Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:16:25 (6276)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti, góðir tilheyrendur. Okkur Íslendingum er athafnaþrá og réttlætiskennd í blóð borin. Við höfnum misrétti og sérréttindi líðum við ekki. Vegna þessara eðliseiginleika okkar hefur íslenska þjóðin hafnað ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Ríkisstjórn sem hefur með aðgerðum sínum sagt atvinnulífinu og fólkinu í landinu stríð á hendur, rofið þá þjóðarsátt sem verið hefur um velferðarþjónustuna og lamað baráttuþrek launþegasamtakanna með atvinnuleysisgrýlunni. Þessi vinnubrögð eru ríkisstjórnarflokkunum til skammar. Flokkum sem fyrir síðustu alþingiskosningar komust næst því að lofa öllum, öllu og alls staðar. Alþfl. lofaði að standa dyggan vörð um velferðarkerfið, sérstaklega hag öryrkja, námsmanna, barnmargra fjölskyldna og ellilífeyrisþega. Sjálfstfl. lofaði að tryggja öllum atvinnu. Alþfl. lofaði að hækka skattleysismörkin. Sjálfstfl. lofaði að lækka skatta.
    Nú einu ári eftir að ríkisstjórn Sjálfstfl. er búin að vera við völd með Alþfl. í eftirdragi hafa öll kosningaloforðin verið svikin. Skattarnir hafa verið hækkaðir, skattleysismörkin hafa í raun verið lækkuð. Atvinnuleysið heldur innreið sína á ný. Barnabætur fjölskyldnanna hafa verið lækkaðar. Hörð árás á námsmenn, ellilífeyrisþega og öryrkja. Gamla fólkið er rekið út af sjúkrahúsunum og hurðunum skellt á nefið á því. Nú í haust er það í fyrsta skipti sem námsmenn geta ekki vænst stuðnings frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það á að vísa þeim á okurvextina í bönkunum og þannig er í raun og veru dregið úr jafnrétti til náms. Það er þetta ranglæti og það er þessi fantaskapur sem íslenska þjóðin fyrirlítur.
    Framsfl. hafnar slíkum vinnubrögðum. Hann vill hins vegar taka upp samstarf og samvinnu um sparnað í opinberum rekstri við þá sem þjónustuna veita og þá sem þjónustuna nota.
    Framsfl. vill lækka lyfjakostnaðinn með því að afnema einokunaraðstöðu apótekaranna og lækka álagninguna við þá, en hann hafnar því að leggja lyfjaskatt á sjúklinga.
    Framsfl. vill koma á skýrri verkaskiptingu og hagræðingu á sjúkrahúsunum í Reykjavík, en hann hafnar því að hér verði komið upp einkasjúkrahúsi eins og nú er unnið að þar sem þeir ríku geta keypt sig fram fyrir þá fátæku á biðlistunum. Þar sem þeir sem eiga peningana geta í raun fengið frían aðgang eða keypt sér aðgang að læknisþjónustunni.
    Hæstv. forsrh. sagði það áðan í ræðu sinni að hann teldi að landsmenn væru sáttir við þessa stefnu. Ég held að landsmenn séu ekki sáttir við þessa stefnu og ég segi nei. Réttlætiskennd landsmanna er misboðið þegar 300 Reykvíkingar bíða eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili, en á sama tíma er byggður veitingastaður fyrir almannafé á vegum Reykjavíkurborgar sem kostar hundruð milljóna króna. Réttlætiskennd landsmanna er misboðið þegar Reykvíkingar, á fyrsta fundi í sínu nýja ráðhúsi sem kostar 3 milljarða króna þurfa að flytja tillögu um að koma upp skýlum í borginni til að útbýta matargjöfum handa þeim sem við erfiðustu aðstæðurnar búa.
    Það eru versnandi lífskjör hjá hluta þjóðarinnar og stórfelldur niðurskurður á stuðningi við námsmenn. Með því að breyta grundvallaratriðum í Lánasjóði ísl. námsmanna, með því að hætta að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur. Þetta mun undirbúa jarðveginn á næstu árum fyrir stórvaxandi þjóðfélagsleg átök þar sem þjóðin skiptist í tvær þjóðir, þá sem eru ríkir og þá sem eru fátækir.

    Undir þessum eldi kyndir síðan ríkisstjórnin með umræðum um einkavæðingu. Framsfl. hafnar ekki einkavæðingu. Hann telur að fyrirtækin eigi að vera í eigu einstaklinganna og félagasamtaka þeirra og ríkisrekstur eigi aðeins við í undantekningartilfellum. Hins vegar hafnar Framsfl. því að brjóta niður margar mikilvægar þjónustustofnanir, svo sem ríkisbankana, margar þjónustustofnanir á vegum heilbrigðismála, menntamála, menningarmála og fræðslumála og brjóta það þannig niður að molarnir passi í ginið á kolkrabbanum. Slík sérréttindi eru ekki líðandi. Athafnaþrá einstaklinganna má ekki kæfa því hún er forsenda velferðar í landinu og forsenda þess að atvinnulífið standi á traustum fótum og geti staðið undir þeim kostnaði sem velferðarkerfið krefst. En ríkisstjórn sem er atvinnulífinu fjandsamleg tryggir ekki fleiri störf, eykur ekki hagvöxt og skapar atvinnulífinu ekki ný tækifæri. Tækifæri sem bíða alls staðar, þau bíða í nýjum og spennandi orkusölumöguleikum, nýjum og spennandi útflutningsmöguleikum, í þjónustu, svo sem í heilbrigðisþjónustu, fjársýsluþjónustu og ferðaþjónustu. Í flutningum, tollfrjálsum umskipunar- og framleiðsluhöfnum, forritagerð og matvælaframleiðslu. Þau bíða í útflutningi á þekkingu á sviði verkfræði, veðurfræði, þátttöku í verkefnum erlendis og þau bíða í kvikmyndagerð, listum, fatagerð og listiðnaði. En þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn stöðnunar og afturhalds sem horfir til baka og neitar að horfa fram á við, mun aldrei gefa okkur tækifæri til að nýta þessa möguleika. Við þurfum því nýja ríkisstjórn, ríkisstjórn sem gefur athafnaþrá einstaklingsins lausan tauminn, ríkisstjórn sem tryggir jafnrétti, ríkisstjórn sem gefur okkur tækifæri. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.