Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 20:55:00 (6269)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þingstörfum lýkur senn og eru þessar umræður samkvæmt gamalli hefð hugsaðar sem eins konar úttekt og uppgjör þeirra starfa og um leið fyrsta heila starfsárs núv. ríkisstjórnar. Í mínum huga er enginn vafi að ríkisstjórnin má allvel við una. En meira máli skiptir þó hvort landsmenn geta verið sáttir við þau störf sem unnin hafa verið. Ég held að svarið við því sé einnig jákvætt. Landsmenn hljóta fyrst og fremst að gera þá kröfu til þeirrar ríkisstjórnar sem hefur forustu um landsmál hverju sinni að hún hafi kjark og burði til að horfast í augu við þá erfiðleika sem við er að glíma og taka á þeim. Það hefur ríkisstjórnin gert en í þeim efnum brást sú ríkisstjórn, sem Steingrímur Hermannsson stjórnaði, herfilega. Sú ríkisstjórn reyndi að kaupa sig frá vandanum en forðaðist að leysa hann. Þeir sem nú berja sér á brjóst og þykjast vilja standa fremstir í vörð um íslenskt velferðarþjóðfélag höfðu sjálfir gefist upp á að standa undir kostnaðinum við þá sömu velferð.
    Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skildi þannig við fjármál þjóðarinnar, er hún hrökklaðist frá, að það stefndi í að 16 þús. millj. kr. vantaði upp á að endar í fjármálum ríkisins næðu saman það árið. Sumir segja að 16 þús. millj. sé svo mikið fé að fólk átti sig ekki á um hvað sé að tefla. En það er mjög nauðsynlegt að menn geri sér glögga grein fyrir þessum staðreyndum. Í því sambandi má nefna að 16 þús. millj. kr., upphæðin sem upp á vantaði að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar vildi borga fyrir þá velferð sem hún bauð, er mun hærri upphæð en ríkasta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, höfuðborgin sjálf, hefur úr að spila á heilu ári. Velferðin sem byggðist á slíkri stöðu var engin velferð. Hún var blekkingin ein. Það sjá allir menn sem vilja skoða hlutina. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, vinstri stjórnin, stóð á gati í velferðarmálum. Það gat var upp á 16 þús. millj. kr. og í það gat þurfti að stoppa. Efnahagsprófessorar sem hefðu haldið því fram að 16 þús. millj. kr. halli væri heilbrigð efnahagsstefna hefðu verið taldir fremur brjálaðir prófessorar en þeir sem áðan voru nefndir hér í umræðunni.

    Núv. ríkisstjórn hefur hins vegar ekki brugðist skyldum sínum í þessum efnum. Hún hefur ekki falið neitt. Hún horfist í augu við staðreyndir og hún skýrir frá þeim staðreyndum hiklaust. Þeir sem stóðu á gati ráðast á ríkisstjórnina og segja að hún dragi kjark úr þjóðinni, máli ástandið of dökkum litum eins og þið heyrðuð áðan. En við Íslendingar viljum ekki lifa í blekkingum. Við viljum fá staðreyndirnar á borðið og fá tækifæri og tóm til að bregðast við þeim staðreyndum. Það er einmitt það sem Íslendingar hafa verið að gera. Það er af þeim ástæðum sem nú er bjartara fram undan en áður var. Það er af þeim ástæðum sem við höfum nú í raun fulla ástæðu til að trúa því að á Íslandi geti mannlíf staðið traustum fótum og lífskjör og lífsgæði verið með því besta sem þekkist nokkurs staðar í veröldinni.
    Fyrrv. ríkisstjórn, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem hér talaði áðan, mætti líka erfiðleikum. Það er mjög nauðsynlegt, ekki síst vegna ræðu eins og þeirrar sem flutt var, að menn gleymi ekki hvernig sú ríkisstjórn brást við þeim erfiðleikum.
Hún stofnaði til sjóða með erlendum lántökum. Þær lántökur þarf núv. ríkisstjórn og að lokuð þið, góðir áheyrendur, að borga. Allir hafa nú áttað sig á því að þeir sjóðir allir voru skammgóður vermir, földu aðeins vandann, keyptu hann frá þjóðinni um stund, en hann hlaut að koma upp á yfirborðið aftur og það hefur hann svo sannarlega gert, því miður.
    En fyrrv. ríkisstjórnin lét ekki nægja að beita þessari aðferð. Hún margfelldi gengið og hún rýrði kaupmátt vel á annan tug prósenta. Hafa menn gleymt því sem það gerðu? Ég spyr: Er einhver sem vill þess konar aðför aftur? Er einhver sem vill að þess konar aðferðir við stjórn efnahagsmála verði teknar upp á nýjan leik? Ég hygg að flestir muni svara slíkri spurningu í hjarta sínu neitandi.
    Með stefnu sinni í ríkisfjármálum lagði núv. ríkisstjórn grundvöllinn að því að vextir mættu fara lækkandi. En glöggt kom fram að vaxtalækkun væri frumforsenda þess að skaplegir kjarasamningar mættu nást og slíkir samningar hafa tekist. Hvernig eru þeir kjarasamningar? Full ástæða er til þess að gefa þessum kjarasamningum gaum því að þeir eru fyrir margra hluta sakir mjög athyglisverðir. Hinir nýgerðu kjarasamningar gera það að verkum að kaupmáttur allra er tryggður á samningstímanum og kaupmáttur hinna lægst launuðu styrkist. Hve lengi hafa menn ekki talað um að styðja þurfi við bakið á hinum lægst launuðu og hækka laun þeirra umfram annarra? Það hafa menn rætt æðilengi og sjálfsagt rætt í góðri meiningu og góðri. En það er í fyrsta sinn nú sem þessum orðum er breytt í gerðir. Lykillinn að samningsgerðinni er sá að tryggja með samningum að við Íslendingar erum með lægri verðbólgu í okkar landi en gerist nokkurs staðar annars staðar í hinum vestræna heimi. Þetta verkefni sem menn gáfu sér er að takast. Það hefði einhvern tíma þótt mikil tíðindi. Í þessu felst að okkar útgjöld munu hækka mun minna en útgjöld nágranna okkar og þess vegna mun þrýstingur á gengi íslensku krónunnar minnka án þess að gengið sé fellt.
    Sennilega eru þessir samningar, sem nú hafa náðst, með athyglisverðustu kjarasamningum sem gerðir hafa verið í landinu. Fæstum datt í hug að við svo erfiðar aðstæður og hér hafa verið að undanförnu fyndist leið til þess að gera allt í senn, tryggja kaupmáttarstigið á samningstímanum, bæta hag hinna lægst launuðu og um leið að draga nokkuð úr spennunni í sjávarútvegi. Ég dreg þó ekki úr því að í þeim efnum er spennan enn mjög mikil og geri miklar kröfur til hæfni forráðamanna fyrirtækja um að reka þau af skynsemi og framsýni. Stöðugt gengi, lág verðbólga og lækkandi vextir er sá grundvöllur sem fyrirtækjunum hefur verið skapaður af forsvarsmönnum launþega og vinnuveitenda og ríkisstjórninni og hann verður að duga þeim til þess að vinna sig út úr þröngri stöðu í erfiðu árferði. Ef tíminn verður notaður rétt munu íslensk fyrirtæki og íslenskir launþegar uppskera vel í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum ekki einir í henni veröld og það sem þar gerist skiptir okkur miklu máli. Efnahagslífið á Vesturlöndum ætlar seint að komast upp úr þeirri lægð sem það hefur verið í að undanförnu. Ýmis batamerki sjást þó og vonir standa til þess að hagvöxtur muni aukast smám saman. Það verður þó ekki í stórum stökkum sem áður hafði verið spáð.
    Samningur um Evrópskt efnahagssvæði hefur verið undirritaður og á íslenski utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hrós skilið fyrir framgöngu sína í málinu. Í mínum huga er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði skynsamlegt úrræði fyrir íslensku þjóðina. Hann tryggir okkur þá viðskiptalegu stöðu sem okkur er nauðsynleg án þess að fyrir hana sé fórnað því sem við getum aldrei á glæ kastað, svo sem forræði okkar yfir fiskimiðunum í kringum landið.
    Það er hámark tækifærismennsku í stjórnmálum þegar stjórnmálaflokkar eins og Alþb. og Framsfl., sem unnu að samningum um Evrópskt efnahagssvæði lungann af starfstíma sínum í ríkisstjórn, geta hvorki upplýst þing eða þjóð hvaða afstöðu þeir hafa í málinu nú þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Ég hlustaði eftir hverju orði fyrrv. forsrh. í þessum efnum. Hvorki ég né þið megið eða getið áttað ykkur á hvaða stefnu sá maður eða flokkur hans hefur í málinu. Ef hægt á að vera að taka flokka af þessu tagi alvarlega verður að gera þá kröfu til þeirra að þeir starfi af fullum heilindum í stórmáli eins og þessu og láti fólk ekki, þjóðina sjálfa, velkjast í vafa um afstöðu sína.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég nefndi það í upphafi að nú væri gerð úttekt á störfum þingsins í lok starfstímans. Eins og stór hluti núverandi þingmanna hef ég aðeins setið á þingi í eitt ár. Vinnubrögð hér hafa komið mér mjög á óvart. Ég hef borið mig saman við starfsbræður mína á Norðurlöndum og í Evrópu og þeir sem ég hef talað við hafa aldrei heyrt um vinnubrögð af því tagi sem tíðkuð eru hjá okkur. Á þessari hv. samkomu eru allmargir þingmenn sem tala margar klukkustundir um þau

mál sem lögð eru fram. Þegar sömu mál koma til 2. umr. koma sömu menn og tala enn í nokkrar klukkustundir. Slíkt gerist reyndar einnig stundum við hina 3. umr. sama máls. Slíkt málæði kemur mælsku ekkert við. Enn síður er það til merkis um íhygli og vit, öðru nær. Hins vegar er farið illa með tíma þingsins og spillt fyrir eðlilegum störfum þess. Síðasta dæmið er frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna sem er afar þýðingarmikið mál og mikið deilumál sem eðlilegt er. Í þingnefnd hefur mjög verið unnið að málinu og stjórnarliðar gert fjölmargar breytingar til að nálgast þá sem gagnrýnt hafa frv. Sjálfsagt er að hver þingflokkur lýsi afstöðu sinni skýrt og skorinort til máls af því tagi, jafnvel með fleirum en einum talsmanni og við hverja umræðu um málið. Hér er hins vegar sú aðferð notuð að hver þingmaður af öðrum flytur langhund um málið og fer þá gjarnan þannig að hver étur eftir öðrum. Allir vita þó að hversu mjög sem talað verður mun ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi koma málinu í gegn, enda fjárlög ríkisins á því byggð. Málæði af þessu tagi hefur því ekki annan ávinning en þann að koma í veg fyrir að önnur mál, mál sem þorri þingmanna er kannski sammála um að fái afgreiðslu á þinginu á meðan, nái fram að ganga. Vinnubrögð af þessu tagi sem og svokallaðar þingskapaumræður eru þinginu til vansæmdar og er óhjákvæmilegt að þingflokkarnir íhugi vel ráð sitt í þessum efnum. Við hljótum að taka reglurnar um fundarsköp Alþingis til endurskoðunar og tryggja að eftir þeim sé farið. Þjóðin vill mega gera slíkar kröfur til þessarar virðulegu stofnunar og þingmenn verða að geta risið undir slíkum kröfum.
    Virðulegi forseti. Það hefur verið brotið blað í íslenskum stjórnmálum. Skilningur á frjálsu atvinnulífi er vaxandi. Að vísu er fullmikið sagt sem fyrrv. forsrh. hélt fram hér áðan að núv. ríkisstjórn hefði fundið upp markaðskerfið. Það hefur verið fundið upp áður. Viljinn í þessu landi til þess að reikningar fyrir velferð okkar sjálfra verði ekki sendur börnum okkar og barnabörnum er að eflast. Við viljum halda í allt það sem íslenskt er, ekki síst í þá góðvild í garð náungans sem lítið þjóðfélag skapar. Við viljum efla svigrúm einstaklingsins til athafna og um leið treysta stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Við viljum að hið íslenska ríki getið staðið undir þeim væntingum sem til þess er beint. Við viljum efnalega velferð allra, velferð sem ekki er orðin tóm. Við viljum velferð á varanlegum grunni. Við höfum alla burði til að skapa slíkt þjóðfélag. Við höfum framsækið kröftugt fólk í fögru og gjöfulu landi. Ísland er og verður land tækifæranna. Það er okkar verkefni og ykkar verkefni að grípa þau tækifæri og nýta þau tækifæri. --- Ég þakka áheyrnina.