Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 14:34:50 (6255)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessa skýrslu. Að mörgu leyti þótti mér hann flytja hana ákaflega málefnalega og reyna að rökstyðja sjónarmið sem í málinu liggja án þess þó að ég sé endilega sammála þeim sjónarmiðum sem hann setti fram. En á þessu stigi umræðnanna langaði mig til að leggja fyrir hæstv. ráðherra spurningar í framhaldi af því sem fram kom í ræðu hans.
    Það er í fyrsta lagi hvað varðar hugmyndina um úreldingu fiskvinnslustöðva. Ég vil spyrja ráðherrann hver eigi að borga. Hvaðan er hugmyndin um að sækja fé til að fjármagna úreldingarsjóð fiskvinnslustöðva?
    Í öðru lagi og að nokkru leyti í framhaldi af seinni spurningunni þar sem mér heyrðist ráðherrann segja að eðlilegt væri að setja vinnsluna undir leyfakerfið. Ég spyr ráðherrann: Er verið að boða . . .   ( Sjútvrh.: Óeðlilegt var.) Óeðlilegt. Ja, það er gott. Það snýr málinu alveg við og ég er sáttur við þá skoðun. Þá þarf ekki frekar að fjalla um þá spurningu.
    Í framhaldi af hugmyndum um úreldingu fiskvinnslustöðva og spurningunni um það hver eigi að fjármagna spyr ég ráðherra: Eru uppi hugmyndir um að setja framleiðslukvótakerfi á vinnsluna, búa til verðmæti sem menn geta síðan selt?
    Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að núverandi stjórnunarkerfi hafi náð þeim markmiðum sem hann gat um að vernda fiskstofnana í ljósi þess að afli er minnkandi ár frá ári og að auka hagkvæmni í útgerð í ljósi þess að við erum með allt of stóran flota.