Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:56:02 (6219)



     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er alveg fullkunnugt um að það eru í gildi reglur um úreldingu skipa og að flotinn stækkar ekki við að einstakir útgerðarmenn endurnýi sín skip. En þetta mál snýst einfaldlega ekki um það. Það snýst um stöðu fiskvinnslunnar og atvinnunnar í landi. Og ég tel að það sé þess vegna sem menn hefðu þurft að bregðast við. Það er ekki gott að þurfa að gera slíka hluti. En ég tel að það hafi ekki verið undan því vikist. Og því miður held ég að það stefni í að það verði eftir stuttan tíma kominn inn í landið allt of stór floti af þessum svokölluðu fullvinnsluskipum og að við verðum fyrir sams konar skakkafalli í því sambandi eða það má kannski líkja því dálítið við það þegar togaraflotinn okkar varð allt of stór. Það voru allir sammála á sínum tíma um að kaupa togara. En því átaki var bara haldið of lengi áfram. Þegar átakið byrjaði voru menn að velta fyrir sér að það væri eðlilegt að hingað kæmu 50--60 togarar kannski. En hvað eru þeir margir í dag? Þeir eru einhvers staðar á öðru hundraðinu. Og þeir eru sjálfsagt of margir. Ég er því miður hræddur um að eftir stuttan tíma verði mönnum ljóst að þarna höfum við líka farið of geyst.