Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 15:08:14 (6257)

    
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þingheimi öllum er ljóst að Alþb. sótti þessa umræðu talsvert fast og ég bjóst þess vegna við því að framsögumaður þess í þessum umræðum mundi sáldra yfir þingheim og þjóðina alla úrræðum Alþb. en það verður að segjast eins og er að um leið og hv. þm. Jóhann Ársælsson ásakar hæstv. sjútvrh. fyrir að tala óskýrt þá talar hann sjálfur ekki mjög skýrt. Satt að segja var afskaplega lítið af úrræðum, hugmyndum eða tillögum í máli hans. Þess vegna langar mig að fá skýringar á einu tilteknu atriði. Nú er ljóst að einn aðalvandinn í sjávarútvegi á Íslandi í dag er of mikil vinnslugeta í fiskiðnaði. Þetta

hefur gert það að verkum að menn velta því fyrir sér hvernig er hægt með sem skapfelldustum hætti að fækka einingum. Þetta vandamál hefur til að mynda aukist mjög verulega þegar ljóst er orðið að veiðiheimildir eru skertar og þarf sennilega að skerða þær enn frekar. Af þessu tilefni segir Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, í Morgunblaðinu þann 6. maí, með leyfi forseta:
    ,,Og minnkun veiðiheimildanna veldur slíkum erfiðleikum að menn sjá ekki út úr þeim.``
    Gunnar Ragnars, forstjóri ÚA, segir í Morgunblaðinu 8. maí: ,,Minni afli hlýtur að leiða til þess að einingum fækki.`` Leiðir hann síðan getum að því hversu erfitt þetta verði fyrir ýmsar byggðir.
    Það er nákvæmlega þetta vandamál sem Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður utanrrh. og annar tveggja formanna endurskoðunarnefndarinnar, hefur verið að reyna að leita ráða við. Menn hafa kallað það gjaldþrotaleiðina. Ég skal ekkert um það segja. Alveg er ljóst að það þarf að grisja, það þarf að fækka einingum og mig langar að spyrja: Hvernig ætlar hv. þm. Jóhann Ársælsson að fara að því að fækka einingum í fiskvinnslunni eða er hann kannski ósammála því að það þurfi að draga úr vinnslugetunni?