Starfsmenntun í atvinnulífinu

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 10:55:25 (6202)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Til að auðvelda hv. þm. Svavari Gestssyni eftirlitsstarfið ætla ég að segja frá því að ég greiddi atkvæði gegn þessari tillögu, ekki vegna þess að ég vilji ekki samstarf milli menntmrn. og félmrn. um starfsmenntun í atvinnulífinu heldur vegna þess að ég tel að það samstarf sé fyrir hendi. Þetta frv. er í nákvæmlega sama búningi og það frv. sem lagt var fram á síðasta þingi og samþykkt af þáv. menntmrh. Svavari Gestssyni í þáv. ríkisstjórn. Það er nákvæmlega eins.
    Ég ætla hins vegar að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir stuðninginn við það að frv. um almenna fullorðinsfræðslu verði afgreitt á þessu þingi. Ég tek undir þá ósk hans og vona að það verði gert.