Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 16:00:22 (6263)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef aldrei beðið um það að komast í ríkisstjórn með Alþfl. Það er rangt og allt sem hv. þm. sagð hér um það er tómt bull. Það lá fyrir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að forustumenn Alþfl. höfðu ákveðið það, meira að segja fyrir síðustu kosningar, að fara í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Það þurfti því ekki að tala við þá. Ég átti eitt samtal við formann Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson. Það var alveg ljóst að hann var búinn að taka stefnuna í þeim málum og ekkert um það að segja. Það er hans ákvörðun. ( ÓRG: Hann sagði Össuri ekki frá því.) Hann hefur kannsi ekki sagt Össuri frá því.
    Vegna þess sem hv. þm. sagði um gengismál má vel vera að honum finnist það ekki vera skýrt sem ég sagði. Ég sagði að það væri útilokað fyrir íslenskan sjávarútveg að búa við hærra gengi en hann bjó við á árinu 1990. Er það óskýrt? Það þýðir væntanlega að ég tel gengið of hátt. Er það óskýrt? Hvað er það sem hv. þm. skilur ekki í þessu sambandi? Ég er einfaldlega að segja að gengið hafi hækkað of mikið á undanförnum mánuðum og það sé ekki hægt að hækka gengið á sama tíma og verðlag lækkar og afli dregst saman. Ríkisstjórn sem starfar þannig og ætlar sér slíka hluti er á villigötum. Það er ekki nóg með að reiknað sé með því að sjávarútvegurinn mæti sínum erfiðleikum heldur er gengið jafnframt hækkað.