Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 16:03:22 (6265)

         Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að stafa þetta frekar ofan í þingflokksformann Alþfl. Það er kannski eðlilegt að illa gangi hjá atvinnuvegum þjóðarinnar þegar skilningurinn er eins og fram kemur hjá honum.
    Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það verði að létta álögum af sjávarútveginum, þeim álögum sem Alþfl. hefur m.a. þröngvað fram í þessari ríkisstjórn. Þær hafa hækkað gengið í landinu. Það er númer eitt. Ef það dugar ekki til á ég alveg eins von á því, hv. þm., að það þurfi að eiga sér stað einhver leiðrétting á genginu. Ég vil ekki kalla það gengisfellingu. Ég tel gengið einfaldlega vera of hátt. En ég vil spyrja hv. þm.: Hvað telur hann í þessu sambandi? Er hann ánægður með þetta allt saman? Telur hann að sjávarútvegurinn eigi bara að búa við 10% tap, að það sé bara hið besta mál að sjávarútvegurinn búi við háa vexti og háa skatta? Og síðan eigi menn bara að sætta sig við gjaldþrotaleið, að þetta hrynji smátt og smátt? Vill hann ekki svara einhverju um það? Ætli það sé ekki frekar á ábyrgð hans og þessara manna sem tóku að sér stjórn landsins að segja eitthvað um það en þegja ekki þunnu hljóði um það á Alþingi?