Kynning á íslenskri menningu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 14:56:27 (6175)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka flm. þessa frv. fyrir að flytja það hér og vekja þar með máls á kannski mikilvægasta máli allra mála sem er menningin því að án hennar fengi ekkert samfélag staðist. Og það er auðvitað annar hlutur líka sem er grundvöllur allra samfélaga og það er umhverfið. Það er að umhverfið sé þess eðlis að samfélagið fái staðist. Ef við tökum menninguna og umhverfismálin, þá eru þetta hvort tveggja mál sem mér finnst að fái mjög litla umfjöllun hér á Alþingi og sem hafa mjög sjaldan verið til einhverrar við getum sagt hugmyndalegrar umræðu á hinu háa Alþingi. Það er sem sagt menningin og það er umhverfið. Það sem menn tala mikið um hér er hin hagræna hlið allra mála. Það er peningahliðin og ef maður ætti að dæma Alþingi eftir umræðunum sem hér eru held ég að manni væri óhætt að segja að hér aðhylltust allir menn hina vísindalegu efnishyggju ef við gætum sagt sem svo því að út frá því fer öll umræða hér fram. Hún fer öll fram út frá vísindalegri efnishyggju en hughyggjan á hér fáa fulltrúa.
    Ég held að við þyrftum að velta því fyrir okkur hvort kemur á undan, andinn eða efnið. Hjá hv. alþm. flestum hverjum er það tvímælalaust efnið sem kemur fyrst og svo höktir andinn einhvers staðar á eftir. En ég held að þetta tvennt verði að fara saman. Þarna er einhver víxlverkun á milli sem við verðum ætíð að hafa í huga. Og þar kem ég einmitt að menningunni vegna þess að hún skiptir svo miklu máli. Eins og ég vék örlítið að í gær getur öflugt menningarlíf, öflug menntun bara ein og sér, hafi hún áhrif á hug þjóðarinnar, skapað áþreifanleg verðmæti þó að ekkert annað gerist.
    Þegar við tölum um íslenska menningu og að reyna að skipuleggja kynningu á henni erlendis er sjálfsagt að hafa í huga og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því fyrir hvað við Íslendingar erum þekkt og fyrir hvað verðum við þekkt. Út á hvað fær þetta samfélag auglýsingu? Það fær hana út á þá hluti sem standa föstum fótum meðal þjóðarinnar. Íslenskar bókmenntir eru þekktar, íslensk lýðræðishefð, hið forna Alþingi er þekkt víðast hvar um heim og það sem er nú að verða líka þekkt og ég held að sé mjög gleðilegt er að við Íslendingar erum að verða þekkt fyrir að hafa staðið mjög fast á hafréttarmálum, fyrir ötula baráttu okkar, ekki síst núna síðustu árin, fyrir friðlýsingu hafsins. Þetta er mál sem vekur athygli núna, hef ég tekið eftir, mjög víða um heim og þykir vera markvert framlag. Allt eru þetta hlutir sem standa mjög föstum fótum í íslensku samfélagi og þess vegna er okkur mjög eðlilegt og tamt að bera þessa hluti fram og rökfæra. Við erum ekki í nokkrum vandræðum með það. Og þess vegna er nauðsynlegt að halda þessu mjög á loft, öllu því sem stendur föstum fótum í íslensku samfélagi, eitthvað sem við eigum sjálf hvert og eitt auðvelt með að rökfæra, og við þurfum að styrkja og reyna að komast að kjarnanum í íslenskri menningu, við þurfum að rækta hana.
    Við náum ekki árangri á alþjóðavettvangi í menningarmálum með því einu að fylgja í fótspor annarra, að fjölrita það sem aðrir eru að gera. Þetta á ekki bara við um okkur Íslendinga, þetta á við um allar aðrar þjóðir. Mér finnst kannski órækasti vitnisburðurinn um þetta vera framlag Dana í menningarmálum. Danir hafa staðið sig mjög vel á undanförnum árum, í kvikmyndagerð sérstaklega, og þær kvikmyndir Dana sem hafa náð útbreiðslu og náð kynningu og mælst vel fyrir út um allan heim eru myndir sem eru mjög danskar. Við þurfum ekki að nefna annað en Pelle sigurvegara og Gestaboð Babette. Þetta eru hvort tveggja mjög danskar myndir sem koma nálægt kjarnanum í danskri menningu. Og fyrir bragðið verða þær sannar og það skilur fólk sem horfir á þessar myndir um allan heim þó að það þekki ekki menninguna í sjálfu sér. Það skilur kjarnann í henni, það skilur hversu satt það er sem sagt er. Og það er kannski eitt af því sem mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar náði, að hún var sönn, hún var íslensk og hún var sönn. Ýmislegt í henni eru hlutir sem okkur finnast skemmtilega hallærislegir, en þeir eru bara svo sannir. Við þekkjum öll það sem þarna er á ferðinni. Ég held einmitt að með því að rækta kjarnann og reyna að komast nálægt honum getum við vakið áhuga útlendinga á því sem íslenskt er. Og ég

held að það séu engir betur til þess fallnir en einmitt það fólk sem vinnur að íslenskri menningu upp á dag hvern, er að skapa íslenska menningu, sem eru ekki síst íslenskir listamenn. Þess vegna þætti mér fengur að því að þeir fengju meira um kynningu íslenskrar menningar á erlendum vettvangi að segja.
    Við höfum séð kynningu sem menningarfulltrúi utanrrn. hefur m.a. gengist fyrir í Bretlandi sem var hinn svokallaði búksláttur. Út af fyrir sig er ekkert við þennan búkslátt að athuga. Það er sjálfsagt ef menn hafa af því ánægju að troða upp og sýna slíkt að þeir geri það og þetta er út af fyrir sig sniðugt, en þetta skilur ekkert eftir. Þetta er ekkert annað en sniðug uppákoma og skilur ekkert eftir hjá þeim sem á horfa nema þá kannski þá hugmynd að það sé svolítið sérkennileg þjóð sem uppi á þessu skeri búi ef hún hafi stundað um aldir þennan búkslátt hér í moldarkofunum. En eins og ég segi er ég út af fyrir sig ekki að amast við því ef menn vilja troða upp með þessum hætti. En við verðum ekki þekkt fyrir þetta, við getum ekki selt þetta nema tímabundið. Það sem við getum selt --- og við skulum tala um þetta í krónum og aurum. Það er eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði í gær: menn skilja gróða. Og það er alveg rétt að það er hægt að selja menningu --- eru hlutir sem við stöndum á föstum fótum. Það er kjarninn sem við getum kynnt og skapað áhuga á og ekki annað.
    Þess vegna vil ég fagna þeirri tillögu sem er í frv., að hún skuli vera fram komin, og ég vona að hún fái jákvæða umfjöllun í þinginu og ég mun sjálf skoða hana betur því að auðvitað hef ég rétt svona hvimað yfir hana augum.