Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 23:02:00 (6282)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti, góðir áheyrendur. Ég tel að þegar Kvennalistinn var útilokaður frá stjórnarsamstarfi eftir síðustu kosningar hafi orðið sögulegt slys. Ef fyrrverandi eða núverandi stjórn hefðu gengið til samstarfs við Kvennalistann tel ég víst að það hefði dugað til að mannúðaröflin innan flokkanna hefðu náð yfirhöndinni. En svo varð ekki og nú súpum við seyðið af því. Það seyði er bæði beiskt og óhollt með afbrigðum.
    Við búum nú við samfélag vaxandi ójöfnuðar. Sá ójöfnuður bitnar ekki síst á konum. Undir þessum kringumstæðum er nöturlegt að heyra forsrh. og síðasta ræðumann hæla kjarasamningunum. Bilið milli

ríkra og fátækra á Íslandi fer vaxandi. Hvern hefði grunað fyrir örfáum árum að í borgarstjórn Reykjavíkur væri karpað um það hvort bjóða ætti upp á fátækramáltíðir? Ekki aðeins fyrir útigangsfólk heldur einnig fyrir aldraða og snauða. Fróðlegt var að heyra misvísandi ræður þeirra flokkssystkina, Jóhönnu og Jóns, um fátækt á Íslandi.
    Fyrir fáeinum árum hefði okkur þótt fráleitt að tala um skólagjöld á Íslandi. Nú eru þau staðreynd. Fyrir nokkrum árum hefði engum dottið í hug að ætlast til þess að námsmenn framfleyttu sér á víxlum á námstíma. Nú er þetta að verða veruleiki íslenskra námsmanna strax í haust, nema að það takist þá að afstýra því á síðustu stundu.
    Fyrir nokkrum árum héldum við konur að við hefðum komið í veg fyrir að Fæðingarheimilið yrði lagt niður sem fæðingarstofnun. Nú er búið að gera það, þrátt fyrir loforð ráðherra, og svipta okkur sjálfsögðu vali. Er þetta frelsi frjálshyggjunnar?
    Fyrir nokkrum árum héldum við að það heyrði til almennra mannréttinda að geta keypt sér nauðsynleg lyf. Nú er það liðin tíð. Fyrir nokkrum árum héldum við að næstu skref í þróun grunnskóla yrðu að byggja upp. Nú vitum við því miður betur. Spurningin er hversu mikið langlundargeð landmanna er. Hve langt er hægt að ganga áður en fólki er nóg boðið? Eigum við kannski að bíða eftir að ástandið verði jafnslæmt og nú nýverið í Los Angeles? Fyrstu einkennin eru þegar fyrir hendi, m.a.s. hér á Íslandi. Þar sem misgengi er getur orðið mikill skjálfti í fyllingu tímans.
    Átökin úti í heimi kenna okkur fleira. Við höfum lært það af reynslunni, bæði að austan og vestan, að það kann ekki góðri lukku að stýra að stjórna með valdboði. Því miður er íslenskt stjórnarfar ekki alls kostar laust við valdbeitingu. Það er nefnilega fleira ofbeldi en að lúskra á svörtum hraðakstursmönnum eða skjóta flóttafólk við landamæri. Andlegt ofbeldi felst í hótunum, niðurlægingu og þvingunum. Ef hægt er að beita einstaklinga slíku ofbeldi er alveg eins hægt að beita heilar þjóðir slíku ofbeldi. Ég sé ekki betur en núverandi stjórnvöld séu markvisst að brjóta niður bjartsýni og baráttugleði Íslendinga og hafi tekið upp þá starfsaðferð að stjórna með hótunum. Við heyrðum það vel hjá síðasta ræðumanni og við höfum heyrt það í kvöld. Mig langar til að taka dæmi um kunnuglegar hótanir.
    Ef námsmenn samþykkja ekki að taka á sig auknar byrðar verður lánasjóðurinn látinn fara á hausinn. Ef grunnskólarnir sæta því ekki að fækka tímum og segja upp kennurum verða þeir fjársveltir. Ef fólk vill ekki borga fyrir lyfin sín má það bara deyja drottni sínum. Jafnvel smáar upphæðir eru nefnilega mörgum ofviða. Ef við göngum ekki í EES þá hættum við að selja fisk. Ef þið heimtið hærri laun skerum við meira niður. Þá fyrst fáið þið að kynnast atvinnuleysinu.
    Þetta eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til almennings, misvel dulbúin. E.t.v. kom þessi hótanastjórnun gleggst fram með afskiptum ríkisstjórnarinnar af kjarasamningum. Hingað til hafa félagsmálapakkar stjórnvalda geymt félagslegar úrbætur og það er út af fyrir sig umdeilanlegt. En við síðustu samninga brá svo við að ríkisstjórnin ákvað að greiða fyrir kjarasamningum með því að framkvæma ekki allar hótanir sínar, a.m.k. ekki strax. Ég get ekki varist því að sjá nokkra samsvörun í lítilli sögu eftir Ástu Sigurðardóttur og stjórnunarstíl núv. ríkisstjórnar. Bæði innan þings og utan hafa stjórnarflokkarnir stjórnað með valdboði og hótunum. Á slíku örlaði vissulega í ræðu forsrh. og fleiri fyrr í kvöld og nú á víst að fara að vega að málfrelsinu líka.
    Við kvennalistakonur höfum svo sannarlega fundið fyrir því, bæði við sem á Alþingi störfum og allar hinar víðs vegar um landið. Mig langar til að leyfa ykkur, góðir áheyrendur, að dæma fyrir ykkur sjálfir hvort það sé svo ýkja mikill munur á aðferðafræði ofbeldisins eftir því hvort hún á við um stjórnarheimilið eða heimilið í sögu Ástu. Ég ætla svo sem ekki neinum, ekki einu sinni okkar slæmu ríkisstjórn, að bera þann hug til þjóðarinnar sem maðurinn í sögunni bar til konunnar. En auðvitað verður hver að dæma fyrir sig. Ég hef lesturinn:
    ,,Hann barði í borðið til áréttingar. Konan lúpaðist niður og þorði ekki að segja meira. Hann vissi þó með sjálfum sér að þessi lítilmótlega litlausa og heimska kona var ekki fulltamin enn, þrátt fyrir undirgefið augnaráð og flóttalegar hreyfingar. Hún var enn þá vís til að verja krakkann fyrir honum og henni tókst oftast að hlífa stelpunni fyrir mestu höggunum og þvælast fyrir höndunum á honum þangað til hann var orðinn uppgefinn á að lemja á þeim.
    Það var hreint óþolandi að geta ekki verið húsbóndi á sínu heimili og það fyrir jafnlítilsigldri manneskju og Siggu. Þetta var frámunaleg niðurlæging.
    En það gerði krakkinn. Það var eins og vesælustu kvikindum af kvenkyninu gæfi margfalt þrek ef stuggað var þessum afkvæmum þeirra.``
    Svo mörg eru þau orðin í sögu Ástu og hefði raunar verið ástæða til að hafa þau fleiri yfir.
    Núv. ríkisstjórn hefur tekist að hræða landsmenn með ýmsum grýlum. Niðurlægja með margs konar lítilsvirðandi ummælum svo sem þeim að námsmenn leggist í barneignir til að næla sér í fé frá ríkinu. En niðurstaðan er söm og í sögu Ástu. Það er ekki hægt að berja þann til hlýðni sem er að verja barnið sitt og framtíð þess.
    Góðir áheyrendur. Eitt af því sem veldur mér ævinlega heilabrotum er það hvernig sömu menn og beita valdi gegn minni hlutanum innan lands eru svo grænir að halda að þeir muni njóta réttlætis í samfélagi Evrópu þar sem vald hins sterkari gagnvart hinum veikari er rækilega staðfest. Ég tel vonirnar sem menn binda við Evrópusamstarf því miður bera vitni um alvarlegt óraunsæi.

    Þótt það sé hlutskipti okkar kvennalistakvenna nú um stund að verjast í stað þess að skapa þá má það ekki verða of lengi. Því miður er langt í næstu kosningar nema að mótmælaöldurnar verði það háværar að eitthvað breytist. Við kvennalistakonur höfum of mikið fram að færa til þess að sætta okkur við að sitja hjá og ganga endalaust í skítverkin að verja heimili okkar fyrir óværu. Við eigum verk að vinna við að bæta kjör kvenna og aðstæður þeirra. Við viljum fjárfesta skynsamlega í framtíðinni með því að hlúa að menntakerfinu. Við höfum alltaf bent á það hve skynsamlegt sé að verja fé til rannsókna og þróunarstarfs. Það er nú að sýna sig að er rétt. Góð menntun er óþrjótandi auðlind.
    Við viljum líka auka jöfnuð með réttlátara skattkerfi. Það er hægt. Við sættum okkur ekki við handahófskenndar aðgerðir eins og flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Við viljum í staðinn spara og hagræða í samráði við starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslu. Það fólk þekkir ótal leiðir en á það er ekki hlustað frekar en aðra í landinu. Við sættum okkur ekki við samfélag sem mismunar. Jöfnuður til náms og starfa eru mannréttindi allra, aðgangur að góðri heilsugæslu sömuleiðis. Þetta er engin skiptimynt í kjarasamningum, heldur grundvöllur góðs lífs.
    Við teljum það ekki hlutverk ríkisvaldsins að stýra atvinnulífinu heldur að búa því góðar aðstæður. Í því felst m.a. að íþyngja því ekki með álögum eins og okurvöxtum. En einnig verður ríkið að vera reiðubúið til þess að hlaupa undir bagga þegar um tímabundinn eða staðbundinn vanda er að ræða. Annars situr allt samfélagið uppi með vandamál sem reynast okkur dýrari en nokkrar hjálparaðgerðir. Ég nefni staðbundið atvinnuleysi meðal kvenna á Suðurnesjum sem dæmi. Á þessum vanda verður að taka, ekki er hægt að stinga höfðinu í sandinn að hætti strúta endalaust.
    Virðulegi forseti, góðir áheyrendur. Framtíð okkar á Íslandi er nátengd því sem er að gerast annars staðar í heiminum. Veröldin nær víðar en um Evrópu eina, þótt sjóndeildarhringur ýmissa einstaklinga skorðist við þá ágætu álfu. Við berum sameiginlega ábyrgð á umhverfi okkar á þessum litla hnetti. Við berum einnig sameiginlega ábyrgð á því að jafna lífskjör milli norðurs og suðurs, ekki síður en austurs og vesturs. Um leið og við hlúum að garðinum okkar hér heima er nauðsynlegt að miðla áburði og fræjum um allan heim. --- Góða nótt.