Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 12:59:00 (6158)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í jafnaðarstefnunni eru fáein grundvallaratriði. Þar ber hæst jafnrétti til hjúkrunar og umönnunar og jafnrétti til náms. Í áratugi hafa jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu staðið vörð um þær þjóðfélagsbreytingar sem ber hæst á þessari öld, að færa öllum jafnrétti til umönnunar og hjúkrunar og jafnrétti til náms. Í upphafi voru hægri flokkarnir í Evrópu andvígir þessum grundvallarhugsjónum. Síðan gengu þeir í lið með öðrum. En á síðasta áratug hófu hægri flokkarnir í Evrópu nýja sókn sem byggðist fyrst og fremst á því að afnema grundvallarregluna um jafnrétti til náms og jafnrétti til umönnunar og hjúkrunar. Að ráðast gegn þessum grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar í Bretlandi hefur Margrét Thatcher og Íhaldsflokkurinn hælt sér af því að hafa náð fram.
    Hér á Íslandi hefur Sjálfstfl. í langan tíma barist fyrir því að nema þessi grundvallaratriði brott úr lögum landsins. Framsfl. stóð vörð um það þegar hann var í ríkisstjórn með Sjálfstfl. að það tækist ekki. Nú hefur Alþfl. tekið að sér það hlutverk að lyfta Sjálfstfl. á Íslandi á þann stall hægri hyggjunnar og thatcherismans að afnema úr lögum á Íslandi jafnrétti til náms. Með þeirri atkvæðagreiðslu sem hér fer fram er verið að gefa Alþfl. tækifæri til þess að hverfa frá þessari villu því að flokkur sem afnemur á Alþingi Íslendinga grundvallaratriði um jafnrétti til náms getur ekki eftir það með neinum rétti talið sig fulltrúa jafnaðarstefnunnar, hvað þá heldur skreytt nafn sitt með því heiti.
    Það má vel vera að ríkisstjórnaraginn bindi þingmenn Alþfl. hér í dag, en þeir hafa þó tækifæri til þess að koma í veg fyrir að 3. umr. um þetta frv. fari fram. Ef Alþfl. lætur þessu þingi lokið hér í vor með því að samþykkja þetta frv. getur hann aldrei eftir það fyrr en búið er að breyta þessum lögum á ný í áttina að jafnrétti til náms tekið sér í munn að vera fulltrúi fyrir jafnaðarstefnuna á Íslandi.
    Ég segi já við þeirri tillögu að vísa þessu frv. um aðför að grundvallarhugsjón jafnaðarstefnunnar til 3. umr. (Gripið fram í.) Ég segi nei við þeirri tillögu að vísa þessu frv. til 3. umr. Það er það sem við erum að gera hér. Ég segi já við því --- hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason má hlæja eins og hann vill, en okkur sem er jafnaðarstefnan á Íslandi einhvers virði er ekki hlátur í hug þegar þessi atkvæðagreiðsla fer hér fram því hún er mikið alvörumál. Umhvrh. má hlæja eins lengi og hann vill af því að Alþfl. hverfur hér frá grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar. --- Ég segi nei við þessari tillögu.