Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 21:55:33 (6274)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti, góðir landsmenn. Það andar að okkur svölu vorlofti þessa dagana. Frá eins árs starfstíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar andar einnig köldu til landsmanna. Sú ríkisstjórn hefur ekki haft hagsmuni heimilanna í landinu að leiðarljósi. Sú ríkisstjórn hefur ekki stuðlað að uppbyggingu atvinnulífs um landið og þessi ríkisstjórn hefur ekki horft til framtíðar og mótað stefnu á traustum grunni.
    Allar ríkisstjórnir setja sér markmið í upphafi. Eftir nokkurra mánaða starfstíma þessarar ríkisstjórnar komu markmiðin út á prenti í riti því sem hlaut nafnið Hvítbók. Ég bið menn að taka eftir því að það rit kom ekki í upphafi starfsferils hennar. Markmiðin voru ekki ljós þegar sest var í stólana. Fyrst var að tryggja stólasetuna og svo mátti semja markmiðin og stefnuna á eftir. Ekki þýðir fyrir hæstv. félmrh. að koma nú og tala eins og hún eigi ekki sæti í ríkisstjórn.
    Þannig lofaði upphafið ekki góðu. Starf sem hafið er með þeim hætti að markmiðið er óljóst er dæmt til að mistakast. Það kom líka á daginn að eina markmið ríkisstjórnarinnar var helgað mammoni. Sumarverkin hófust. Brýndir voru ljáir og höggvið á báðar hendur. Það virtist ekki skipta máli að skoðun og raunsætt mat lægi að baki skurðinum.
    Við kvennalistakonur höfum alltaf mælt fyrir aðhaldssemi í ríkisbúskapnum. En við skoðum málin á okkar forsendum. Þurfi að spara í rekstri heimilanna þá er það ekki hægt á öllum sviðum því að menntun og heilsa fjölskyldunnar situr í fyrirrúmi. En aðhalds má gæta í rekstri bílsins, notkun símans og fresta má ferðalögum.
    En það er ekki mottó ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Hún hóf feril sinn með endurnýjuðum bílakosti ráðherra, ráðherrar eru með eindæmum ferðaglaðir og ýmsir slá þar öll fyrri met. Aðhaldssemin kemur ekki fram í ferðatíðni eða dagpeningagreiðslum.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ríkisstjórn peningavaldsins. Nú skal hinn harði, frjálsi markaður ráða forlögum þjóðarinnar. En frelsi er vandmeðfarið. Oft er erfitt að skilgreina hvað felst í frelsi. Felst athafnafrelsi í því að geta lumbrað á næsta manni? Felst málfrelsi í því að rægja náungann? Felst einstaklingsfrelsið í því að hlíta engum boðum og bönnum?
    Takmarkalaust frelsi er engum til góðs. Óheft markaðshyggja mun leiða ófarnað yfir íslenska þjóð. Með óheftu frelsi er oft stutt í frumskógarlögmálið þar sem hinn sterkari ræður. Þetta sáu forfeður okkar fyrr á öldum og þeir stofnuðu Alþingi, eitt elsta þjóðþing í heimi, sem setja skyldi landinu lög og tryggja þar með réttindi landsmanna.
    Hvernig fer svo hið háa Alþingi í dag með það vald sitt að setja landinu lög? Er löggjafarvaldið starfi sínu vaxið? Vissulega koma fram mörg og þörf frumvörp um hina mikilvægustu málaflokka og fá oftast faglega umfjöllun, óháð flokksvaldi, og er það vel. En öðru hvoru koma fram í dagsljósið mál sem ekki hefur verið staðið rétt að þar sem framkvæmdarvaldið tekur sér það vald sem það hefur ekki. Nefna má nýleg dæmi um það, menntamálaráð og bókaútgáfu Menningarsjóðs eða Skipaútgerð ríkisins þar sem ráðherrar ákveða framkvæmdir einhliða og löggjafarvaldið á síðan að setja stimpil sinn á svo að allt sé löglegt.
    Líka má nefna nýlega skýrslu Sigurðar Líndals lagaprófessors um stjórnkerfi búvöruframleiðslunnar og stjórnskipan Íslands. Þar er dæmi um að Alþingi framselji vald til framkvæmdarvaldsins í meira mæli en lagaprófessorinn telur æskilegt eða jafnvel löglegt. Það yrði of langt mál að velta þessu fyrir sér á þeim stutta tíma sem mér er ætlaður. En tímabær er umræðan á öðrum vettvangi og í framhaldi af því, hvort ekki sé orðin þörf á stjórnlagadómstóli í landinu.
    Stjórnarskrá okkar er frá 1874 og þarfnast endurskoðunar. Að nafninu til hefur sú endurskoðun staðið yfir í mörg ár en enginn sýnilegur árangur enn orðið. Á næstu vikum og mánuðum munum við fjalla

um hinn margumtalaða samning um Evrópskt efnahagssvæði. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að þjóðin fái að segja álit sitt á þeim samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur hafnað því á grundvelli þess að slík ákvæði um þjóðaratkvæði sé ekki að finna í stjórnarskrá eða í lögum. Bæði Danir og Norðmenn hafa tryggt slík ákvæði með viðbót í stjórnarskrám sínum. Það hlýtur að teljast fullkomlega eðlileg og sanngjörn krafa að slík ákvæði sé að finna í stjórnarskrá okkar. Ef við ætlum að halda uppi lýðræði, sem er annað en nafnið tómt, þá verðum við að tryggja það með lögum. Þau lög eiga að vera einföld og skýr en ekki óskiljanlegt stofnanamál. Þau lög eiga að veita valdhöfum og framkvæmdarvaldi aðhald og þegnunum vernd.
    Góðir landsmenn. Ég hef trúlega ekki flutt hér ræðu í hefðbundnum stíl, þ.e. að skamma ríkisstjórnina óbotnandi skömmum. Ríkisstjórnir koma og fara og þessi ríkisstjórn verður ekki langlíf, hún dæmir sig sjálf með verkum sínum. Landsmenn hafa fylgst með þeim verkum undanfarna mánuði og fylgistap hennar er staðreynd.
    Það eru ekki aðeins vondir stjórnarandstæðingar sem eru á öndverðum meiði við stefnu ríkisstjórnarinnar. Í Ríkisútvarpinu á Rás 1 þann 2. apríl sl. var viðtal við Láru V. Júlíusdóttur. Þulurinn spurði hvernig væri fyrir alþýðuflokksmenn að vera í ASÍ og standa í kjarasamningum við ríkisstjórnina. Hún svaraði m.a.: ,,Það sem bindur fólk í flokka, það er fyrst og fremst ákveðin lífsskoðun en ekki afstaða til einstakra mála. Auðvitað á afstaða til einstakra mála alltaf að byggjast á þessari lífsskoðun, en hún gerir það bara ekki alltaf. Og að mínu mati hefur það alls ekki gerst núna á undanförnum mánuðum að Alþýðuflokkurinn hafi verið að fylgja eftir þessum hugsjónum jafnaðarstefnunnar.``
    Svipaða afstöðu mátti heyra hjá Guðmundi Árna Stefánssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, í viðtali í Ríkisútvarpinu að morgni sl. laugardags og í gærkvöld heyrðum við unga jafnaðarmenn senda þingmönnum sínum aðvörunarorð ef þeir samþykktu óbreytt frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þurfum við frekari vitnanna við þegar flokksmenn Alþfl., sem eru í tengslum við fólkið, eru á öndverðum meiði við flesta ráðherra sína í ríkisstjórn?
    Það sem Alþfl. hefur verið að framkvæma í ríkisstjórn er í engu samræmi við loforð hans fyrir kosningar. Hann stendur frammi fyrir væntanlegum landsfundi þar sem tekist verður á um stefnu. Málin skipast oft fljótt í pólitík.
    Sjálfstfl. hélt landsfund fyrir síðustu kosningar undir kjörorðunum Frelsi og mannúð. Hvar er það frelsi? Er það frelsi ráðherranna til að afsala hluta af fullveldi okkar og sjálfsákvörðunarrétti í hendur miðstýringarvaldinu í EB? Er það frelsi peningavaldsins sem gerir hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari? Hvar kemur mannúðin inn í myndina? Er það mannúð að ganga á réttindi aldraðra og loka sjúkradeildum eða skerða barnabætur? Er það mannúð að þrengja svo hag námsmanna að þeir verði unnvörpum að hverfa frá námi og hugsjónin um jafnrétti til náms, óháð búsetu og efnahag, heyri sögunni til? Eða er það mannúð þegar gjaldþrot eru notuð sem hagstjórnartæki í atvinnumálum? Hinn almenni flokksmaður sem kaus Sjálfstfl. í góðri trú á kjörorðum landsfundarins hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum.
    Við kvennalistakonur héldum því fram fyrir síðustu kosningar að skattleggja ætti fjármagnstekjur og taka upp tvö skattþrep til að auka tekjur ríkissjóðs. Það gekk erfiðlega að fá undirtektir undir það að skattleggja fjármagnstekjur. Athugun hefur þó leitt í ljós að þar getur verið um allmiklar tekjur að ræða, jafnvel allt að einum og hálfum milljarði. Ekki er séð fyrir hvernig að því verður staðið --- eða hvort þær tekjur verða notaðar til að draga úr skattlagningu á láglaunafólki.
    Við teljum hlutverk ríkisvaldsins að stuðla að jöfnun lífskjara milli stétta, milli kynja og milli landshluta. Að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi og taka þar mið af staðháttum og hugmyndum kvenna. Við viljum ekki skammtímalausnir eins og flatan niðurskurð fjárlaga, heldur raunhæfar lausnir sem byggjast á forgangsröðun verkefna og settum markmiðum. Við viljum að Alþingi sé inni í því hlutverki sem því er ætlað, að standa vörð um réttindi þegnanna og efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Ég þakka áheyrnina. --- Góðar stundir.