Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:47:00 (6231)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt, sem hv. frsm. sagði, að nefndin hefur öll fjallað um málið og skrifar undir nál. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Fyrirvarinn er gerður aðallega af tveimur ástæðum. Annars vegar er það að ég tel að það hefði verið ástæða til að halda sig við þá skipan, sem áður var, að það kæmu framlög af fjárlögum til að byggja upp flugstjórnarmiðstöðina, þessa alþjóðlegu aðstöðu, og hinn fyrirvarinn lýtur raunverulega að áætluninni sjálfri, þ.e. uppsetningunni á henni.
    Um fyrri liðinn ætla ég ekki að fara að fjölyrða hér neitt sérstaklega. Ég tel að það hefði verið eðlilegt að ríkissjóður hefði staðið á bak við það mál en það væri tekið af almennum framlögum til flugmálanna nema því aðeins að menn séu komnir á þá skoðun að þessi mál séu í það góðu ástandi um landið að það hefði þess vegna ekki gert til þó að menn drægju úr framkvæmdum úti um landið. Ég held að það sé nú ekki þannig. Ég held að mjög víða bíði nauðsynlegar framkvæmdir, bæði í öryggisskyni og til hagræðis fyrir flugið, og það fólk sem býr á þeim stöðum sem þarf mest á þessari þjónustu að halda og það er mjög víða.
    Ég ætla ekki að fara að tefja tímann á þinginu við það að fara að fara yfir einstaka staði á landinu, einstaka flugvelli í þessu sambandi, en ég tel að það hefði verið ástæða til þess að skoða þessa hluti betur.
    Seinna atriðið sem ég vil gagnrýna er uppsetning á áætluninni. Á síðustu dögum umfjöllunarinnar í nefndinni lagði formaður fram þá hugmynd að úr áætluninni yrði eytt öllum tölum sem ættu við árin 1994 og 1995, þ.e. skiptingunni, og þess vegna er þessi áætlun hvað skiptinguna varðar eingöngu fyrir árin 1992 og 1993. Hún er sem sagt hálft annað ár fram í tímann. Það er mín skoðun að þannig meðferð á áætlunargerð sé óhafandi. Yfirleitt standa framkvæmdir yfir í lengri tíma en tvö ár þegar farið er í þær á annað borð við slík mannvirki sem flugvelli og þá aðstöðu sem þeim tengjast. Þess vegna þurfa menn að setja upp framkvæmdaáætlanir til lengri tíma en til 1 1 / 2 árs eins og hér liggur nú fyrir. Þess vegna finnst mér að það sé ekki upp á það bjóðandi í sjálfu sér að hafa áætlanir um framkvæmdir á flugvöllum til tveggja ára. Ég held reyndar að ástæðan fyrir því að menn fóru út í þetta, komu með þessa till., sé sú að þeir höfðu áhuga á því að flytja lítils háttar til í framkvæmdunum og þeim hafi fundist þægilegra að taka það af óskiptri köku en halda skiptingunni inni og þess vegna vildu menn fella út allar hugmyndir um hvernig framkvæmdir ættu að raðast upp á seinni tveimur árum áætlunarinnar. Það héldust að vísu sömu niðurstöðutölur þannig að það er ekki breyting á áætluninni sem slíkri, en það er búið að eyða tölunum sem voru inni fyrir einstaka staði. Menn verða að draga þær ályktanir sem þeir kjósa helst af því, en ég dreg þá ályktun af því að þetta skuli gert að menn séu raunverulega víkja sér undan því að taka á hvar þeir vilja skera niður og skjóta sér á bak við þessa aðferð. Það getur ekki verið að menn ætli að hafa til frambúðar þannig aðferðir við áætlanagerð í flugmálum að það sé eingöngu til tveggja ára. Það get ég ekki séð. Ætla menn virkilega að fara út í framkvæmdir, sem standa kannski 3--4 ár og láta vanta botninn í fjármögnunarhliðina á dæminu? Af hverju er það sem menn leggja áherslu á áætlunargerðir? Er það bara út í loftið sem menn vilja vinna eftir áætlunum? Það er það ekki. En það getur verið að menn falli fyrir einhverjum ódýrum lausnum þegar þeir vilja hliðra sér hjá því að taka á óþægilegum málum. Og það eru vissulega óþægileg mál ef menn þurfa að skera niður áætlanir þar sem gert hefur verið ráð fyrir fjárveitingum í náinni framtíð á einhverja tiltekna staði. En ég er þeirrar skoðunar að undan því eigi menn ekki að víkja sér og láta það verða á kostnað áætlunargerðar sem yrði mjög mikilvæg.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að gera neina sérstaka athugasemd við þessa áætlun, tel að við hefðum vel getað sætt okkur við þessa áætlun eins og hún er að öðru leyti en því sem ég hef hér lýst og það hefði verið hægt að ná fullri samstöðu í nefndinni ef það hefði verið reynt að vinna að því. Ég er sannfærður um að það er minni ágreiningur um þessi mál en jafnvel flest önnur sem við erum að fjalla um á þinginu í vetur og í raun og veru lítið sem ber á milli. Þess vegna held ég að það hefði verið hægt að ná fullri samstöðu, en ég veit að hv. 6. þm. Vestf. er á sama máli og ég, að hún er mjög andvíg því að það

skuli vera búið að taka tölurnar út úr áætluninni sem áttu við um síðari tvö ár hennar, og ég kem því hér á framfæri líka vegna þess að hún hefur ekki haft aðstöðu til að mæta á fundinum enn í dag.