Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:53:23 (6281)


     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Íslendingar hafa kosið sér vestrænt lýðræði, stjórnarhætti siðmenntaðra manna. Okkur hefur tekist að gera Ísland að velferðarríki, hér búum við við eitt fullkomnasta velferðarkerfi sem þekkist í veröldinni. Við höfum valið það hlutskipti sem jafnaðarmenn hafa boðað þjóðinni í áratugi að ástunda samhjálp og samvinnu. Við höfum svarað því játandi sem spurt er um í Biblíunni: Á ég að gæta bróður míns? Þetta hlýtur að lagast, höfum við alltaf sagt þegar erfiðleika hafa steðjað að. Við höfum líka getað treyst því --- við fiskuðum bara meira. Þá var það viðtekin skoðun að hafið, fiskstofnarnir væru óþrjótandi auðlind.
    En er það svo? Getum við lengur treyst því að allt fari vel, þetta hljóti að lagast einhvern veginn? Því miður eru alvarlegar blikur á lofti. Við höfum komist að því að fiskimiðin eru ekki óþrjótandi. Við höfum brugðist við og takmarkað sóknina í fiskinn. Við deilum um aðferðirnar en sjálfsagt er öllum ljóst að án takmarkana eyðileggjum við auðlindina.
    Mitt í ákafanum í að byggja upp, breyta og bylta í því skyni að auka velferðina höfum við ekki gætt að okkur. Það er gamall og nýr sannleikur að heimili, sem eyðir meira en það aflar, stenst ekki til lengdar. Það sjáum við á gjaldþrotunum, nauðungaruppboðunum og angist þeirra sem horfa upp á fjölskylduna tvístrast vegna skulda og erfiðleika.
    Vinsældir og völd freista margra. Það er gaman að vera vinsæll. Það er einmitt sú skemmtan sem stjórnmálamenn undanfarna tvo áratugi hafa ástundað svo mjög ötullega. Það er ekki bara gaman heldur líka ódýrt og þægilegt, þjóðin borgar. Þú borgar, ágæti áhorfandi. Erfiðasta vandamál þjóðarinnar er einmitt sú staðreynd að stjórnmálamenn hafa keypt sér atkvæði, keypt sér vinsældir á kostnað þinn. Þess vegna erum við núna í erfiðleikum, meiri vanda en við höfum þekkt í áratugi.
    Íslenska þjóðin skuldar nú rúmlega 200 milljarða króna. Erlendar skuldir eru svo geigvænlegar að þriðji hver fiskur fer í afborganir og vexti til útlanda. Reiðuleysi í ríkisfjármálum hefur verið með ólíkindum. Það hefur verið regla undanfarin ár fremur en undantekning að afgreiða fjárlög með halla, þ.e. útgjöld ríkissjóðs hafa verið meiri en tekjurnar, meira að segja þegar góðæri hefur verið hvað mest.
    Ég er að segja ykkur frá staðreyndum, óþægilegum staðreyndum. Núverandi ríkisstjórn er sú fyrsta í tuttugu ár sem þorir að segja sannleikann. Þessar byrðar eru farnar að segja til sín. Fólkið, sem horfir upp á gjaldþrota fyrirtæki, missi atvinnunnar og erfiðleika í atvinnulífinu, skynjar vel að það er mikill vandi á höndum. Það er aðeins lítill hópur Íslendinga sem neitar að horfast í augu við vandann. Sá hópur er stjórnmálamennirnir sem í áraraðir hafa keypt sér vinsældir og áhrif með sóun og reiðuleysi og sitja á Alþingi og halda því fram að ekkert sé að. Enn heldur vinsældaleikurinn áfram. Þessi litli hópur einangraðra Íslendinga heldur því blákalt fram að allt sé hægt að gera fyrir alla. Þeir fullyrða að illmennska og ótugtarskapur ráði ferðinni hjá ríkisstjórninni sem hefur lagt sig fram um að taka á vandanum, endurreisa efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, verja lífskjörin í landinu.
    Það er athyglisvert að það er verkalýðshreyfingin sem hefur haft frumkvæði að því á liðnum árum

að benda á hættur óstjórnar, eyðslu og óráðsíu. Benda á nauðsyn þess að ná kjarasamningum sem tryggðu betur atvinnuöryggið og kaupmáttinn. Það þarf kjark til þess hjá foringjum verkalýðshreyfingarinnar að segja frá erfiðleikunum. En sá kjarkur var fyrir hendi. Þess vegna hafa nú aftur tekist kjarasamningar sem verða lóð á vogaskál stöðugleika.
    Ríkisstjórnin hefur nú hafið endurreisnarstarfið í fjármálum ríkisins. Því fylgja erfiðar aðgerðir. Sparnaður og ráðdeild eru í fyrirrúmi. Dregið er saman þar sem unnt er, útgjöld ríkisins eru minnkuð þar sem nokkur kostur er á. Víða hefur þurft að bera niður. Það verður meira að segja að draga saman þar sem sárast er, þ.e. á félagslega sviðinu. Það verður að halda áfram að draga saman seglin þar til jafnvægi er komið á ríkisfjármálin. Vandinn er svo mikill að það tekur tíma að vinna verkin.
    Alþýðuflokkurinn, flokkur jafnaðarmanna, telur grundvallaratriði að sýna ábyrgð í fjármálum. Öðruvísi fáist ekki fjármunir til að byggja velferð á varanlegum grunni. Ábyrgðarleysi í fjármálum verður til þess að velferðarkerfið hrynur. Við erum að forða því, við erum að koma í veg fyrir að sjúkir, aldraðir og fatlaðir líði nauð vegna óráðsíu fyrri ára.
    Ég geri mér grein fyrir að stöðvun eyðslunnar er ekki til vinsælda fallin. En við verðum, við gerum þetta til að skapa betra þjóðfélag. Við gerum þetta til að forða þjóðinni frá efnalegu gjaldþroti. Við gerum þetta til að geta haldið áfram á framfarabraut. Það er erfitt að tapa atkvæðum og missa vinsældir. Við jafnaðarmenn rísum undir því. Erfiðara væri að rísa undir því að hafa skömm á sjálfum sér, svíkja hugsjónir sínar og fólk sitt. Ef við tökum ekki fast og af ábyrgð á fjárhagsvanda þjóðarinnar erum við að svíkja þá sem minnst mega sín, svíkja hugsjónir okkar um réttlátara og betra þjóðfélag og velta skuldunum, óreiðunni, yfir á börnin okkar.
    Það er algjör nauðsyn að taka fast á málum. Við verðum að vera einhuga og staðföst á þessum erfiðu tímum, nú þegar verið er að hreinsa til. Heimilin, sem á undanförnum árum hafa þurft að upplifa gjaldþrot og uppboð, skipta hundruðum. Þetta verður að stöðva. Það verður að koma fjárhagnum þannig að nauðungaruppboðin, gjaldþrotin, upplausn heimila og gjaldþrot fyrirtækja taki enda. Það gerum við best með því að taka til í ríkisfjárhirslunum. Þegar því er lokið mun framtíðin blasa við okkur.
    Við Íslendingar eigum svo ótal mörg tækifæri. Við eigum svo mikið af góðu, menntuðu og hæfu fólki sem er þess albúið að leggja sig fram um að gera góða hluti. Ríkisstjórnin mun leggja metnað sinn í að tryggja að atgervi fólksins fái notið sín, að allir fái atvinnu við sitt hæfi, að lífskjörin verði traustari samfara góðri fjármálastjórn. Það mun takast með samhæfðu átaki þjóðhollra Íslendinga, þeirra sem vilja verja efnalegt sjálfstæði þjóðarinnar og halda á braut nýrrar framtíðar.
    Stjórnarandstaðan er, eins og ég sagði áðan, alveg utangátta í umræðunni um efnahagsmál. Þeir reyna að segja þjóðinni að ekkert sé að. Þeir taka undir hvers konar óánægjuraddir og umkvartanir. Þeir halda því fram að það séu bara vondir menn í ríkisstjórninni sem vilji hrella fólk.
    En hvers vegna eru þeir að þessu? Frægasti rithöfundur okkar Íslendinga, Halldór Laxness, samdi Strompleikinn, sem hann kvað vera gamanleik, en sem er öðrum þræði allt annað en gamanleikur. Hann er hvöss ádeila á alvarlegar veilur í nútímaþjóðfélagi, bæði hér á landi og annars staðar. Skáldið deilir hart á sýndarmennsku og blekkingu. Hann deilir hvasst á það að menn telji sjálfum sér og öðrum trú um annað en það sem er, að menn segi annað en þeir meini. Að menn látist vera annað en þeir eru, að menn þori ekki að horfa framan í veruleikann, hafi ekki kjark til þess að játa það sem er, heldur gefi sig á vald sjálfsblekkingu, ýmist úti í buskanum eða upp um strompinn.
    Staðreyndin er sú að innst inni vita þessir menn um vandann í þjóðfélaginu. Árásir þeirra og vinsældaleikur er óheill, óekta, þær eru strompleikur. Þeir vita það gjörla að vandinn, sem núv. ríkisstjórn þarf að glíma við, er til kominn vegna atkvæðakaupanna, vinsældakeppninnar sem fyrri ríkisstjórnir hafa gert sig sekar um. Áróður þeirra, árásir og skröksögur eru strompleikur. Ræður þeirra eru markaðar eftirsjá eftir ráðherrastólunum en ekki því að þeir séu ósammála. Þetta er óheilt, þetta er óekta. Þetta er einn þáttur þess strompleiks í íslensku þjóðfélagi sem sannarlega er mál að linni. Það er mál til komið að menn hætti að skipta algjörlega um skoðun eftir því hvort þeir eru í ríkisstjórn eða utan ríkisstjórnar. Er ekki mál til komið að menn hætti að segja það svart, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu sem menn sögðu hvítt þegar þeir sátu í ráðherrastól?
    Það er mál til komið að íslenskir stjórnmálamenn láti ráðstafanir andstæðinga sinna njóta sannmælis, að þeir geri sér það undantekningarlaust að reglu að segja þjóðinni satt og telji mest um vert að gera rétt. Þá væri e.t.v. von til að rithöfundar okkar gætu hætt að beina spjótum sínum til stjórnmálamannanna og stjórnmálalífsins þegar þeir deila á það sem er ósatt, óheilt, óekta.