Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 22:19:28 (6119)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðherra hefur oft og tíðum sagt úr þessum ræðustóli í andsvörum, að þetta fer að verða nokkuð langt mál og margir ræðumenn hafa talað og oft er verið að endurtaka sömu hlutina eða sömu staðreyndirnar. Ég er sammála þeim málflutningi hv. þm. Svavars Gestssonar að eftir allar þær umræður sem hér hafa farið fram um Lánasjóð ísl. námsmanna og þetta nýja frv. um hann eru þær eftirágreiðslur, sem fyrirhugaðar eru, stærsta málið sem stendur eftir eftir þó þær

breytingar, sem komnar eru fram og sem allir hafa lýst yfir að horfi til betri vegar
    Nú hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir úr þessum ræðustól að hann hyggist skoða það mál milli 2. og 3. umr. og þó að hann hafi að vísu ekki lofað einu eða neinu um hver árangurinn yrði af þeirri skoðun þá hljótum við að ætla að hann geri ekki ráð fyrir því að við þurfum að endurtaka allar þær ræður sem hér hafa verið fluttar í 2. umr. til þess enn þá einu sinni að ítreka þessa niðurstöðu okkar.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um þau ummæli sem hæstv. ráðherra lét falla í gær. Í fyrsta lagi sagði hann að við gætum ekki annað en farið að fjárlögum í sambandi við úthlutanir úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er vissulega rétt að æskilegast og best væri að allar stofnanir gætu farið að fjárlögum og var það ítrekað mjög í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur í dag þegar hún fjallaði um ríkisreikning 1989. Samt er það svo að um helmingur þeirra stofnana, sem eru færðar í ríkisreikningi, hafa farið fram úr fjárlögum á árinu 1989. Og þó að eðlilegast og best væri að nákvæmlega væri hægt að fara eftir fjárlögum þá vill svo til að í mörgum tilfellum er það ekki hægt. Það er e.t.v. ekki hægt að öllu leyti í málefnum lánasjóðsins vegna þess að ekki er vitað svo nákvæmlega þegar áætlun er gerð hversu margir munu sækja um og hafa rétt á láni. Það er e.t.v. ekki heldur hægt í framhaldsskólakerfinu vegna þess að stundum eru fleiri nemendur sem ætla sér þar inngöngu en áætlanir gerðu ráð fyrir, samanber á síðasta hausti. Það er heldur ekki hægt í heilbrigðiskerfinu vegna þess að það geta orðið fleiri sjúklingar sem þurfa á aðstoð að halda en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Það er því ekki alltaf hægt að fara nákvæmlega að þeirri áætlun sem gerð er í fjárlögum. Það verður oft að taka tillit til mannlegra sjónarmiða.
    Hæstv. ráðherra hefur nokkuð ásakað okkur kvennalistakonur fyrir það að við höfum nefnt að við vildum að ríkissjóður kæmi inn í málefni lánasjóðsins með yfirtöku skulda til þess að rétta hag hans sem raunverulega þarf ekki að gera nema tímabundið þar sem lánasjóðurinn á að koma til með að geta staðið undir öllum sínum skuldbindingum í framtíðinni. Við höfum svo mörg dæmi um það að ríkissjóður þarf að koma inn í til að jafna félagslega aðstöðu að það er eitt af því sem við leggjum mesta áherslu á að ríkissjóður standi við. Það er að hann hafi bolmagn til þess að sinna þeim félagslegu málefnum sem hver siðmenntuð þjóð, eins og Íslendingar, telur sig eiga heimtingu á. Og hvers vegna ættu námsmenn í dag að þurfa að greiða fyrir þann gamla upsafnaða vanda sem sjóðurinn hefur komist í? Okkur finnst það alls ekki réttlátt.
    Í öðru lagi ætla ég að nefna að þó að námsmenn muni fá í eftirágreiðslum lána bættan vaxtakostnaðinn með hærra láni vegna þess vaxtakostnaðar sem þeir þurfa að taka á sig við að taka bankalán áður en þeir fá námslánin greidd þá er vitaskuld ekkert verið að bæta hag námsmanna í sjálfu sér með því. Þeir þurfa eftir sem áður að greiða það þó að það verði þá á lengri tíma. Þeir sem græða á þessu eru fyrst og fremst bankarnir og það kemur mjög vel fram í blaðagrein sem mjög nýlega birtist í Morgunblaðinu þar sem Björn Ragnarsson spyr hver tilgangurinn sé. Með leyfi forseta segir svo í greininni um þessa breytingu að námsmenn fái greitt eftir á:
    ,,Tilgangur og kostur umræddrar brtt. er mjög vandséður. Ef mikið er rýnt þá eygir maður jú að ekki koma til greiðslur frá lánasjóðnum fyrr en eftir næstu áramót. Það mun leiða af sér hagstæðari áramótastöðu en verið hefur undanfarin ár og ríkisstjórnin getur strax farið að stæra sig af árangri. En hvað svo? Fljótt eftir áramótin þarf að greiða námslánin út og síðan tvisvar á ári eftir það og ekki trúi ég að svo mikil skammsýni sem áramótastaða fyrsta árs ráði gerðum ríkisstjórnar Íslands. Aðra ástæðu er þó erfitt að eygja nema ef vera skyldi að skapa bönkunum enn frekari tekjur en þeir fá í dag því að varla er tilgangurinn með þessari tillögu að mismuna íslensku fólki til náms, eða hvað?``
    Skyldi það vera svo að þarna sé verið að hagræða fyrir bankakerfið? Bankarnir munu vissulega græða á þessu. Þeir þurfa að leggja út talsvert mikið af námslánum sem námsmenn þurfa síðan að bera vextina af þó að þeir fái lán greidd til þess eftir á.
    Þá sagði ráðherra einnig að þegar þrengir að í þjóðarbúinu sé það vænlegur kostur að styðja námsmenn. Það er vissulega alveg rétt. Ég tek undir þau orð hans því að það er tilhneiging hjá fólki til að mennta sig þegar minna er um atvinnu og auðvitað er það miklu vænlegri kostur að styðja fólk til að afla sér menntunar sem seinna meir nýtist þjóðarbúinu en að ríkissjóður þurfi að fara að greiða því atvinnuleysisbætur. Og í framhaldi af því langar mig til að geta þess sem hv. þm. vita kannski að í Noregi verða menn stundum að nýta sér það að vera líka á atvinnuleysisbótum til þess að geta stundað skóla. Ég ætla samt að vona að við hér á landi ætlum námsmönnum ekki að reyna að leika þann leik að hafa atvinnuleysibætur og stunda þannig skóla.
    Ráðherra hafði jafnframt áhyggjur af því að þó að við værum búin að styðja námsmenn með námslánum og margir menntuðu sig þá mundi þetta menntaða fólk flytjast úr landi því að það fengi ekki atvinnu. En ég vil bara spyrja: Er það eitthvert náttúrlögmál að menntað fólk þurfi að flytjast úr landi? Hvers vegna höldum við ekki áfram að byggja upp þær atvinnugreinar sem geta tekið við menntuðu fólki? Við vitum að það verður færra og færra fólk sem sinnir framleiðslugreinunum á næstu árum. ( Menntmrh.: Þetta er ranglega eftir mér haft.) Þær taka ekki við. Hæstv. ráðherra hafði áhyggjur af því að þetta menntaða fólk mundi flytjast úr landi og þess vegna tel ég að hæstv. ríkisstjórn ætti frekar að hugsa til þess að virkja það hugvit og þá menntun sem hún getur átt í íslenskum námsmönnum. Hún ætti að hafa hugrekki til þess að styrkja þær stoðir sem hægt er að styrkja í atvinnulífi Íslendinga. Til dæmis er á sjúkrahúsum landsins mikið af menntuðu fólki sem gæti unnið stórvirki og það gæti orðið nokkurs konar útflutningur að taka inn

sjúklinga erlendis frá og það væri hægt vegna þess að hér höfum við svo mikið af góðu og vel menntuðu startfsliði á sjúkrahúsunum sem vel getur bætt á sig störfum ef það fengi leyfi til þess og við það gæti vinna einnig aukist. Við getum orðað það svo að flytja út þekkingu með því að taka sjúklinga frá öðrum löndum og sinna þeim hér. Hvers vegna eigum við bara að senda sjúklinga til annarra landa og greiða fyrir þjónustuna þar þegar við getum sinnt þessu fólki, bæði Íslendingum og fleirum ef aðstaða væri fyrir hendi?
    Hvarvetna í þeim tilkynningum sem við þingmenn höfum fengið inn frá námsmönnum kemur mjög fram að jafnrétti til náms verði eitthvað sem muni heyra sögunni til. Eitt stærsta dæmið sem þar er tekið er að námsaðstoð verði greidd eftir á. Það skín alls staðar í gegn að fáist hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. menntmrh. til að gera breytingar á því þá sé þetta annars slæma frv. orðið ásættanlegra. Ég ætla því að vona að hæstv. ráðherra muni virkilega beita sér fyrir því að þetta verði endurskoðað milli 2. og 3. umr. og að það komi út úr því að við þurfum ekki að eyða jafnmiklum tíma í að ræða þetta frv. í 3. umr.
    Ég ætla aðeins að nefna eitt atriði í viðbót sem varðar föstu endurgreiðsluna. Í frv. menntmrh. er hún 48 þús. kr. Ég vék nokkuð að þessu í minni fyrri ræðu en vegna tímaskorts hafði ég ekki tíma til að svara því í andsvörum á eftir. Ég spurði hvort það væri hugsanlegt að endurgreiðslan, þessi fasta upphæð, væri hærri en 5% af árstekjum þess sem þyrfti að greiða þetta til baka. Hæstv. ráðherra svaraði því til að það væri ekki hugsað að meta það svo heldur væri þetta föst greiðsla eins og reyndar kemur fram í frv. Ég vil þá benda á það að þegar árstekjurnar eru lægri en 960 þús. þá er þetta auðvitað miklu meira en 5% eins og áætlað er að greiða til baka fyrstu árin. Það er alveg til í dæminu að mánaðarlaun séu ekki nema um 60 þús. kr. fyrstu árin og ég tala nú ekki um ef fólk væri ekki í fullu starfi. Ef við gefum okkur það að launin væru 60 þús., þ.e. 720 þús. kr. í árstekjur, þá er hlutfallið ekki lengur 5% heldur tæp 7% á fyrstu árunum en þó er ekki hugsað að þær endurgreiðslur hefjist fyrr en eftir fimm ár. Hérna tel ég að sé verið að sverfa að láglaunafólki með því að hafa fasta greiðslu en ekki miðað við tekjur eins og er í núgildandi frv.
    Allt frv. gengur í raun út á það að námsmönnum þurfi að fækka, þeir séu of margir. Og þá er það ráð tekið að setja lög sem útilokar þá frá námi sem ekki eiga efnaða foreldra eða aðstandendur. Er þá ekki verið að hengja bakara fyrir smið? Það er verið að koma í veg fyrir svokallaða misnotkun sem námsmenn hafi gert sig seka um. Vera má að einhver misnotkun hafi átt sér stað ef núverandi kerfi hefur boðið upp á það. Ef svo er, þá þekkja námsmenn það og vilja leggja sig fram um að koma í veg fyrir það án þess að allur þorri námsmanna þurfi að gjalda fyrir. En það er ekki haft samráð við þá og það er því miður í samræmi við ýmislegt annað í stefnu ríkisstjórnarinnar í mörgum málum. Hún hefur ekki leitast við að hafa samráð við þá sem verða þolendur gerða hennar.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. en vísa enn og aftur til þeirra ummæla hæstv. ráðherra að hann muni skoða málið um eftirágreiðslu námsmanna mjög vel milli 2. og 3. umr.