Velferð barna og unglinga

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:16:00 (6187)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um till. til þál. á þskj. 600. Nál. er á þskj. 865 og það eru allir nefndarmenn sem undirritað það álit um þáltill. um velferð barna og unglinga.
    Velferð barna og ungmenna hefur verið þó nokkuð til umræðu undanfarin ár. Ljóst er að vaxandi erfiðleikar steðja að börnum og ungmennum og er það m.a. vegna neyslu vímuefna og aukins ofbeldis. Varlega verður að fara í að telja það einu orsakirnar og er þörf á því að fjalla nánar um þessa hlið málsins.
    Fjöldi barna lendir í erfiðleikum áður en fullorðinsaldri er náð og eru margvíslegar ráðstafanir gerðar til hjálpar og er það vel. En auk þess að hjálpa börnum og ungmennum þegar í óefni er komið verður að leita leiða til þess að komast að rótum vandans. Þáltill. mælir einmitt um að sú leið verði farin að skipuð verði nefnd sem geri úttekt og semji skýrslu um orsakir vandans. Nefndin skili skýrslu og ábendingum um úrbætur svo skjótt að taka megi málið til meðferðar á næsta Alþingi.
    Í þessu sambandi er rétt að taka fram að hæstv. ríkisstjórn hefur mikinn áhuga á því að taka á þessum vandamálum. Þannig hefur hæstv. félmrh. nú þegar skipað samstarfsnefnd ráðuneyta og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um málefni barna og unglinga og segja má að verksvið þeirrar nefndar sé mun víðtækara en þessi tillaga gerir ráð fyrir. Fulltrúar í þessari nefnd eru frá dómsmrn., heilbr.- og trmrn. og menntmrn., en fulltrúar eru einnig frá lögreglustjóra og unglingaheimili ríkisins. Gert er ráð fyrir að þessi nefnd muni skila áfangaskýrslu nú þegar í sumar.
    Þá er einnig rétt að geta þess að á þessu þingi hefur veri unnið mikið í málefnum sem snerta málefni barna og ungmenna og má þar nefna frv. til barnalaga, breytingu á hegningarlögum hvað varðar kynferðisbrot, sem ekki síst snertir börn og ungmenni, og enn fremur nýtt frv. til laga um vernd barna og ungmenna.
    Vandi barna og ungmenna er vissulega ekki nýr af nálinni, en hafa verður í huga að hagur barna og ungmenna hefur mikið breyst á undanförnum áratugum. Félagsleg aðstaða þeirra er hvergi söm og hún var. Á það jafnt við aðstöðu á heimili sem utan heimilis. Aðhald heimilanna fer þverrandi og miklu minna er um að börn njóti skjóls stórfjölskyldunnar eins og áður tíðkaðist. Þetta og margt annað hefur áhrif. Svo virðist sem meiri hætta steðji að börnum og ungmennum í dag frekar en oft áður. Neysla á vímuefnum og ofbeldi er fyrir hendi í þjóðfélaginu og endurspeglast í börnum og ungmennum, ekki síður en öðrum þjóðfélagsþegnum. Ekki bætir það úr að aðgangur að vímuefnum virðist vera auðveldur og hvatinn til neyslu þeirra fyrir hendi. Fregnir berast af auknum sjálfsvígum ungmenna. Í þessum jarðvegi, sem ungviði landsins er búinn, dafna vonleysi og óöryggi. Allshn. telur að brýn þörf sé á að þessi mál verði könnuð og úrbætur gerðar. Er það von nefndarmanna að mál þetta hljóti góðan meðbyr á Alþingi.