Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:16:48 (6211)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram í dag mjög athyglisverð umræða um viðfangsefni og þróun í sjávarútvegi sem að mörgu leyti geta verið örlagarík fyrir efnahagsþróun okkar Íslendinga á næstu árum. Þessi umræða hefur verið skynsamleg og það hefur margt athyglisvert verið sagt í henni. Það hefur verið óskað eftir því að hæstv. sjútvrh. segði hér nokkur orð um afstöðu sína til þeirra spurninga sem fram hafa komið. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki gert það. Hæstv. sjútvrh. hefur kosið að vera oftast utan þingsalarins, verið í einkasamræðum við menn í hliðarsölum og engan áhuga haft á því að hlusta gaumgæfilega á það sem hér hefur verið sagt.
    Það sama gerðist í gær, virðulegi forseti. Þá var umræða hér um kynningu á íslenskri menningu erlendis, umræðan var mjög athyglisverð, mjög vönduð, og það var óskað eftir því að hæstv. menntmrh. tæki nokkurn þátt í henni, a.m.k. að hann gæti lýst skoðunum sínum, en hæstv. menntmrh. kaus þá að fara úr húsinu þegar óskað var eftir því að hann tæki þátt í umræðum. Þá óskaði ég eftir því, virðulegi forseti, að fundum yrði frestað vegna þess að það er ekki sanngjarnt eða eðlilegt að stjórnarandstaðan taki virkan þátt í því að koma málum hér áleiðis en ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýni einstökum frv. og málum og eðlilegum óskum stjórnarandstöðunnar slíka vanvirðu að þeir hvorki nenna né vilja vera í húsinu eða þingsalnum þegar umræður fara fram jafnvel þótt málin snerti þeirra ráðuneyti.
    Ég vek athygli virðulegs forseta á því að ríkisstjórnin hefði ekki komið áfram málum í dag nema með þátttöku stjórnarandstöðunnar. Svo margir voru fjarverandi af þingmönnum ríkisstjórnarliðsins að þingstörf hefðu lamast í dag hvað snertir afgreiðslu mála ef stjórnarandstaðan hefði ekki sýnt þann skilning og velvilja að taka þátt í afgreiðslu málanna. Stjórnarliðið hefði verið, ef ég man rétt, með í kringum 20 menn eða svo í þinginu, langt undir þeim mörkum sem þarf til að koma málum áfram. Stjórnarandstaðan samþykkir einnig að koma hér á laugardegi til að ræða mál af þessu tagi og til að greiða fyrir störfum í þinginu. En hvað gerist? Það endurtekur sig aftur í dag það sem gerðist í gær varðandi frv. um kynningu á íslenskri menningu erlendis. Nú er verið að ræða frv. sem snertir sjávarútveg, frv. sem stjórnarandstaðan hefur ákveðið að styðja og greiða fyrir að verði afgreitt. En hrokinn í hæstv. sjútvrh. er slíkur, fyrirlitningin á umræðum hér í þinginu er slík að hann nennir ekki í fyrsta lagi að vera í salnum, hvað þá heldur að hann verði við eðlilegum óskum ræðumanna um að segja nokkur orð í tilefni af þeim spurningum sem til hans hefur verið beint.
    Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn geri sér grein fyrir því að þetta gengur ekki svona á síðustu dögum þingsins. Ég veit að jafnþingvanur maður og hæstv. sjútvrh. veit það að þegar svo er komið í þinghaldinu eins og nú, þá hefur stjórnarandstaðan það algerlega í hendi sér hvaða mál eru afgreidd hér og hvaða mál ekki, algerlega. Og ég veit að ég þarf ekki að útskýra það fyrir hæstv. sjútvrh. í hverju það felst. En við látum ekki bjóða okkur það að þegar menn taka þátt með eðlilegum og málefnalegum hætti í umræðum um mikilvæg mál okkar þjóðar, hvort sem það eru sjávarútvegsmál eða menningarmál eins og hér gerðist í gær, sé framkoma ríkisstjórnarinnar með þessum hætti. Og það er eins gott fyrir ríkisstjórnina að gera sér grein fyrir því og átta sig á því hér og nú hvort þetta á að vera stíllinn síðustu dagana eða hvort hún ætlar að breyta til.
    Ég óskaði eftir frestun í gær, virðulegi forseti, á umræðum þegar það gerðist í umræðu um frv. um kynningu á íslenskri menningu erlendis að menntmrh. sýndi þeirri umræðu þá vanvirðu að verða ekki við eðlilegri ósk um að koma og segja örfá orð. Það var enginn sem ætlaði sér að halda þeirri umræðu lengi áfram, það hefur enginn heldur ætlað sér að halda umræðu um þetta frv. lengi áfram. En við viljum eðlilega umfjöllun um mál og eðlilegar samræður við þá ráðherra sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Líklegast væri skynsamlegast, virðulegi forseti, að gera það sama nú og gert var í gær að óska eftir fresti á fundinum svo að hægt sé að bera saman bækur sínar um það, þingmenn stjórnarandstöðunnar, hvort við eigum að taka áfram þátt í þessum leik eða ekki og láta ríkisstjórnina velta því fyrir sér hvort hún ætlar að taka þátt í málefnalegum umræðum í þinginu eða ekki. Ef svar ríkisstjórnarinnar er í reynd að gera það ekki munum við auðvitað draga okkar ályktun varðandi þingstörfin á þeim dögum sem fram undan eru. Mér þykir mjög leitt að þurfa að segja þetta hér. En það er óhjákvæmilegt því það eru takmörk fyrir því hvað menn geta leyft sér.
    Ég vona að hæstv. sjútvrh., sem ber ábyrgð á því frv. sem er til umræðu, verði við þeirri ósk sem fram hefur komið hér, m.a. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að taka þátt í umræðunni og víkja að þeim atriðum sem til hans hefur verið beint. Ég ætla í þeirri trú að hann geri það að hafa ræðu mína ekki lengri, en gerist það ekki, ef hæstv. sjútvrh. heldur uppteknum hætti og tekur ekki þátt í þessari umræðu, þá munum við óska eftir frestun á fundum að lokinni þessari umræðu svo að við getum borið saman bækur okkar um það hvernig verður haldið hér áfram. Ég hafði vonað eftir samræður formanna þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna við forseta þingsins í gær að þetta mundi ekki endurtaka sig í dag. Satt að segja stóð ég í þeirri einföldu trú að samræður formanna þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna við foseta þingsins hefðu dugað til þess í gær að ráðherrarnir hefðu fengið skilaboðin og ætluðu sér að bregaðst við þeim með eðlilegum hætti. En annað hefur komið í ljós í þessari umræðu.
    Ég mun, virðulegi forseti, ekki hafa mál mitt lengra. Þau sjónarmið sem Alþb. vill setja fram hafa komið fram í ágætum ræðum sem tveir hv. þm. flokksins hafa flutt í þessari umræðu, en ég taldi nauðsynlegt þegar umræðunni var að ljúka án þess að hæstv. sjútvrh. kæmi upp í ræðustólinn að láta þessar skoðanir okkar á gangi mála í þinginu koma fram með mjög skýrum hætti.