Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 15:10:09 (6258)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vel getur verið að síðar í umræðunni muni ég kannski fara betur yfir þær tillögur sem við höfum lagt fram og rætt í vetur sem ég veit að hv. 17. þm. Reykv. hefur séð og lesið og heyrt frá okkur. En það get ég ekki gert í andsvari. Um það hvernig eigi að fækka einingum í sjávarútvegi get ég sagt alveg hreint út. Það eiga menn að sjá um sjálfir. Ríkið á ekki að skipta sér af því hve margir verka fisk á Íslandi. Menn verða að meta hvort þeir telja að sé hagkvæmt eða ekki. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja að eitthvert kvótakerfi verði sett á það. Fram að þessu hefur gengið þannig að menn hafa byrjað og hætt í þessu. Sumir hafa staðið sig lengi, aðrir skemur. Þannig verður það auðvitað að vera. En ég er auðvitað sammála því að það er of mikil vinnslugeta núna. Það breytist einfaldlega með tímanum. Það er ekki hægt að búa til lausnir handa mönnum sem eru í þessari grein, þeir verða að gera það sjálfir. Ef þeir kjósa að koma á uppkaupum á vinnslulínum eða úreldingarsjóði er það þeirra mál.