Starfsmenntun í atvinnulífinu

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 10:49:00 (6199)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Allar rannsóknir staðfesta að menntun er meginforsenda hagvaxtar. Við búum við þá stjórnskipun að menntmrn. skipuleggur skólakerfið í okkar landi. Ýmsir aðrir hafa lagt á það kapp, m.a. aðilar vinnumarkaðarins eins og hér var lýst og einnig félmrn., að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri ekki undir menntmrn. heldur undir félmrn. Gott og vel. En hvaða skynsemi er í því að félmrn. eigi ekki að hafa samráð við menntmrn. um skipulag þessara mála? Ætlar meiri hluti Alþingis virkilega að fara að fella brtt. á þann veg að við skipulag menntunar í atvinnulífinu skuli hafa samráð við þann aðila sem skipuleggur menntakerfið í landinu í heild?
    Hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði áðan að aðilar vinnumarkaðarins legðu höfuðkapp á að frv. yrði samþykkt óbreytt. Það væri fróðlegt að vita hvaðan hann hefur það að t.d. Verkamannasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks eða BSRB hafi sagt að ekki megi breyta einum einasta staf eða kommu eða orði í þessu frv. Það er aldeilis orðið alræði aðila vinnumarkaðarins í íslensku lýðræði og ekki er það skárra en alræði öreiganna á öðrum stöðum ef ekki má breyta orði, kommu

eða setningu vegna þess að einhverjir kontórar úti í bæ hafa sagt það. Hefur farið fram umræða og atkvæðagreiðsla um þetta frv. í einhverju verkalýðsfélagi á landinu og brtt. Svavars Gestssonar alþingismanns? Það væri gaman að vita í hvaða verkalýðsfélagi greidd hafi verið atkvæði um þessa brtt. Nei, alræði kontóranna í verkalýðshreyfingunni er jafnslæmt og alræði öreiganna annars staðar í veröldinni. (Gripið fram í.)
    Hins vegar vonast ég til þess að hæstv. menntmrh. gæti hagsmuna menntakerfisins í þessu máli því að það er ekkert vit í því að ætla að skipuleggja menntun í atvinnulífinu á Íslandi án þess að sá aðili sem sér um heildarmenntunarmál í landinu frá grunnskólastigi og upp í háskóla geti haft einhvern smávegis aðgang að þeim málum. Því hefur hv. þm. Svavar Gestsson flutt þessa sakleysislegu brtt. um að það eigi að hafa samráð, það sé lágmark fyrir menntmrn. Við styðjum þá brtt. og biðjum aðra þingmenn á Alþingi að íhuga í rólegheitum skynsemina í þessu máli en senda ekki frá sér frv. þar sem Alþingi fellir það að hafa eigi samráð við menntmrn. um skipulagningu menntunar í atvinnulífinu.