Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 13:42:00 (6285)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Á dagskrá þessa fundar er frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna, boðað til 3. umr. Ég vil upplýsa, vegna þessa dagskrárliðar, að á fundi menntmn. fyrir hádegið var þetta mál rætt að mínu frumkvæði. Ég setti þar fram ósk um að farið væri ofan í ákveðna þætti sem augljósir eru varðandi málið áður en það kæmi til 3. umr. og lagði fram tiltekin efnisatriði í níu tölusettum liðum, sem ég

ætla ekki að rekja hér, sem ástæða væri til að leita eftir svörum við hjá forráðamönnum Lánasjóðs ísl. námsmanna og eftir atvikum hjá hæstv. menntmrh. Einnig óskaði ég eftir því á þessum fundi við formann nefndarinnar að hún leitaði eftir því að hæstv. menntmrh. kæmi á fund nefndarinnar til að svara þar ákveðnum spurningum sem ekki fengust skýr svör við við 2. umr. málsins og sem ástæða er til að liggi sem ljósast fyrir áður en 3. umr. fer fram. Formaður nefndarinnar varð því miður ekki við þessum óskum, lýsti því yfir á fundi nefndarinnar að hún mundi ekki taka tillit til þeirra og ekki hlutast til um það sem nefndarformaður að orðið væri við þessari beiðni sem eindreginn stuðningur kom fram við frá öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni.
    Ég lagði einnig fram á þessum fundi tvö málsgögn frá einni af stofnunum annars stjórnarflokksins, Alþfl., þ.e. Sambandi ungra jafnaðarmanna sem þann 28. mars sl. samþykkti áskorun til þingflokksins á flokksstjórnarfundi og ítrekaði það mál í rauninni með sérstakri ályktun framkvæmdastjórnar Sambands ungra jafnaðarmanna 10. maí sl. með vísun til þess hvernig málið liggur fyrir að lokinni 2. umr. og atkvæðagreiðslu um það. Þar er að finna eindregna hvatningu til þingflokks annars stjórnarflokkanna að verða við einu tilteknu atriði um breytingu sem mjög var knúið á um við 2. umr. málsins og það rökstutt í þessari ályktun sem ég ætla ekki að fara að lesa upp fyrir þingheimi undir þessum lið um þingsköp.
    Vegna þess að þetta mál er á dagskrá og margir þættir þess óljósir og ekki upplýstir og vegna þess að fyrir liggur eindregin beiðni í nefnd um að málið verði athugað þar áður en til 3. umr. kemur svo að hæstv. ráðherra gefist kostur á að mæta í menntmn. til þess að leysa þar úr ákveðnum þáttum sem spurningar eru um vil ég upplýsa hæstv. forseta um þessa stöðu og hvetja eindregið til þess að forseti hlutist til um að þetta mál geti fengið eðlilega umræðu í menntmn. þingsins áður en 3. umr. um það verður hafin. Ég er sannfærður um að slík efnisleg umfjöllun í þingnefnd um málið nú væri til þess að leysa úr ýmsum óvissuþáttum sem varða málið og sem ekki er líklegt að fáist upplýst með sama hætti. Þá er ég að tala um með skilmerkilegum hætti, eins og verða má við meðferð í þingnefnd, þó auðvitað geti menn rætt þessi efni þegar til 3. umr. kemur.
    Því er það beiðni mín til hæstv. forseta að hann hlutist til um það að 3. umr. fari ekki fram fyrr en málið hefur verið nánar athugað í nefnd og fengið þar þá umfjöllun sem eðlileg er milli umræðna miðað við stöðu málsins.