Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:41:00 (6230)

     Frsm. samgn. (Árni M. Mathiesen) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um flugmálaáætlun 1992--1995. Þetta er í fyrsta skipti sem samgn. fjallar um flugmálaáætlun og fékk hún til aðstoðar við þetta starf starfsmenn Flugmálastjórnar og hafði enn fremur samband við efnahagsskrifstofu fjmrn. Nefndinni bárust erindi frá Flugmálastjórn, Flugfélagi Norðurlands, Stöðvarhreppi og Þórshafnarhreppi.
    Flugmálaáætlun var síðast lögð fram á 112. löggjafarþingi 1989--1990. Hana ber að endurskoða á tveggja ára fresti og jafnframt að gera áætlun til tveggja ára til viðbótar, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Hér er því um reglulega endurskoðun að ræða.
    Í áætlun um fjáröflun sem fram kemur í I. lið till. er gert ráð fyrir að útgjöld til framkvæmda í flugmálum komi eingöngu af mörkuðum tekjustofnum, en áætlun ársins 1982 er í samræmi við fjárlög. Nefndin gerir ekki athugasemdir við þennan lið till.
    Nefndin leggur til nokkrar efnisbreytingar á II. og IV. lið till. Þar er helst að nefna að í IV. lið, Sundurliðun vegna verkefna, lækkar á lið 4.6, undirliður 1, framlag til akbrauta og hlaða á Ísafirði um 0,3 millj. Jafnframt lækkar samsvarandi liður á Hólmavík um 0,2 millj., en á móti hækkar samsvarandi liður á Patreksfirði, liður 4.8, um 1 / 2 millj., þ.e. á árinu 1992. Á sama ári lækkar liður 4.7, Vestmannaeyjar, undirliður 4, um 0,8 millj. Jafnframt er breyting í texta á undirlið 4.9, Hornafjörður, undirliður 1, þar sem stendur nú: Tækjageymsla/þverbraut, en stóð áður tækjageymsla.
    Þá er á árinu 1992 gerð breyting á lið 4.15, Þórshöfn, þar sem fært er til á milli undirliða 1 og 2 og undirliður 1, Öryggissvæði, verður 13 millj., var 8 áður, en undirliður 2, Flugstöð, sem var 5 millj., verður 0 á þessu ári. Á lið 4.22 lækkar framlag um 7,2 millj. í 0 og það kemur inn nýr liður, 4.24, Stjórnunarkostnaður flugmálaáætlunar sem verður 8 millj.
    Á árinu 1993 verður breyting á lið 4.7, Vestmannaeyjar, undirliður 5, Hindrunarlýsing, sem verður nú 9 millj. og á lið 4.11, Siglufjörður, undirliður 1, Flugbraut, endurbætur, verður 2 millj. Og liður 4.15, Þórshöfn, undirliður 2, þar sem áður var Flugstöð 11,2 millj. verður nú 16,2 millj. Og liður 4.22, þar sem áður var 10,9 millj., verður nú 10 millj. og liður 4.24, Stjórnunarkostnaður flugmálaáætlunar, verður 8 millj. og þar með lækkar liður 4.25, Óráðstafað til endurmats á forsendum og aðstæðum, niður í 5,5 millj. til þess að ná sömu niðurstöðu, 393 millj. á árinu 1993.
    Að auki leggur nefndin til að uppsetningu áætlunarinnar fyrir árin 1994--1995 verði breytt þannig að skipting útgjalda og sundurliðun verkefna til áætlunarflugvalla 1--3 verði ekki ákveðin heldur einungis tilgreind heildarupphæð óskipt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Að nál. standa allir nefndarmenn í samgn., en að afgreiðslunni stóð í stað Stefáns Guðmundssonar Halldór Ásgrímsson, en nefndarmennirnir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Guðni Ágústsson, Jóhann Ársælsson og Halldór Ásgrímsson skrifa undir með fyrirvara.