Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:09:00 (6186)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fjölgun sjálfsvíga meðal unglinga hefur valdið talsverðum áhyggjum að undanförnu, en lítið hefur verið vitað um umfang og orsakir þessarar þróunar. Margt bendir þó til þess að vandinn sé að vaxa og að þörfin til þess að spyrna við fótum aukist hratt. Til þess að unnt sé að gera sér grein fyrir vandanum verður fyrst og fremst að rannsaka hann, rætur hans og stærð hans, líta á hann frá sem flestum hliðum og nýta þekkingu ólíkra fræðigreina. Þannig er von til þess að hann verði leystur.
    Fram hefur komið í máli umsagnaraðila að sjálfsvíg geti verið sveiflukennd hjá hinum ýmsu þjóðum og jafnvel geti komið upp eins konar faraldrar. Hér á landi séu árlegar sveiflur meiri en hjá fjölmennari þjóðum. Ljóst virðist að tíðni sjálfsvíga hafi aukist hér á landi á síðustu 40 árum og ráði þar e.t.v. mestu fjölgun sjálfsvíga meðal karlmanna á aldrinum 15--24 ára. Sá hópur sem fyrr á árum var í minnstri hættu virðist nú vera í hvað mestri hættu. Rétt er einnig að taka það fram að samkvæmt upplýsingum geðlækna og erlendra kannana er meiri hluti sjálfsvíga framinn í sjúklegu ástandi þannig að brýnt er að kanna vel læknisfræðilegu hliðina á þessu máli. Þessi þróun hlýtur að vekja menn til alvarlegrar umhugsunar og hlýtur að vera þjóðfélaginu hvati til aðgerða. Minnt er þó á að umræða um þessi mál verður umfram allt að vera málefnaleg og laus við bráðræði því að umræða um svo hrikalega atburði sem sjálfsvíg eru er viðkvæm og ekki vitað hvað röng umfjöllun muni leiða af sér.
    Til þess að hægt sé að sporna við vandanum sem að steðjar verður að finna orsakir hans. Þörf er á þekkingu og úrræðum sem koma að gagni.
    Þáltill. mælir fyrir um skipan nefndar sem hafi það hlutverk að kanna tíðni og orsakir sjálfsvíga. Allshn. tekur undir þá tillögu heils hugar. Nefndin mælir þó fyrir um að rannsóknir sem eru þegar hafnar haldi áfram og þannig nýtt sú þekking sem menn hafa viðað að sér. Nefnd sú sem skipuð verði byrji ekki algerlega frá grunni heldur byggi vinnu sína á þessum rannsóknum. Má í því sambandi nefna að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur rannsakað þessi mál nokkuð og er enn að því. Hafa menntmrn. og

dómsmrn. stutt við bakið á þeirri rannsókn hingað til og hefur dómsmrn. nú þegar lagt 1 millj. kr. til þessa verkefnis. Sendi stofnunin viðamikla umsögn til nefndarinnar. Einnig má finna árangur af vinnu stofnunarinnar í grein sem birtist í 4. tbl. Nýrra menntamála á síðasta ári. Ef þessar rannsóknir halda áfram mun það ekki síst vinna störfum nefndarinnar sem skipuð verði tíma. Brýn þörf er á að hraða þessum málum. Enn fremur verði stuðst við kannanir og rannsóknir sem hafa verið gerðar víða annars staðar hér á landi, svo og erlendis.
    Komið hefur fram hjá umsagnaraðilum að áhugi er mikill á þessum málum og að verið sé að starfa að þeim á þó nokkrum stöðum. Í umsögn landlæknis kom fram að í gangi er rannsókn á vegum landlæknis, héraðslæknis Austurlands og geðdeildar FSA á Austurlandi þannig að ljóst er að ríkisstjórnin hefur sýnt áhuga sinn í verki til að taka á þessum málum. Rétt er að taka fram að þeir sem sendu nefndinni umsagnir, sem voru allmargir, tóku vel undir þetta mál.
    Brtt. sú sem nefndin setur fram miðar að því að þeir sem reynslu og þekkingu hafa í þessum málum, bæði lærðir og leikir, fái sæti í nefnd þeirri sem skipuð verði og er þá von til þess að sú þekking nýtist sem til er.
    Allshn. leggur áherslu á að nefnd sú er skipuð verði hraði störfum sínum eins og unnt er. Er í því sambandi minnt á það, sem stendur í nál., að nefnd skili fyrstu úrlausnum í haust. Gert er ráð fyrir að nefndin haldi vinnu sinni áfram lengur en til haustsins en skili áfangaskýrslu þá. Komið hefur fram að fyrstu aðgerðir geti beinst að því að auka ýmsa þjónustu sem er sums staðar fyrir hendi, svo sem áfallahjálp og ýmsa ráðgjöf. Er þess vegna von nefndarinnar að unnt sé að gera tillögur um úrbætur strax í haust þótt ekki verði það endanlegar úrbætur sem lagðar verði til. Ég mæli því fyrir nál. á þskj. 863 fyrir hönd allshn. og það eru allir nefndarmenn sem undirrita þetta álit.
    Að lokum vil ég lýsa þeirri ósk nefndarmanna allshn. að Alþingi taki vel á málinu og veiti því jákvæða afgreiðslu.