Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:38:48 (6215)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég tek undir með hv. 8. þm. Reykn. að hér hafa farið fram mjög málefnalegar og gagnlegar umræður og ég þakka þeim hv. þm. sem hafa talað í þessum umræðum. Það hefur verið mjög mikið gagn að þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður í frammi og ég er þeirrar skoðunar að hann styðji mjög þá viðleitni sem liggur að baki því frv. sem hér er til umræðu og muni verða sjávarútveginum á Íslandi til góðs.
    Þó ég taki undir það að allt sem hér hefur verið sagt hefur verið mælt af mikilli þekkingu og reynslu, þá er það svo að þessar ræður hafa allar verið fluttar áður við umræðu um þetta mál og svör við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram hafa komið fram af minni hálfu áður í fyrri hluta umræðna um þetta þingmál. En ég get tekið undir með hv. 8. þm. Reykn. að góðar vísur eru að sjálfsögðu aldrei of oft kveðnar og þess vegna væri ástæða til að ræða málið enn ítarlegar og betur.
    Það er vitaskuld að mörgu að hyggja í þessu efni og það mál sem hér er til umræðu tengist auðvitað sjávarútveginum í heild sinni, en ég met það við hv. þm. sem hér hafa talað að þeir hafa einskorðað sig fyrst og fremst við þá þætti þeirra mála sem beint tengjast þessu frv. og að því leyti hefur umræðan verið mjög málefnaleg.
    Vissulega er það svo að frystiskip af þessu tagi eru í samkeppni við vinnslu í landi. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að frysting um borð í fiskiskipum er ekki ný af nálinni. Það er ekki eitthvað sem er að verða til, það er ekki hjól sem menn eru að finna upp þessar vikurnar eða þessi missirin. Þetta hafa menn gert árum saman. Á hinn bóginn hefur þróunin orðið býsna ör í þessu efni hjá okkur, m.a. vegna þess að afkoma þessara skipa hefur verið betri en annarra þátta í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur verið góður markaður fyrir afurðir þessara skipa. Ein skýringin á því er sú að þau eru að vinna aflann ferskan og það er eftirspurn eftir hráefni sem þannig er unnið. Hitt er annað, að á stundum hefur borið á göllum í framleiðslu þessara skipa eins og við aðra vinnslu og hún fer fram við erfiðar aðstæður úti á sjó. Þessi skip hafa ekki nýtt hráefni sitt sem skyldi og þar af leiðandi ekki það takmarkaða hráefni sem við höfum til ráðstöfunar. Hv. 3. þm. Vesturl. benti réttilega á þessi atriði í sinni ræðu. Frv. sem hér liggur fyrir miðar að því fyrst og fremst að tryggja betri nýtingu á hráefninu og gera meiri kröfur um það hvernig vinnslan fer fram um borð í skipunum og minnka á þann veg bilið sem er á milli landvinnslu og vinnslu úti á sjó. En ég tek það fram eins og áður í þessum umræðum að ég tel ekki að þetta frv., þegar það verður að lögum, útrými með öllu mismun sem er á milli landvinnslu og sjóvinnslu og bendi í því sambandi á að skattlagning sveitarfélaga felur í sér talsverða mismunun því mörg þeirra leggja lægra aðstöðugjald á þessi skip en vinnslufyrirtækin í landi. Það með öðru stuðlar að því að menn sjá sér hag í því að færa vinnsluna út á sjó.
    En að mínu mati mun frv., þegar það verður að lögum, í mjög verulegum atriðum taka á þeim vandamálum sem hv. 3. þm. Vesturl. gat hér um, m.a. felur það í sér að það verður mun meira eftirlit af hálfu stjórnvalda um borð í þessum skipum. Eftirlitsmenn verða fast um borð í skipunum fyrstu sex mánuði, en jafnframt er gert ráð fyrir því að unnt verði að hafa eftirlitsmann um borð um lengri og skemmri tíma í miklu ríkari mæli en gert hefur verið og ég hygg að það sé mjög mikilvægt að fylgjast mjög nákvæmlega með því hvernig þessi skip nýta hráefnið.
    Þá komum við að þeirri stóru spurningu hvort hamla eigi með öðrum aðgerðum en almennum aðhaldsaðgerðum að því er varðar meðferð og nýtingu hráefnis gegn því að þessum skipum fjölgi. Þó að fyrir liggi að rekstur þeirra sé hagkvæmari en annarra þátta í sjávarútveginum telja menn að það eigi að setja einhverjar hafta- eða úthlutunarreglur gagnvart kaupum á þessum skipum. Ég lýsti því viðhorfi mínu hér við 1. umr. þessa máls að það væri óhyggilegt að setja á eitthvert úthlutunarkerfi að því er þessi skip varðar. Miklu fremur væri æskilegt að hafa áhrif á þróunina með almennum reglum sem miðuðu að því að jafna starfsskilyrðin í sjóvinnslu og landvinnslu og þetta frv. er vissulega stórt skref í þá veru.
    Við skulum líka hafa í huga í þessu sambandi að mjög mikil og nauðsynleg umræða fer nú fram um það að nýta fiskimið á djúpslóð og jafnvel utan við 200 mílna landhelgina í ríkari mæli en gert hefur verið. Möguleikar okkar á því að kanna frekar og nýta þær auðlindir sem þar liggja byggja á því að við eigum nægjanlega öflug og stór skip til slíkra veiða. Ýmsir þeirra aðila sem nú eru með það í athugun að fá skip af þessu tagi í flotann eru með það í huga að fara með þau á úthafsveiðar þannig að að stórum hluta hygg ég að menn hafi hugfast í þessu efni að fá skip í þeim tilgangi að nýta úthafið betur en við höfum gert.
    Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. vilja ekki að slík þróun sé stöðvuð með skömmtunarúthlutunum af hálfu stjórnvalda. Það er því vissulega að mörgu að hyggja þegar fjallað er um mál eins og þetta. Og ugglaust er það svo, eins og ég hef reyndar áður tekið fram í þessari umræðu, að við þurfum að fylgjast vel með þessari þróun. Við þurfum að meta hvern árangur við höfum af þeim nýju reglum sem hér er verið að setja og meta framhaldið í ljósi þeirrar reynslu.
    En ég vil svo, herra forseti, ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þm. sem hér hafa talað og flutt mjög málefnalegar ræður og nauðsynlegar í umfjöllun um þetta veigamikla mál og þá stöðu sem sjávarútvegurinn er í um þessar mundir.