Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 13:44:00 (6254)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á þskj. 575 kemur fram beiðni um skýrslu um stöðu sjávarútvegsfyrirtækja frá hv. 8. þm. Reykn. og fleirum. Þar er óskað eftir því að gefin verði skýrsla um afstöðu ríkisstjórnarinnar til lausnar á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja og um störf nefndar sem falið var að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og gera tillögur um aðgerðir vegna yfirvofandi rekstrarstöðvunar fjölda fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu, eins og segir í texta þeirra hv. þm. sem að skýrslubeiðni þessari standa.
    Hér er annars vegar verið að óska eftir umfjöllun um rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu og hins vegar það stóra viðfangsefni er lýtur að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og störf þeirrar nefndar sem hefur haft forustu um það endurskoðunarstarf á grundvelli gildandi laga.
    Á undanförnum vikum hafa komið fram margháttaðar upplýsingar um stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Fátt hefur komið fram síðan ég gerði hinu háa Alþingi síðast grein fyrir þeim efnum sem dregur upp nýja drætti í þeirri mynd. Þeir hafa legið nokkuð ljósir fyrir um nokkurra vikna skeið. Í úttekt Þjóðhagsstofnunar um rekstrarafkomu í sjávarútvegi kemur það fram í aðalatriðum að botnfiskveiðar og vinnsla botnfiskafurða var eftir verðjöfnun rekin með 2,7% hagnaði árið 1990, 2% hagnaði árið 1991 en áætlað er, miðað við janúarskilyrði á þessu ári, að veruleg umskipti hafi orðið þannig að halli á veiðum og vinnslu verði um 3,5%.
    Áætlað er að botnfiskveiðarnar verði reknar með 2% hagnaði á þessu ári en á síðasta ári var um að ræða 3,5% hagnað og 3% á árinu 1990. Afkoman er mjög mismunandi eftir skipaflokkum. Þannig áætlar Þjóðhagsstofnun að hagnaður af rekstri báta og togara á þessu ári verði um 0,5%. Það er svipuð afkoma og varð á rekstri þessara skipa á síðasta ári en á árinu 1990 var um að ræða rúmlega 1% hagnað. Frystiskipin hafa á hinn bóginn algera sérstöðu í þessu efni, svo sem kunnugt er, og eru nánast eini þátturinn í sjávarútveginum í dag sem skilar viðunandi afkomu. Frystiskipin voru rekin með rúmlega 10% hagnaði á árinu 1990, um það bil 15% hagnaði á síðasta ári en Þjóðhagsstofnun áætlar að hagnaðurinn verði til muna minni á þessu ári eða um 11,5%. Hér koma fram þau umskipti sem eru að verða í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins en eigi að síður verður að telja að þessi afkoma sé viðunandi að því er frystiskipin varðar.
    Vinnsla botnfiskafla á hinn bóginn á nú við mjög verulega erfiðleika að etja. Þar hafa orðið afgerandi umskipti. Þjóðhagsstofnun telur að á árinu 1990 hafi hagnaður í vinnslu verið rétt innan við 1% en á síðasta ári hafi verið 0,5% tap, en á þessu ári verði hallinn um 8%.
    Samtök fiskvinnslustöðva hafa nýlega birt upplýsingar um mat sitt á rekstrarstöðunni við núverandi skilyrði. Þar er áætlað að tapið í heild verði um 10% í vinnslunni.
    Aðstæður frystingar og söltunar annars vegar eru mjög áþekkar eins og sakir standa. Þjóðhagsstofnun áætlar að frystingin sé rekin með 8% tapi en söltunin með rúmlega 8% tapi.
    Það er ekki nýtt af nálinni að verulegur munur sé á afkomu veiða og vinnslu. Í gegnum tíðina hefur það oft verið svo en um nokkurt skeið hefur aðstaðan verið með þeim hætti að vinnslan hefur átt við mun meiri erfiðleika að etja en útgerðin og það endurspeglast enn í þessum tölum. Hér er á vissan hátt um innbyrðis tekjuvanda í atvinnugreininni sjálfri að ræða og eðlilegt að við mat á heildarstöðu sjávarútvegsins horfi menn fyrst og fremst á afkomu greinarinnar í heild, veiða og vinnslu. En það má vera hverjum manni ljóst að viðvarandi hallarekstur er óásættanlegur og hlýtur að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið í heild. Nú er sjávarútvegurinn á hinn bóginn að ganga í gegnum miklar breytingar. Atvinnugreinin stendur að ýmsu leyti á tímamótum, bæði inn á við og út á við. Við horfumst í augu við minni afla en áður var, sérstaklega á mikilvægum botnfisktegundum, og þurfum að laga atvinnugreinina að þeirri staðreynd því ekki er fyrirsjáanlegt að á næstu árum verði grundvallarbreytingar í því efni. Á hinn bóginn stöndum við frammi fyrir nýjum aðstæðum í alþjóðaviðskiptum sem eiga að opna atvinnugreininni nýja möguleika og gefa henni tækifæri til þess að takast á við ný verkefni og skila meiri arði og nýjum tekjum eða nýrri verðmætasköpun inn í þjóðarbúið. Viðfangsefni hagstjórnar á Íslandi um þessar mundir er að varða þessa leið aðlögunar sjávarútvegsins að nýjum aðstæðum og tryggja að þegar upp verður staðið verði atvinnugreinin rekin með viðunandi hagnaði til þess að hún geti tekist á við hin nýju verkefni og skapað þann arð í þjóðarbúið sem ný tækifæri eins og Evrópusamningarnir eiga að geta gefið.
    Þjóðhagsstofnun hefur í skýrslu sinni fjallað nokkuð um þær ástæður sem liggja að baki breyttum afkomutölum. Í nýjustu skýrslu Þjóðhagsstofnunar, Úr þjóðarbúskapnum, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Helstu ástæður fyrir þessari þróun eru annars vegar mikill samdráttur í botnfiskafla, einkum þorskafla, og hins vegar mikil hækkun á hráefnisverði. Í janúaráætluninni er gert ráð fyrir um 16% minni botnfiskafla á árinu 1992 en 1990. Þessi samdráttur rýrir afkomuna um 4%. Hráefnisverð var um 80,6% hærra í febrúar 1991 en það var að meðaltali á árinu 1989 og 33,3% hærra en það var að meðaltali á árinu 1990. Í ágúst 1991 var verðið 52,6% hærra en það var að meðaltali á árinu 1989 og 12,6% hærra en það var að meðaltali á árinu 1990. Þess ber að gæta að hráefnisverð er alla jafna lægst á sumrin. Þessi mikla hækkun á hráefnisverði veldur því að afkoma vinnslunnar versnar en afkoma veiðanna verður þeim mun betri. Almennt gildir að hækkun á hráefnisverði um 10% leiðir til þess að afkoma veiðanna batnar um 3,6%, afkoma vinnslunnar versnar um 5,6% en heildarafkoma veiða og vinnslu versnar um 0,9%. Fyrir þau fyrirtæki sem eru bæði í útgerð og fiskvinnslu er þó það auðvitað afkoman í heild sem skiptir máli en ekki afkoma einstakra hluta starfseminnar. Flest fyrirtækjanna eru með fjölþætta starfsemi. Verð á ísfiski í Evrópu hefur hækkað mun minna en hráefnisverð hér innan lands. Þetta olli því að sala á ísfiski dróst saman um 19% á milli áranna 1990 og 1991. Þrátt fyrir aflasamdrátt og verulega aukningu í sjófrystingu var framleiðsla botnfiskvinnslunnar í landinu um 1% meiri á árinu 1991 en á árinu 1990. Í áætluninni fyrir september 1991 er reiknað með að greitt sé 2% af útflutningsverðmæti botnfisk í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Í áætluninni fyrir janúar 1992 hefur ekki verið reiknað með að útgerðin þurfi að greiða fyrir hluta aflaheimilda sem úthlutað verður fyrir næsta fiskveiðiár sem hefst 1. sept. 1992. Gert er ráð fyrir að greiðslur fyrir þessar aflaheimildir nemi rúmlega 500 millj. kr. eða sem svarar til rúmlega 1% af tekjum útgerðarinnar.``
     Þetta eru hinar almennu skýringar sem Þjóðhagsstofnun leggur fram með þeim útreikningum sem fyrir liggja af hennar hálfu.
    Skýrslubeiðendur óskuðu sérstaklega eftir því að niðurstöðutölur þessar yrðu brotnar meira niður en gert hefur verið þannig að unnt væri að sjá stöðu fyrirtækja eftir stærð þeirra og eftir landshlutum. Því er til að svara eins og alkunnugt er og hv. þm. er kunnugt að úrtak Þjóðhagsstofnunar sem þessar athuganir eru byggðar á er ekki nægilega stórt þannig að marktækar niðurstöður fáist þegar leitað er eftir niðurbroti upplýsinga með þessum hætti. Úrtakið er við það miðað að það geti gefið heildarmynd af stöðu atvinnugreinarinnar í landinu öllu en getur orðið misvísandi þegar það hefur verið brotið niður í smærri einingar og kannast hv. þm. við þá röksemdarfærslu af hálfu Þjóðhagsstofnunar frá fyrri umræðu um þetta mál. En vitskuld er það svo að meðaltalstölur af þessu tagi segja ekki allan sannleikann um þessa aðstöðu. Hitt er auðvitað ljóst þegar hallinn að meðaltali er orðinn jafnmikill og hér um ræðir, eru jafnvel best settu og öflugustu fyrirtækin komin í erfiða rekstrarstöðu, enda hafa forustumenn ýmissa öflugustu fyrirtækja í sjávarútvegi greint frá því að undanförnu að þó mjög verulegur hagnaður hafi verið af rekstri þeirra á síðasta ári, standi hann ýmist í járnum nú eða sé jafnvel um halla að ræða.
    Þegar við horfum til þeirrar staðreyndar er líka augljóst að við getum ekki vænst þess að botnfiskafli aukist að verulegu marki á næstu árum og atvinnugreinin þarf að laga sig að þeirri staðreynd sem þýðir að við getum veitt þann afla sem leyfður verður hverju sinni og unnið með færri skipum og færri vinnslustöðvum en við höfum ráðið yfir á undanförnum árum. Og einmitt fyrir þá sök þurfa almennar aðgerðir að varða leið sjávarútvegsins að aðlögun að þessum nýju aðstæðum. Það kann um margt að vera vandasamt en er á hinn bóginn óhjákvæmilegt markmið. Forustumenn í íslenskum sjávarútvegi hafa mjög svo bent á nauðsyn þess að atvinnugreinin sjálf takist á við þetta verkefni.
    Ef við lítum svo á það sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum með tilliti til þess að skýrslubeiðendur óska sérstaklega eftir því að gerð sé grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar og aðgerðum hennar til þess að treysta rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna, þá er fyrst á það að líta hvað almennar aðgerðir í efnahags- og peningamálum hafa haft í för með sér á undanförnum mánuðum. Ríkisstjórnin taldi það að vera höfuðverkefni af sinni hálfu að ná betur utan um ríkisfjármál en tekist hefur á mörgum undanförnum árum í þeim tilgangi fyrst og fremst að draga úr lánsfjáreftirspurn opinberra aðila, minnka eftirspurn eftir lánsfé á innlendum markaði með þeim hætti og draga þannig úr þrýstingi á vexti. Það fer ekki á milli mála að lækkun vaxta hefur verið og verður eitt af þeim höfuðatriðum sem ráða munu því hver afkoma framleiðsluatvinnufyrirtækjanna í landinu verður. Fyrir þá sök var lögð á þetta höfuðáhersla af ríkisstjórnarinnar hálfu í þeim tilgangi að treysta undirstöður í atvinnurekstri landsmanna og þá fyrst og fremst

framleiðsluatvinnuvegunum. Ég ætla ekki hér að rekja þau efni í einstökum atriðum en víst er að sá árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálaaðgerðum af þessu tagi hefur með alveg ótvíræðum hætti haft jákvæð áhrif og stuðlað að því að verðbólga er lægri en áður og vextir eru að byrja að lækka.
    Með þjóðarsáttarsamningunum í febrúar 1990 tóku forustumenn vinnuveitenda og launþega ákveðna forustu í því að skapa nýjar aðstæður í efnahagsmálum. Þeir sköpuðu raunverulega nýjar forsendur fyrir efnahagsþróun á Íslandi með mjög ábyrgum kjarasamningum. Það hefur nú tekist eftir margra mánaða samningaþóf að tryggja framhald þessarar stefnu með áframhaldandi ábyrgri afstöðu af hálfu forustumanna launþega og markvissum aðgerðum í ríkisfjármálum. Við væntum þess að með þessum hætti verði hægt að tryggja hér lægri verðbólgu en í viðskiptalöndunum og lækkun vaxta. Með því móti eigum við að geta treyst almennan rekstrargrundvöll og bætt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna.
    Ríkisstjórnin hefur lagt höfuðáherslu á stöðugleika í gengismálum. Vissulega er það svo og ekki umdeilt að gengi krónunnar er býsna hátt skráð miðað við rekstrarstöðu útflutningsfyrirtækjanna í landinu og þar hefur orðið nokkur breyting á frá því í febrúar 1990 þegar þáv. ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins einsettu sér að stefna að því að raungengi krónunnar gæti haldist óbreytt. Á hinn bóginn er um það mjög víðtæk samstaða, ekki síst meðal forustumanna í atvinnugreininni sjálfri, að handaflsbreytingar á gengi krónunnar dugi skammt í að breyta rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar og því þurfi að leggja höfuðáherslu á að ná bættum rekstrarskilyrðum með öðrum almennum aðferðum.
    Ríkisstjórnin hefur þegar lagt fyrir Alþingi og Alþingi samþykkt breytingar á fyrirkomulagi gengisskráningarinnar þar sem að því er stefnt að markaðsöflin muni ráða meira um þróun gengisins en áður var og að Seðlabankinn hafi sterkari ítök til þess að hafa stjórn á peningamálum og geti um leið tryggt stöðugleika í gengismálum. Allt þetta á að skapa betri grunn og skilyrði fyrir rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna og er nauðsynlegur þáttur í þeirri aðlögun sem atvinnugreinin stendur nú frammi fyrir.
    Af einstökum almennum aðgerðum sem ákveðnar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að auðvelda greininni að takast á við hinar nýju aðstæður má nefna þá ákvörðunum að fresta afborgunum af lánum Atvinnutryggingarsjóðs og af lánum hjá Fiskveiðasjóði á þessu og næsta ári en þar er um að ræða að frestað verður greiðslu á afborgunum sem nemur hátt í þremur milljörðum kr. og bætir það greiðslustöðu fyrirtækjanna á þessum árum. Þá var ákveðið að stöðva inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með sérstakri löggjöf sem samþykkt var á Alþingi fyrir jól þó að tilefni hafi þá enn verið fyrir innborgunum í sjóðinn samkvæmt þeim almennu reglum sem um Verðjöfnunarsjóðinn gilda.
    Í vetur var tekin ákvörðun um það á Alþingi að breyta ákvæðum um úreldingu fiskiskipa í þeim tilgangi að gera sjóðinn virkari og fá fram þá stöðu að við gætum hraðað þeirri þróun sem fiskveiðistjórnunarlögin eiga að leiða til. Viðbrögð við þessum aðgerðum voru mjög jákvæð og nú liggur fyrir að stjórn Fiskveiðasjóðs sem fer með þessi málefni hefur samþykkt úreldingu til 29 skipa sem samtals eru að vátryggingarverðmæti um 1,2 milljarðar kr. og veitt úreldingarstyrki fyrir rúmlega 360 millj. kr. Þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar með þessum hætti um úreldingu þýða um 2% minnkun fiskiskipaflotans. Ég hygg að með aðgerðum úreldingarsjóðsins og annarri þeirri úreldingu sem ætla má að verði eðlileg afleiðing af fiskveiðistjórnuninni sem nú er við lýði, eigi okkur að takast að úrelda milli 10 og 20% af fiskiskipaflotanum á næstu fimm árum. Ég hygg að á fimm árum ætti sjóðurinn einn og út af fyrir sig að geta stuðlað að því að draga fiskiskipaflotann saman um 10%. Þetta er verulegur ávinningur nú þegar af þeirri löggjöf sem samþykkt hefur verið í vetur og bætir um leið rekstrarstöðu þeirra útgerðarfyrirtækja sem eftir eru og það hefur síðan verið athugunarefni hvort unnt væri að koma við svipuðum aðgerðum gagnvart fiskvinnslustöðvunum. En eins og hv. þm. er kunnugt er það mál um margt flóknara, m.a. vegna þess að erfitt er að finna eðlilegar reglur sem koma í veg fyrir að það húsnæði sem styrkt er til úreldingar lendi ekki þegar í stað í höndum nýrra aðila í fiskvinnslu sem veikja þá rekstrargrundvöll hinna sem fyrir eru. Ég hygg að fæstir séu þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að ganga inn á þá braut að setja vinnsluna undir ákveðið leyfakerfi. Hún hlýtur að starfa á frjálsum grundvelli að uppfylltum þeim gæðakröfum sem gerðar eru á hverjum tíma. Þó tæknileg vandamál séu uppi í þessu, var ákveðið að sú nefnd sem vinnur að mótun sjávarútvegsstefnu og hefur það meginviðfangsefni í fyrstu að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin tæki þetta atriði til nánari skoðunar og það er nú til meðferðar og athugunar í þeirri nefnd.
    Með almennum hagstjórnarákvörðunum og aðgerðum og almennum ráðstöfunum sem fyrst og fremst hafa beinst gegn sjávarútveginum hefur þannig verið reynt að bregðast við þeim erfiðleikum sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir í þeim tilgangi að taka á rótum vandans og varða leið sjávarútvegsins að nýjum aðstæðum. Það er vissulega svo að þó að á móti blási um sinn vegna minni afla, þá eygjum við nýja möguleika og ný sóknarfæri. Það sem skiptir máli á hinn bóginn er að okkur takist að skjóta svo traustum stoðum undir rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna að þau geti tekist á við þessi nýju verkefni. Samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið eru mjög mikilvægur þáttur í þessari umræðu vegna þess að þeir opna íslenskum sjávarútvegi nýja markaðsmöguleika. Það er engum vafa undirorpið að hagvöxtur á Íslandi og aukin verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi verður að miklu leyti undir því komin hvort okkur tekst að efla vöruþróun annars vegar, aukna fullvinnslu afurðanna hér heima og hins vegar að ná markvissari tökum á markaðsstarfsemi okkar, komast nær neytendunum sjálfum á erlendum mörkuðum, draga þannig úr verðsveiflum á mörkuðunum og taka stærri hluta markaðsstarfsins í okkar eigin vasa. Til þess að þetta megi verða þurfum við öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem skila verulegum hagnaði fyrir þá sök að hvort tveggja

vöruþróun og markaðsstarf kostar mikla fjárfestingu og mikla peninga og verður ekki unnið nema af atvinnufyrirtækjum sem skila umtalsverðum hagnaði. Það er því eitt af brýnustu málunum að bæta rekstrarstöðuna og flýta aðlögun sjávarútvegsins að nýjum aðstæðum til þess að við getum nýtt okkur þessa möguleika.
    Einnig er ljóst að í þeirri hörðu samkeppni sem við erum í á erlendum mörkuðum þurfum við á auknum styrk að halda. Ýmsum sýnist sem svo að þau fyrirtæki sem hafa helst unnið að útflutningsmálum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum áratugum séu býsna stór í sniðum. En sannleikurinn er þó sá þegar komið er á erlenda markaði að þessi fyrirtæki eru hvert fyrir sig smá og í raun og veru ekki í stakk búin til þess að takast á við stærstu risana á erlendum mörkuðum. Fyrirtækin hafa unnið ótrúlega mikið starf á erlendum mörkuðum og náð ótrúlegum árangri og þar með tryggt betri lífskjör í landinu. Ég hef hvatt forustumenn þessara sölusamtaka nokkrum sinnum til þess að huga að því hvort ekki væri rétt að þau tækju upp náið samstarf og hugleiddu jafnvel samruna með einum eða öðrum hætti. Alltént sér maður fyrir að af því gæti orðið mikil hagræðing og styrkur ef þau sameinuðust á ákveðnum markaðssvæðum og stigju með þeim hætti fyrstu skref til aukinnar samvinnu. Ég tel að slík þróun sé mikilvæg og nauðsynleg ef við ætlum að ná meiri arði út úr markaðsstarfsemi íslenskra fyrirtækja á næstu árum.
    Vissulega er það svo að þeir samningar sem nú eru á döfinni um Evrópskt efnahagssvæði eiga að gefa okkur ný sóknartækifæri í þessu efni án þess að ég ætli að fara nánar út í þá sálma eða ræða þá samninga í einstökum atriðum hér. Við höfum einnig verið þátttakendur í GATT-viðræðum um margra ára skeið. Þar hefur gengið á ýmsu. Hins vegar verð ég að segja það hér og nú að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að á þeim vettvangi hefur þess ekki orðið vart að vilji sé til þess að stíga ný skref að því er varðar alþjóðaviðskipti með fiskafurðir. Ekki er að sjá að GATT-viðræðurnar muni marka nein þáttaskil að því er varðar tolla og styrki í milliríkjaverslun með sjávarafurðir. Fyrir þá sök samþykkti ríkisstjórnin fyrr í vetur af sinni hálfu að leggja á það áherslu á lokaspretti þessara viðræðna að meiri árangur næðist á endanum en fyrirsjáanlegt hefur verið í þeim efnum. En við hljótum að meta þessa samninga út frá heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar og meginhagsmunir okkar í milliríkjaverslun lúta að útflutningi á sjávarafurðum og því hljótum við að fylgja fast eftir þeirri almennu stefnumörkun af okkar hálfu að brjóta niður tollmúra og umfram allt að brjóta niður alþjóðlegt styrkjakerfi í sjávarútvegi. Aðeins með því móti fáum við notið sérstöðu okkar sem fiskveiðiþjóð og hljótum því að leggja mikla áherslu á þessi atriði. Því miður bendir fátt til þess enn að GATT-viðræðurnar ætli að skila nokkrum marktækum árangri í þessum efnum.
    Sjávarútvegurinn stendur einfaldlega í þeim sporum að þurfa að takast á við þessi margþættu viðfangsefni og okkar ábyrgð er sú að tryggja með almennum efnahagslegum aðgerðum að hann verði fær til þess að mæta nýjum aðstæðum, bæði inn á við að því er varðar minni afla og eins út á við að því er varðar ný sóknartækifæri í breyttu alþjóðlegu umhverfi.
    Þá óska skýrslubeiðendur sérstaklega eftir umfjöllun um störf þeirrar nefndar sem hefur unnið að endurskoðun fiskveiðistefnunnar að undanförnu. Það er vissulega svo að fiskveiðistjórnunin sjálf getur skipt mjög miklu máli um þróun atvinnugreinarinnar og möguleika hennar til þess að takast á við nýjar aðstæður. Afkoma atvinnugreinarinnar verður engan veginn slitin með öllu frá ákvörðunum manna og hugmyndum um hvernig stjórna eigi veiðunum. Við höfum gjarnan sett okkur meginmarkmið með stjórnun fiskveiðanna. Þau eru í aðalatriðum þrjú. Í fyrsta lagi að stjórnunin leiði til þess að við náum þeim markmiðum varðandi verndun fiskstofna sem við setjum á hverjum tíma. Í öðru lagi að við náum þeirri hagkvæmni í rekstri útgerðarinnar sem nauðsynleg er. Í þriðja lagi að greinin geti búið við sem mest frjálsræði og sem minnst opinber afskipti. Vitaskuld geta verið skiptar skoðanir um meginmarmið af þessu tagi. Að því er varðar þriðja markmiðið hygg ég að menn greini á eftir því hvar þeir standa í flokki. Sumir vilja meiri opinber afskipti og telja að þau séu eðlilegri og heppilegri. Það er ekki mín skoðun. Sumir telja að því er varðar annað markmiðið að hagkvæmnikröfum eigi að víkja til hliðar og meta a.m.k. í mörgum tilvikum aðra hagsmuni meira, til að mynda byggðahagsmuni. Ég hygg þó að flestir séu á einu máli um að fiskveiðistjórnunarkerfi þurfi að tryggja að við náum þeim markmiðum um verndun fiskstofna sem sett eru á hverjum tíma.
    Við getum farið ýmsar leiðir til þess að ná þessum markmiðum. Í fyrsta lagi getum við búið við aflamarkskerfi sem er í grundvallaratriðum svipað því sem við búum við í dag. Hins vegar er hægt að hugsa sér margs konar útfærslur á því. Í öðru lagi getum við byggt í grundvallaratriðum á sóknarmarkskerfi og í þriðja lagi gætum við búið við útboð á veiðiheimildum og látið uppboð stjórna því hverjir veiða á hverjum tíma. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessar þrjár meginleiðir. Eins og núverandi fiskveiðistjórnunarlög eru orðin eftir margra ára þróun þá tel ég menn komist býsna nærri því að koma til móts við þau höfuðmarkmið sem við höfum sett. Eftir að nýju lögin gengu í gildi sýnir reynslan af fyrsta fiskveiðitímabilinu að okkur virðist vera að takast að ná að stýra veiðunum í samræmi við þær ákvarðanir um heildarafla sem settar hafa verið. Á því varð misbrestur á þróunartímabilinu en nýju lögin sem eru í mörgum efnum miklu fullkomnari en þau sem áður giltu virðast hafa fært okkur að þessu marki. Óumdeilt er að við erum að ná meiri hagkvæmni í dag og tölur um úreldingu fiskiskipa sýna það svo að ekki verður um villst og þróunin er markvisst í þá átt að afskipti stjórnvalda eru stöðugt minni og greinin getur í meginatriðum starfað án fyrirskipana að ofan.

    Menn þurfa vitaskuld að hafa ýmis atriði í huga í þessu efni og í miklum umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfi hafa menn bent á ýmis atriði sem taka þurfi til skoðunar. Sumir sem kvatt hafa sér hljóðs um þetta efni telja til að mynda að framsal á aflaheimildum sé óeðlilegt og telja nauðsynlegt að skipta um fiskveiðistjórnunarkerfi til þess að koma í veg fyrir framsal á aflaheimildum. Aðrir telja að þetta kerfi leiði til vaxandi byggðavanda. Þá hafa sumir talið óeðlilegt að aflaheimildir geti myndað ákveðin verðmæti. Menn hafa gagnrýnt að fiski sé hent í sjóinn og menn hafa rætt um að veiðiheimildir færist á hendur færri manna en áður var.
    Nú er nauðsynlegt að bera saman áhyggjuefni og ágreiningsefni af þessu tagi við þær mismunandi leiðir sem okkur eru færar við fiskveiðistjórnunina. Til að mynda er alveg augljóst að framsal á aflaheimildum á sér jafnt stað í aflamarki og sóknarmarki. Sóknarmarkið má að vísu hugsa sér með ýmsu móti en ef um er að ræða sóknarmark þar sem fjöldi skipa er takmarkaður þá er um að ræða framsal á aflaheimildum með mjög svipuðum hætti og í aflamarkskerfi. Byggðavandinn er jafnmikill burt séð frá því hvaða stjórnunarkerfi við höfum vegna þess að það er fyrst og fremst takmarkaður afli og minni botnfisksafli sem hefur leitt til sérstaks vanda í ákveðnum byggðum. Þegar einn landshluti segir: Við þurfum að breyta um fiskveiðistjórnunarkerfi til þess að landshluti okkar getur endurheimt það sem við áður höfðum, þá þýðir það að nýtt kerfi mundi koma niður á öðrum landshluta vegna þess að ekki er meiri afli til skiptanna og ef auka ætti afla í einum landshluta þá þarf að taka það af öðrum og búa til byggðavanda á öðrum. Breyting á fiskveiðistjórnunarkerfi í þessu tilgangi mundi þannig bæta stöðu eins landsfjórðungs en gera stöðu annars verri og skapa þannig ný byggðavandamál.
    Ég hygg líka að að því er varðar verðmætamyndun veiðiréttar þá hljóti veiðiréttur að taka á sig vernd hvaða stjórnkerfis sem við höfum, hvort sem við styðjumst við aflamark eða sóknarmark og svo að ég tali nú ekki um ef við færum yfir í útboðsleiðina. Ég sé ekki að menn komist hjá því að við takmarkaðar veiðiheimildir verði hægt að víkja sér undan því að veiðirétturinn tekur á sig vernd.
    Eitt af alvarlegustu gagnrýniatriðunum að mínu mati er spurningin um hvort kerfið leiðir til þess að fiski sé hent í sjóinn í ríkari mæli en varðandi önnur stjórnkerfi. Vissulega er hætta á því að svo sé þegar sóknargetan er mjög mikil umfram afrakstursgetu fiskstofnanna. En úr því á að draga um leið og jöfnuður hefur náðst á milli sóknargetu og afrakstursgetu fiskstofnanna. Við verðum líka að hafa í huga að það er ekki nýtt vandamál að fiski sé hent í sjóinn. Því miður hefur það lengi verið vandamál en umræðan um þetta hefur færst mjög í vöxt og verður ekki með öllu slitin úr tengslum við fiskveiðistjórnunarkerfið. Fyrir því hefur verið efnt til sérstaks samráðs á milli sjútvrn. og Hafrannsóknastofnunar annars vegar og hagsmunaaðila, sjómanna og útvegsmanna hins vegar til þess að vinna að þessu máli ásamt frekari friðunaraðgerðum.
    Ef ég vík svo loks að því ádeiluefni sem oft heyrist nefnt sem er samþjöppun veiðiheimilda eða yfirfærsla veiðiheimilda á færri hendur þá er þar fyrst og fremst um að ræða afleiðingu þess að við veiðum nú minna en áður og hagræðingin leiðir það af sér, ef við meinum eitthvað með því að hún sé markmið í sjálfu sér, að færri skip og færri hendur veiða og vinna þann afla sem við drögum úr sjó.
    Ég hef eigi að síður talið mjög eðlilegt að það væri hugað að því, og hef lagt það að þeim mönnum sem starfa að endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaga, hvort ekki geti verið eðlilegt að setja skilyrði um opin almenningshlutafélög þegar veiðiheimildir fara yfir ákveðið mark. Ég tel mjög eðlilegt að hugmyndir af því tagi séu skoðaðar sérstaklega.
    Vitaskuld væri hægt að fara mörgum og miklu fleiri orðum um þau verkefni sem við blasa að því er varðar endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem ég ætla þó ekki að gera í upphafi umræðunnar, en í skýrslubeiðni hv. þm. er sérstaklega óskað eftir því að nánari grein sé gerð fyrir störfum þeirrar nefndar sem hefur haft forustu um þetta efni. Ég vil þá lesa lýsingu starfsmanns nefndarinnar í örfáum orðum á því hvernig hún hefur hagað störfum sínum, en þar segir svo:
    ,,Nefnd um mótun sjávarútvegsstefnu hefur haldið 21 fund fram til 8. maí 1992. Haft hefur verið náið samráð við hagsmunaaðila, auk fjölda sérfræðinga, m.a. á Hafrannsóknastofnun, Þjóðhagsstofnun og í lánastofnunum. Unnið hefur verið að gagnasöfnun um stjórnun fiskveiða í öðrum löndum og teknar hafa verið saman stuttar greinargerðir um ýmis mál því tengd. Þessu undirbúningsstarfi er nú u.þ.b. að ljúka og gert er ráð fyrir að tillögur nefndarinnar liggi fyrir í haust um það leyti sem Alþingi kemur saman. Nefndin hefur kynnt sér rekstrarstöðu sjávarútvegsins rækilega og haft forgöngu um ýmsar athuganir á því sviði. Ekki er um það deilt að horfur eru dökkar, enda er afrakstursgeta nytjastofna okkar mun minni en afkastageta fiskiskipa og vinnslustöðva. Ýmsar leiðir út úr þessum ógöngum hafa verið skoðaðar en eftir stendur sú staðreynd að rekstrarskilyrði munu ekki batna nema afkastagetan minnki.``
    Að því er varðar samráð nefndarinnar við aðra aðila segir svo í minnisblaði starfsmanns nefndarinnar:
    ,,Haldnir hafa verið fimm fundir með ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila, en í henni eiga sæti fulltrúar heildarsamtaka fiskvinnslustöðva, útvegsmanna, smábátaeigenda, sjómanna, verkamanna og yfirmanna á fiskiskipum. Einnig fulltrúar Íslenskra sjávarafurða og Fiskifélags Íslands. Haldnir hafa verið tveir fundir með sjútvn. Alþingis. Ætlunin er að funda oftar með sjútvn. á næstunni, enda komið að því að móta ákveðnar tillögur.``
    Þá er tekið fram að enn sem komið er hafi ekki verið haldnir fundir með fulltrúum sveitarfélaga,

en á síðari stigum séu slíkir samráðsfundir ráðgerðir.
    Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum vikið að þeim viðfangsefnum í skýrslubeiðninni sem lúta að afkomu sjávarútvegsfyrirtækja um þessar mundir og aðgerðum stjórnvalda til þess að mæta þeim vanda og hinu hvernig unnið hefur verið að endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar að undanförnu og hvernig stefnt er að verklokum í þeim efnum.