Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 15:58:37 (6262)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom mér afar mikið á óvart hversu þung orð hv. þm. Halldór Ásgrímsson lét hér falla í garð Jafnaðarmannaflokks íslands. Mér varð þá hugsað til hinna björtu maínótta að loknum kosningum á síðasta ári þegar hv. þm. ásamt öðrum forustumönnum Framsfl. lá eins og ástfanginn unglingur við hinn opna skjá Alfl. og bað og bað og bað um að fá að komast í hjónasæng ríkisstjórnar með einmitt þessum sama Alþfl. Það er því bersýnilega af sem áður var. Ég minnist þess líka að þá vildu menn gefa svo mikið fyrir að komast í stjórn með Alþfl. að ýmsir vildu jafnvel gefa höfuð sjálfs foringja flokksins, hv. þm. Steingríms Hermannssonar, á fati. Þeir vildu gera allt til þess að komast í stjórn með Alþfl. Kannski hv. þm. muni það. Kannski það séu að einhverju leyti orsakir fyrir þeim ummælum sem formaður Framsfl. lætur falla um hv. þm. Halldór Ásgrímsson í tímaritsviðtali sem birtist nýlega. Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég tel að Halldór Ásgrímsson sé mjög góður og verðugur arftaki hv. þm. Steingríms Hermannssonar, a.m.k. hefur hann lært af honum þann undarlega eiginleika að tala mjög myrkt. Hv. þm. hefur nefnilega ekki talað mjög skýrt hér. Hann talar um gengi og segir: Gengisstefnan hefur margar hliðar, og svo segir hann: Dettur nokkrum í hug að sjávarútvegurinn geti þolað hærra gengi en hann bjó við 1990? Ætla menn virkilega að láta sem ekkert sé á því sviði? Hér er talað í hálfkveðnum vísum og ég tel að hv. þm. Halldór Ásgrímsson verði að gera þingheimi það ljóst hvort hann sé með þessu að óska eftir gengisfellingu eða ekki.