Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 12:28:00 (6149)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Fram undir þetta hefur ríkt algjör samstaða hér innan þings sem utan um það að námslán ættu ekki að bera vexti. Það hefur verið það grundvallaratriði í markmiðum og tilganginum með Lánasjóði ísl. námsmanna, að námslán bæru ekki vexti, jafnframt því að tryggja jafnrétti til náms, að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur og að endurgreiðslur námslána séu tekjutengdar.
    Sú breyting að setja vexti á námslán er auðvitað í beinu framhaldi af því sem hér var samþykkt áðan, um að breyta 1. gr. þannig að það sé komið í veg fyrir að lánasjóðurinn hafi það hlutverk að tryggja jafnrétti til náms. Samhliða þessari breytingu er verið að opna Lánasjóð ísl. námsmanna fyrir þeim hópi námsmanna sem hingað til hefur ekki þurft á aðstoð þessa sjóðs að halda og það er gert í skjóli þess að það eigi að tryggja að námsmenn taki ekki lán úr lánasjóðnum af því að lánin beri 1% vexti. Það sjá allir að 1% vextir á námslán munu engan námsmann hrekja frá því að taka þessi lán og því er sú hætta nú sem myndast með því, ef þetta verður samþykkt ásamt 1. gr., að það sé verið að opna þann möguleika fyrir námsmenn að fara að braska.
    Með þessum hætti eru menn auðvitað að draga úr þeim fjármunum sem til skipta eru, draga úr við þá sem raunverulega þurfa á þessari aðstoð að halda. 1% vextir eru auðvitað ekki háir vextir en bara sú grundvallarbreyting að setja vextina inn í frv. mun leiða til þess --- og þrátt fyrir orð hæstv. menntmrh. um að ekki standi til að hækka vextina nú, þá mun það verða gert. Þeir munu verða komnir upp í 3% þegar þessi ríkisstjórn fer frá. Þar að auki eru raunvextirnir auðvitað miklu hærri vegna þess að námsmenn þurfa að fjármagna sína framfærslu með bankalánum þann tíma sem þeir fá ekki námslánin. Ég segi því já.