Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:31:53 (6226)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega um athyglisvert mál að ræða og þessi till., eins og fram kom hjá hv. frsm., er flutt í beinu framhaldi af ráðstefnu sem hér var haldin í október þar sem ég átti þess m.a. kost að flytja erindi og hlýða á umræður, enda er hér auðvitað um umhverfismál að ræða. Ég sé hins vegar í nál., virðulegur forseti, að fyrir einhvern misgáning hefur umhvrn., sem fer með þau mál sem varða mengun umhverfisins á Íslandi, ekki fengið þessa till. til umsagnar. Ég hefði talið mjög æskilegt að það ráðuneyti sem fjallar um það sem er nánast höfuðefni þessarar till. hefði fengið að tjá sig um þetta mál. Og ég veit að það er ekki af ásettu ráði sem formaður eða 1. flm. hafa sniðgengið umhvrn. í þessu efni heldur hlýtur hér að vera um misgáningi og athugunarleysi að ræða. Því mælist ég til þess, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði frestað og hv. landbn. sendi umhvrn. þetta mál til umsagnar þannig að það eigi kost á því að tjá sig.
    Raunar hefði mér einnig fundist eðlilegt að umhvn. Alþingis fjallaði að einhverju leyti um þetta mál líka vegna þess að hér er ekki nema í takmörkuðum skilningi um landbúnaðarmál að ræða. Hér er um almennt vistfræðilegt umhverfismál að ræða þó að í þessu tilviki sé verið að fjalla sérstaklega um landbúnað.
    Það er því eindregin ósk mín að þessari umræðu verði nú frestað í einhvern tíma og að hv. landbn. gefi umhvrn. kost á að tjá sig um málið. Ég get ekki talað hér eða látið í ljós neinar skoðanir varðandi umhvn., en persónulega finnst mér mjög einkennilegt að hún skuli ekki hafa haft tækifæri til að tjá sig um þetta mál sem er beinlínis og mjög skýrt á hennar verksviði.