Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 00:15:00 (6130)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það getur nú verði að það sé á mörkunum að um andsvar sé að ræða. En vegna ræðu hv. 4. þm. Reykv. get ég ekki stillt mig um að benda á einfalda staðreynd máli hans til stuðnings. Um þessar mundir eru örfáir menn búnir að ljúka verki suður í háskóla við tölvur sínar. Við höfum heyrt barlóminn um hvað eigi að gera við alla þessa tölvufræðinga, fjöldi þeirra hefur aukist nokkuð á síðustu árum. Í viðtali við kennara við háskólann síðast í gær, í sjónvarpi minnir mig, var talað um að þetta verk mundi líklega leiða til þess að Íslendingar væru að framleiða útflutningsvöru í hugbúnaði sem gæti skipt hundruðum milljóna. Og ég segi eins og hv. 4. þm. Reykv., kannski menn skilji þá til hvers tölvufræðingar eru, hvað má gera við þá ef einhver gæti hugsanlega grætt á þeim. En mér sýnist að þeir muni verða fljótir, ef allt gengur upp sem þeir gera ráð fyrir, að fá inn þær nokkuð hundruð milljónir sem allt menntakerfi landsins á að stranda á.