Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 20:47:49 (6268)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti og góðir áheyrendur. Framsóknarflokkurinn hefur í um 20 ár átt nær samfellda aðild að ríkisstjórn. Hann hefur sem miðjuflokkur í íslenskum stjórnmálum komið í veg fyrir að öfgastefnur í íslenskri pólitík næðu saman til valda þar til nú. Það er því rétt sem haldið hefur verið fram að Framsóknarflokkurinn hefur öðrum flokkum fremur mótað það þjóðfélag sem hér hefur verið byggt á.
    Þegar núv. forsrh. á sínum fyrstu valdadögum leit yfir svið íslenskra stjórnmála til að sækja efnivið í stefnuræðu sína komst hann að þeirri niðurstöðu eins og hann sagði í stefnuræðunni: ,,Við Íslendingar búum nú við betri kjör en flestar aðrar þjóðir. Við höfum brotist frá fátækt til bjargálna og stöndumst nú samanburð við þær þjóðir sem fremstar standa. Hér hefur verið um sigurgöngu að ræða fyrir íslenska þjóð.``
    Þetta er dómur núv. forsrh. á stjórnarþátttöku Framsfl. Sigurganga fyrir íslenska þjóð, sagði Davíð Oddsson. Það sem hér hefur gerst á tveimur áratugum hefur tekið aðrar þjóðir aldir. Þetta er sá grunnur sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafði til að byggja á að hans eigin dómi.
    En þáttaskil hafa nú orðið í íslenskri pólitík. Þegar Sjálfstfl. og Alþfl. svikust að þjóðinni og mynduðu það afl sem nefnir sig ríkisstjórn. Nú réttu ári síðar eru þessir flokkar rúnir öllu trausti og aðeins eitt eiga þeir sameiginlegt, það er óttinn við fólkið í landinu. Hlutskipti Alþfl. í þessu stjórnarsamstarfi er vægast sagt ömurlegt. Hann hefur haft um það forustu að brjóta niður það velferðarkerfi sem hér hefur verið. Þess vegna er nú talið nauðsynlegt að reka það fólk, sem hefur lagt nótt við dag til að byggja hér upp þjóðfélag mannúðar og mildi, út af þeim stofnunum sem það hefur kosið að eyða ævikvöldinu. Ríkisstjórnin hefur einnig talið nauðsynlegt að skerða þau sjálfsögðu mannréttindi ungs fólks að geta sótt nám í þeim menntastofnunum er það sjálft kýs. Nú á menntun að verða munaður að nýju.
    Ríkisvaldið ögrar og hótar hinum almenna launamanni við að ná rétti sínum til mannsæmandi launa með fjöldauppsögnum og atvinnuleysi. Launþegar þurfa nú að fórna kjarabótum til að verja velferðarkerfið. Var það tilviljun að forstjóri Þjóðhagsstofnunar kom fram í fjölmiðlum strax og launþegar höfðu notað atkvæðisrétt sinn um sáttatillöguna og lýsti því þar hversu ástandið á Íslandi væri miklu betra en haldið hafði verið fram. Árið 1991 var þá allt í einu orðið um margt mjög hagstætt ár. Aðgerðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar höfðu nefnilega skilað árangri. Með þeirri stjórnarstefnu sem nú hefur verið tekin upp er ástandið í þjóðmálum vægast sagt mjög alvarlegt. Atvinnuleysið og gjaldþrotin eru nú notuð sem hagstjórnartæki ríkisstjórnarinnar.
    Hann Nóri segir okkur frá því í kolkrabbanum að nóg svigum sé fyrir þá sem fram úr skara án þess að þeir þurfi að breyta hugsjónaeldi heillar þjóðar í heimilisarin fyrir sig og sína nánustu. Sú fyrirtækjasamsteypa sem peningaöflin í landinu hafa komið á fót í skjóli vafasamra viðskiptahátta og í daglegu tali nefnist kolkrabbinn er heilbrigðum atvinnurekstri skaðleg. Því er nauðsynlegt að rannsókn fari fram á starfsemi þessa auðhrings. Andvari og ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum veldur áhyggjum og á eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef ekki verður sveigt af leið. Möguleikar þjóðarinnar til nýrrar atvinnusköpunar eru margvíslegir. Gífurleg verðmæti liggja enn vannýtt í fiskitegundum og í orku landsins ásamt margvíslegum öðrum iðnaðar- og atvinnukostum. Við höfum einnig sem betur fer fjárfest í mikilli þekkingu fjölda mikilhæfra einstaklinga. Það er ekki sísti auður þessarar þjóðar. Við þurfum að skapa skilyrði til að nýta það hugvit og þá þekkingu sem við ráðum yfir í dag til að tryggja aukna fjölbreytni í atvinnulífinu. Það veldur hins vegar áhyggjum að með úrtölum og svartsýni stjórnvalda hefur máttur til framkvæmda og nýsköpunar í íslensku atvinnulífi verið drepinn í dróma. Hér hefur ríkisstjórnin unnið mikið óhappaverk. Hins vegar er ekki ástæða að láta hugfallast. Það er ekki landið sem hefur brugðist okkur. Það er ríkisstjórnin sem hefur brugðist en um hana má reyndar og þarf að skipta.
    Við Íslendingar erum lánsöm þjóð í dásamlegu landi sem á ærinn ónýttan auð. Við búum ekki lengur á mörkun hins byggilega heims. Við búum fremur á krossgötum nýrra leiða. Við göngum nú út í sumarið og sjáum mátt hinnar íslensku moldar og gróðurinn vakna til lífsins. Andstæða þess eru verk ríkisstjórnarinnar þar sem kal er í hverju spori.
    Góðir Íslendingar. Síðan íslenska þjóðin varð frjáls og fullvalda hefur henni tekist að varðveita lífbeltin tvö, landið og hafið og svo hina íslensku tungu. Nú er ástæða til að hvetja til öflugrar varðstöðu um okkar eigið fjórfrelsi. Í dag er það ljósara en áður að sjálfstæðisbarátta þjóða er ævarandi. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.