Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 21:09:17 (6270)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Forseti. Góðir áheyrendur. Þær voru hlýlegar sem oftar, kveðjurnar sem forsrh. þjóðarinnar hafði að færa Alþingi Íslendinga í ræðu sinni. Honum nægir ekki að hafa líkt þessari 1061 árs gömlu stofnun við gagnfræðaskóla fyrr í vetur. Nei, það þurfti að bæta aðeins um. Forsrh., fyrrverandi einvaldur úr borgarkerfinu í Reykjavík, hefur setið eitt einasta ár á Alþingi Íslendinga, einn þingvetur, en hann er þess að sjálfsögðu umkominn að fella hinn eina stóra dóm um þessa stofnun og verk þeirra þingmanna sem flestir hafa starfað lengur en hann. Ég hygg að hæstv. forsrh. hefði þá átt að vera jafnhreinskilinn um eigin frammistöðu, ræða eigin skálaræður af jafnmikilli hreinskilni og hann ræddi störf Alþingis. Þá hefði a.m.k. ekki hallast á klyfjunum.
    Nei, góðir áheyrendur, á þessu rétt rúmlega eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar er þjóðin satt best að segja dauf í dálkinn, enda var lítið um veisluhöld og enn minna um fögnuð á afmælinu. Ég veit að vísu ekki hvað forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa gert sjálfir, þeir eru kunnir veislumenn, en þjóðin hélt ekki hátíð. Það er vegna þess að þjóðin getur ekki fagnað þeirri ríkisstjórn sem hefur gengið á undan við að telja kjark úr mönnum, m.a. með endalausum ræðum um fortíðarvandann, eins og forsrh. sannaði svo átakanlega hér áðan að er helsta framlag hans til íslenskrar þjóðmálaumræðu. Alvarlegast er þó auðvitað það að ríkisstjórnin sjálf hefur aukið á og að hluta til búið til þann vanda sem við er að glíma. Þannig var það ríkisstjórnin sjálf sem hækkaði vextina. Þannig var það ríkisstjórnin sjálf sem með handahófskenndum niðurskurði og uppsögnum hefur aukið á atvinnuleysið. Þannig er það ríkisstjórnin sjálf sem með algerri úrræðaleysis- og aðgerðaleysisstefnu í málefnum atvinnulífsins hefur búið til þá leið gjaldþrotanna sem í fyrsta sinn í efnahagssögu heimsins, í fyrsta sinn í nokkru ríki er orðið úrræði í efnahags- og atvinnumálum, gjaldþrotin.
    Á einu ári hefur ríkisstjórninni tekist að sundra þjóðinni. Heilbrrh. hefur staðið í nánast stanslausri styrjöld við sjúklinga og heilbrigðisstéttir í landinu. Sá styrjaldarrekstur náði hámarki þegar ráðherrann gaf það út að Hjálpartækjabankinn í eigu Rauða krossins og Sjálfsbjargar væri ein helsta okurstofnun landsins. Ríkisstjórnin réðst á sveitarfélögin og þverbraut lög um samráðsskyldu við þau. Ríkisstjórnin hefur hleypt skólakerfinu í uppnám og sagt námsmönnum í landinu stríð á hendur með atlögunni að lánasjóðnum og jafnrétti til náms. Hér eru aðeins tekin þrjú dæmi af handahófi, þau eru því miður miklu fleiri.
    Já, það er því að vonum að það fór lítið fyrir veisluhöldum á ársafmælinu, jafnvel þó að forustumenn ríkisstjórnarinnar séu --- eins og ég sagði --- kunnir veislumenn. Þjóðin hélt a.m.k. ekki hátíð og hún vonar í hjarta sínu að afmælin verði ekki fleiri. Um það vitnar m.a. herfileg útkoma ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum.
    Nú er um hálft ár liðin síðan sjútvrh. hélt fræga ræðu og lýsti því að meiri hluti fyrirtækja í sjávarútvegi væri á beinni gjaldþrotabraut. Síðan hefur ekki annað af málinu frést en það að afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna, sérstaklega fiskvinnslunar, hefur versnað. Afurðaverð hefur farið lækkandi og okurvaxtastefna ríkisstjórnarinnar hefur þjakað skuldsettan útveginn. Ógæftir og misjöfn aflabrögð bæta gráu ofan á svart.
    En hver voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar? Jú, málið var sett í nefnd og hefur verið þar síðan, í sex mánuði. Nefndin hefur tvö höfuð, tvo formenn, tvo verkstjóra, sem talast við í fjölmiðlum. Annar þeirra er trúr stefnu ríkisstjórnarinnar og telur að gjaldþrotin muni leysa vandann. Hinn er skynsamur maður og viðurkennir að rætur vandans liggja dýpra en svo að gjaldþrot fyrirtækja, sem skapa fleiri vandamál en þau leysa, a.m.k. fyrir viðkomandi byggðarlög, dugi til. Sem sagt, ríkisstjórnin hefur enga stefnu í málefnum undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar nema þá að henni komi þau vandamál ekki við. Atvinnulífið og fyrirtækin eru á sömu braut og leiddu til öngþveitisins haustið 1988. Þá gafst Þorsteinn Pálsson upp, nú gengur klukkan á Davíð Oddsson.
    Við mikla erfiðleika er einnig að etja í fleiri atvinnugreinum og má nefnda landbúnaðinn. En þar er ríkisstjórnin nú þegar farin að draga lappirnar eða beinlínis svíkja ákvæði búvörusamnings um greiðslur til bænda og stuðningsaðgerðir til að auðvelda óumflýjanlega aðlögun að breyttum aðstæðum. Bændur eiga annað betra skilið eftir að hafa sjálfir ákveðið að ráðast í jafnsársaukafulla uppstokkun í eigin atvinnugrein og raun ber vitni.
    Eitt alvarlegasta óveðursskýið sem hrannast hefur upp á himni okkar Íslendinga síðustu missiri er þó atvinnuleysið. Í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi er nú lagst yfir landið verulegt almennt atvinnuleysi sem víðast hvar er hvorki staðbundið né tímabundið með sama hætti og við höfum áður átt að venjast heldur almennt og viðvarandi, teygir sig inn í fleiri stéttir og tekur til allra aldurshópa. Fullorðið fólk sem hefur verið úti á vinnumarkaði um áratuga skeið og býr yfir mikilli reynslu á nú á hættu að sitja uppi atvinnulaust svo langtímum skiptir missi það vinnu sína af einhverjum sökum. Ungt fólk á leið út í atvinnulífið leitar nú árangurslaust mánuðum saman. Atvinnumöguleikar skólafólks í sumar virðast miklu verri en nokkru sinni fyrr. Niðurskurður og samdráttur ríkisstjórnarinnar hafa veruleg áhrif. Þó fullt sé af arðbærum atvinnuskapandi verkefnum sem vinna þarf í okkar þjóðfélagi, t.d. í samgöngumálum, gerir ríkisstjórnin ekki neitt. Ríkisstjórn Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands eða hitt þó heldur, og Sjálfstfl., sem væntanlega á einnig að vísa til sjálfstæðis mannsins, vill heldur dæma niðurlægingu og vonleysi atvinnuleysisins yfir þúsundir einstaklinga og fjölskyldna en að aðhafast nokkurn skapaðan hlut.
    Ríkisstjórnin hefur á skömmum valdaferli sínum með margvíslegum hætti reynt að breyta íslensku þjóðfélagi, þjóðfélagsgerðinni, í anda þeirrar frjálshyggjukreddu sem hún trúir á. Með gjaldtöku af sjúklingum og nemendum, með þyngri skattbyrði barnafólks, sjómanna, aldraðra. Með niðurskurði á velferðarþjónustu og í skólum, meðan ekki er hróflað við fjármagnseigendum og hátekjufólki. Með þessu er verið að breyta þjóðfélaginu, breyta því í ójafnaðarátt. Með því að láta alla, einnig þá sem lægst hafa launin eða lakasta hafa aðstöðuna, borga í vaxandi mæli fyrir lyf eða þjónustu en taka minna fé til rekstrarins gegnum hið almenna tekjuöflunarkerfi. Með þessu er verið að gera aðstöðumun launafólksins lakari, við þetta vex aðstöðumunur og efnamunur í landinu. Það er alveg sama hversu oft ráðherrar og þingmenn Alþfl. halda hinu gagnstæða fram, heilbrigð skynsemi almennings í landinu má sín sem betur fer meira en málflutningur þessa fyrrum krataflokks sem ráfar nú villtur um eyðimörk frjálshyggjunnar á hægri kantinum. Sjálfstfl. sér að sjálfsögðu enga ástæðu til að bera þetta eðli og þennan tilgang stjórnarstefnunnar af sér.
    Það er óhjákvæmilegt að minnast aðeins á hin afdrifaríku Evrópumál þó að þeim verði að sjálfsögðu ekki gerð nein tæmandi skil á fáeinum mínútum. Alþingis bíður gríðarlegt verkefni að fjalla um þau mál á næstu mánuðum en almenningur í landinu, þjóðin, verður einnig á næstu mánuðum að kynna sér þessi mál eftir föngum. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli enn og hliðarsamningur Íslendinga við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál er enn ófrágenginn. Samt er ljóst að margt hefur farið öðruvísi en ætlað var. Fleira hefur gufað upp í þessu máli en sigrarnir miklu sem utanrrh., forsrh. og þeirra menn voru alltaf að vinna, að vísu að eigin sögn.
    Vissulega yrðu þær tollalækkanir sem fyrir liggja til handa Íslendingum samkvæmt samningsdrögunum okkur til hagsbóta. Ýmis fleiri svið samningsins fela í sér jákvæða möguleika. Margt er þó sýnd veiði en ekki gefin í þeim efnum. Hitt blasir við að við höfum ekki fengið fríverslun með fisk. Það þýðir að styrkjakerfi Evrópubandalagsins stendur óhaggað. Við höfum ekki heldur fengið tollaniðurfellingu á fiskafurðum viðurkennda sem almenna reglu, aðeins lækkun eða niðurfellingu bundna tegundum. Við höfum misst fyrir borð alla varanlega fyrirvara utan einn, fyrirvara vegna eignarréttar á landi, orkulindum, vinnumarkaði eða fjármagnshreyfingum svo dæmi séu tekin. Við eigum samkvæmt samningnum að opna íslensku landhelgina fyrir flota Evrópubandalagsins og leyfa þeim veiðar á 3.000 tonnum af karfa í staðinn fyrir pappírsloðnu. Tveggja stoða lausnin er hrunin, innan fárra ára mun Ísland standa eftir eitt uppi. Óvissan á því að verða hlutskipti Íslendinga á næstu árum þegar hið Evrópska efnahagssvæði leysist upp og hin EFTA-ríkin hverfa inn í evrópska stórríkið.
    Í samningnum felst framsal valds á fjölmörgum sviðum og þrengt er að og breytt hlutverki Alþingis og dómstóla ef ákvæði samningsins ná fram að ganga. Evrópubandalagið sjálft er að breytast í sambandsríki með stóraukinni miðstýringu og valdasamþjöppun í Brussel, þ.e. ef almenningur í Evrópulöndunum, einu eða fleirum, tekur ekki til sinna ráða og fellir Maastricht-samkomulagið.
    Ekki síst í þessu ljósi hefur stjórnarandstaðan sett fram kröfuna um þjóðaratkvæði. Sjálfur utanrrh. hefur viðurkennt að ástæða sé til að skoða hvort samningurinn standist gagnvart stjórnarskrá og stjórnskipun landsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta stórmál er lýðræðislegasta leiðin til að undirbyggja ákvörðun í málinu og þjóðaratkvæðagreiðsla tryggir þá nauðsynlegu umræðu og skoðanaskipti sem þarf að verða um þetta stórmál. Eins og utanrrh. og ríkisstjórn hyggjast matreiða málið er ekki hægt að taka við því.
    Forseti, góðir áheyrendur. Þjóðmálaumræðan hefur á valdatíma þessarar ríkisstjórnar færst yfir á heldur dapurlegar og dökkar nótur. Það er í senn skaðlegt og ástæðulaust því þrátt fyrir tiltekna erfiðleika eigum við Íslendingar mikla möguleika. Það sem þarf til er gerbreytt stjórnarstefna, stjórnarstefna sem leggst þannig með atvinnulífinu og fólkinu í landinu að bjartsýni og tiltrú manna aukist, að menn öðlist kjark til nýrra átaka í atvinnulífinu og nýrrar framfarasóknar. Slíkt andrúmsloft tókst að skapa hér með uppbyggilegri stjórnarstefnu og þjóðarsátt í tíð síðustu ríkisstjórnar og við upplifðum farsæl ár með batnandi afkomu fyrirtækja og auknum kaupmætti launafólks.
    Nei, góðir Íslendingar, við þurfum að losna við þessa ríkisstjórn hægri flokkanna, ríkisstjórn svartsýnis og fortíðarhyggju. Við þurfum gjörbreytta stjórnarstefnu sem eflir með þjóðinni samstöðu og kjark, stjórn sem heldur á málefnum Íslendinga út á við af fullri einurð í krafti þeirrar vissu að þá vegni okkur jafnan best að við ráðum sjálf okkar málum. Ef við Íslendingar glötum ekki úr höndum okkar sjálfstæði okkar og menningu, landsréttindum og auðlindum þurfum við ekki að kvíða og fáar þjóðir, ef nokkrar í yfirfullum og sveltandi heimi geta þá talist jafn lánsamar og við. Það mun koma betri tíð, það mun koma betri ríkisstjórn og það munu koma blóm í haga. --- Ég þakka áheyrnina.