Greiðslur úr ríkissjóði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 16:00:53 (6252)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þau orðaskipti sem við höfum átt snúa ekki að því hvort fjmrh. hefur heimild til að gera kjarasamninginn. Þau snúa að því hvort Alþingi gæti eftir á neitað fjmrh. um þær útgjaldaheimildir sem hann þarf að fá í hendur til að geta framkvæmt samninginn. Eins og hér hefur komið fram er alveg ljóst að Alþingi getur neitað honum um það. Alþingi getur þess vegna fellt kjarasamninginn í reynd hvað efnisatriði snertir með því að neita fjmrh. um þessa heimild. Það er hin stóra breyting. Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að þingið gæti þá skorið niður aðra útgjaldaliði á móti. Vissulega er það rétt, en það breytir því ekki að það þarf þá líka heimild til að gera það ekki og það þarf líka heimild til þess að fella viðbótarútgjöldin út úr fjáraukalagafrv. ef það svo kýs. Þingið situr oft ekki ákveðinn hluta af árinu svo að umfjöllun þingsins um kjarasamninginn gæti stundum þurft að bíða lengri tíma.
    Hins vegar vekja þessar umræður í dag upp hugmynd um hvort ekki er nauðsynlegt þá í anda þess frv. sem hér er verið að flytja og í ljósi hinnar miklu samstöðu sem er um frv. að hæstv. fjmrh. flytji á Alþingi frv. til fjáraukalaga um þann kjarasamning sem gerður hefur verið ef menn vilja byrja hina nýju siðvenju nú þegar eða kannski á þessi nýi siður bara að byrja eftir að lögin hafa tekið gildi. Þetta er atriði sem hæstv. núv. fjmrh. ætti að hugleiða áður en málið kemur til 2. umr.