Viðlagatrygging Íslands

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 16:45:00 (6182)

     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er flutt til 3. umr. frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands sem er lagt fram af hæstv. ríkisstjórn og hefur verið til meðferðar um nokkurra mánaða skeið. Það er okkar skoðun, sem skipuðum minni hluta heilbr.- og trn., að undirbúningi frv. og meðferð þess á hv. Alþingi hafi verið stórlega ábótavant. Í fyrsta lagi er það þannig að þetta fyrirtæki veltir 3 1 / 2 milljarði kr. og ekki liggja neinar reikningslegar upplýsingar fyrir um það hvaða áhrif frv. hefur, engar. Og það er auðvitað forkastanlegt og gagnrýni vert að afgreiða frv. af þessu tagi án þess að reikningslegar forsendur málsins hafi verið skoðaðar niður í kjölinn.
    Í öðru lagi er það þannig að Samband ísl. sveitarfélaga gerði við frv. alvarlegar athugasemdir sem er í raun og veru hafnað með afgreiðslu þess eins og frv. lítur út núna. Í þriðja lagi gerði Tryggingaeftirlit ríkisins athugasemdir við frv. í fjölmörgum greinum og telur að í því felist ekki sú heildarendurskoðun á lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem óhjávæmileg sé. Af þessum þremur ástæðum var það sem við í minni hluta hv. heilbr.- og trn. kusum að leggja til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og að þeirri tillögu felldri við 2. umr. sátum við hjá um málið.
    Í greinargerð með atkvæðagreiðslu um frv. óskaði ég eftir því að hæstv. ríkisstjórn kannaði þetta mál ítarlega á milli 2. og 3. umr. og mér þætti lakara, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði lokið án þess að það komi fram hvaða skoðun hæstv. heilbr.- og trmrh. eða staðgengill hans hafa á þeim athugasemdum sem við gerðum. Þess vegna verð ég að fara fram á það, virðulegi forseti, að umræðu um þetta mál verði frestað þar til hæstv. umhvrh., sem gegnir starfi heilbrrh., getur verið viðstaddur þannig að hann megi heyra þær athugasemdir sem við höfum að gera við þetta mál sem er afar illa undirbúið. Það væri slys að mínu mati að afgreiða það eins og það er. Ég tel að slík bið þyrfti ekki að tefja málið nokkurn skapaðan hlut og leyfi mér því að bera fram þessa ósk, virðulegi forseti. Þó að mér sé það engan veginn ljúft að tefja meðferð þingmála þessa síðustu daga sem þingið stendur yfir, þá hafði ég beðið þetta áður. ( Forseti: Forseti telur rétt að verða við þeirri ósk hv. 9. þm. Reykv. að umræðu um 14. dagskrárlið verði frestað.)