Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 23:32:00 (6127)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tel mig hafa svarað þeim spurningum sem hv. þm. kom með að svo miklu leyti sem ég get svarað þeim þar sem úthlutunarreglurnar hafa ekki verið samþykktar, það liggur ljóst fyrir. En ég hef samt nefnt nokkur atriði sem stjórn lánasjóðsins hefur þegar rætt í sínum hóp og ég hef rætt við framkvæmdastjóra lánasjóðsins. Ég nefni þar vextina af bankalánum, hvernig farið verði með þá og nefndi fyrir stuttu í andsvari búsetu, fjölskyldutillit og fleira.
    Það er enn spurt um þá upphæð sem kann að flytjast milli ára og talað þar um 800 millj. kr. Ég er líka búinn að skýra frá því í umræðunni --- ég geri enga kröfu til að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi heyrt það svar mitt, vegna þess að ekki er hægt að ætlast til þess að hann sitji hér undir allri umræðunni, en ég hef þegar sagt að af ríkisframlaginu sé þegar búið að greiða 1.950 millj. kr., það hefur þegar verið greitt. Í fjárlögum eru 2.220 millj. þannig að eftir standa þar 270 millj. Lánsfjárheimildir hafa hins vegar ekki verið nýttar að fullu.