Það er nefnilega það kostulega við hann.
    Þess vegna segi ég að við eigum að hafa þann metnað fyrir hönd skólakerfisins, menntastofnana landsins, rannsókna og vísinda og m.a. lánasjóðsins okkar, að gera kröfur fyrir hönd þess fólks sem þarna er af því að þar er framtíðin. Ef menntakerfið veikist frá því sem nú er þá veikist lífskjaragrundvöllur þjóðarinnar í heild. Sumir þættir í skólakerfi okkar eru auðvitað góðir, mjög góðir. Það unga fólk okkar, sem fer t.d. til háskólanáms erlendis, er fyllilega samkeppnisfært við það fólk sem kemur úr öðrum skólum í öðrum löndum. Það er ótrúlegt í raun og veru hvað kennarar okkar skila góðu verki miðað við þær aðstæður sem þeir búa við og fá stundum ótrúlega litlar þakkir fyrir. Engu að síður er það svo að hlutar af okkar skólakerfi eru fjarska veikir. Langveikast er grunnskólakerfið, að mörgu leyti, og síðan auðvitað sú feiknalega bylting sem hefur orðið í framhaldsskólakerfinu þar sem menn hafa ekki haft möguleika til þess, hvorki húsnæði, kennara eða peninga eða neinar aðstæður til þess að taka á móti öllu því unga fólki sem kemur inn í framhaldsskólana eins og þeir eru.
    Á þessum tveimur sviðum, í neðstu bekkjum grunnskólanna og í framhaldsskólunum, þurfum við að breyta. Við þurfum að breyta bóknámsáherslunni þar sem við glímum við þann vanda að verulegur hluti þeirra, sem veita framhaldsskólunum forstöðu, eru menn sem eru aldir upp í bóknámsumhverfi og eiga mjög erfitt með að finna viðspyrnu annars staðar. Það þarf sem sagt að vinna eftir sóknaráætlun í menntamálum, áætlun til nýrrar aldar sem stefnir fram á við, þótt núv. ríkisstjórn hafi ákveðið að leggja framtíðarnefndina niður, eins og kunnugt er, af því það er svo erfitt að spá um framtíðina þó það sé ekki nærri eins erfitt eins og um nýliðna fortíð, eins og hér var vitnað til í morgun. Einn af fyrrverandi leiðtogum ríkisstofnananna sagði í sjónvarpsviðtali á gamlárskvöld fyrir nokkrum árum og var rifjað upp hér í dag að erfiðast af öllu væri að spá um nýliðna fortíð. Það væri eiginlega alveg útilokað mál að eiga við það.
    Þessir þættir, sem ég hef hér rakið varðandi menntamálin, eru hér fluttir fram til að undirstrika rök fyrir því að frv. verði breytt og undirstrika nauðsyn þess að á því verði tekið núna strax að breyta ákvæðum 6. gr. um eftirágreiðslurnar því að ef við missum krakka úr námi í haust sem hefðu ella haldið áfram getur það auðvitað dregið langan slóða á eftir sér fyrir þessi börn og þar með fyrir þjóðfélagið í heild. Það eru til miðað við forsendur fjárlaga 800 millj. kr. upp í þessar 1.200 millj. sem þarf að borga um áramót miðað við fjárlögin eins og þau eru. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvort talnaskilningur minn í þessu efni væri réttur og ég endurtek þá spurningu.
    Ég vil aðeins spyrja að lokum hæstv. menntmrh. um eitt atriði, praktískt atriði. Þannig er að samkvæmt frv. er eins og verið hefur gert ráð fyrir því að það þurfi að sanna tiltekinn námsárangur til þess að ná lánsréttindum. Nú er það svo að í sumum deildum Háskóla Íslands og reyndar víðar búa menn við ákvæði sem heitir ,,numerus clausus`` og menn geta í raun og veru náð prófi án þess að fá réttindi til þess að halda áfram. Þetta á við um tannlæknadeild Háskóla Íslands og þetta á við um læknadeildina alveg sérstaklega. Ég held að það sé mjög mikilvægt að á þessum málum verði sérstaklega tekið og þó þau séu nánast jaðarmál þá tel ég sjálfsagt og óhjákvæmilegt að þau verði rædd hér nánar.
    Virðulegi forseti. Ég hef heyrt það á hæstv. menntmrh. að honum finnst að það hafi verið haldnar hér allmargar ræður og hann hefur kvartað yfir því að þær væru hverri annarri líkar. Út af fyrir sig er sjálfsagt ekki mikill vafi á því að þær eru mismunandi skemmtilegar a.m.k. og sums staðar er komið býsna víða við og menn renna sér gjarnan í svona umræðum mjög um himinskautin, eins og kunnugt er þó ég hafi nú séð hann svartari en í þessum umræðum svo ég tali nú ekki neitt um hv. 2. þm. Norðurl. e. í því sambandi, Halldór Blöndal, sem er sá maður sem hefur rennt sér víðast um vetrarbrautirnar í umræðum þegar hann var og hét í stjórnarandstöðu. Mér er reyndar sagt að hann hafi beðið um orðið í dag um þingsköp af gömlum vana og þykir mér það ánægjuleg tíðindi að sjá lífsmark með honum aftur.
    Hér hafa talað mjög margir þingmenn, já, úr stjórnarandstöðunni flestir. Farið ítarlega yfir hlutina og hafa umræður staðið yfir sjálfsagt hátt í 20 klukkutíma. Það er af því að menn telja þetta vera stórt mál og það er það. Það er ekki af því að menn séu af einhverjum almennum --- svo ég leyfi mér nú að nota og ég vona að ráðherrann misskilji það ekki núna ,,af þjóðkunnum skepnuskap`` --- það er ekki vegna þess að við séum af einhverjum þjóðkunnum skepnuskap að hamast á ráðherranum heldur er það fyrst og fremst vegna þess að við teljum þetta mikið alvörumál sem snertir þjóðfélagið mjög víða.
    Ég geri ráð fyrir því að þegar menn lesa þingtíðindi, ef menn gera það einhvern tímann, þá munu menn sjá að hérna hafi verið farið mjög víða yfir en það undirstrikar þá alvöru málsins sem við teljum vera til staðar í þessu og ég segi fyrir mig persónulega, sem manni leyfist kannski stundum að tala í nafni sjálfs sín í þessum stól, að ég tel að hér sé eitt af allra stærstu og viðkvæmustu málum þingsins og ég segi það af fullri einlægni að ég teldi það verulega mikil og ánægjuleg tíðindi ef ákvæðum 6. gr. um Lánasjóð ísl. námsmanna yrði breytt í samræmi við forsendur fjárlaga. Í raun og veru er ég ekki að tala um neitt annað en það í fyrsta lagi að menn skoði forsendur fjárlaga, fari vandlega yfir þær og velti fyrir sér hvort ekki er hægt að standa öðruvísi að málum en gert hefur verið ráð fyrir til þessa.