Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 15:13:19 (6260)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Munurinn á því sem við höfum verið að segja og því sem Þröstur Ólafsson sagði er mjög einfaldlega sá að við höfum lagt áherslu á að útgerðinni í landinu og fiskvinnslunni væru sköpuð eðlileg rekstrarskilyrði þar sem hægt væri að reka fyrirtækin með einhverjum arði. Þannig á að skapa skilyrðin. Það verður svo að vera ákvörðun þeirra sem eru í þessum atvinnurekstri hvort þeir telja þess virði að vinna við hann eða ekki. Við getum einfaldlega ekki tekið upp einhvers konar sovét-kerfi í þessum efnum, við höfum nóg af kerfum eins og er og þyrftum að fækka þeim. Við skulum fyrir alla muni ekki fara að taka upp eitt enn, að búa til einhvers konar skömmtunarkerfi í fiskvinnslunni. Það er ekki gjaldþrotaleið ef raunverulega er hægt að reka fyrirtækin með arði í greininni. Það er ekki gjaldþrotaleið. Það er gjaldþrotaleið ef það á að keyra greinina þannig niður að næstum því allt sé rekið með bullandi halla og þá falla fleiri en eiga það skilið.