Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 14:02:45 (6292)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég féll frá orðinu áðan vegna þess að ég skildi mál svo að hæstv. forseti ætlaði að halda fund með formönnum þingflokka og hafa þar einnig tal af mér út af þessu máli sem er hér á dagskrá þingsins, raunar síðast á dagskránni. En ég heyri að menn vilja halda áfram og mér heyrist að hafnar séu efnisumræður um málið. ( Forseti: Forseti ætlaði að lokinni ræðu hv. 9. þm. Reykv. um gæslu þingskapa að benda á að þetta mál er á dagskrá þingsins og mjög auðvelt að taka það til efnislegrar umræðu. En forseti getur ekki bannað hæstv. menntmrh. að tala um gæslu þingskapa og heldur hann áfram máli sínu.) Ég skal reyna að stilla mig um að tala efnislega um málið vegna þess að ég hlýt að reikna með að málið komi til efnislegrar umfjöllunar í dag þar sem það er á dagskránni.
    Ég hélt satt að segja að ég hefði þegar komið nægilega oft upp í þennan ræðustól til þess að leiðrétta rangtúlkanir á því sem ég sagði í umræðunni í síðustu viku. En ég skal segja það einu sinni enn. Ég man ekki hvort það er í fjórða eða fimmta skiptið og tvisvar eða þrisvar hef ég sagt það í fjölmiðlum. En það virðist ekki ganga inn í hv. þingmenn hvað það var sem ég sagði. Það var að ég tel sjálfsagt milli umræðna að upplýsa hv. þingnefnd og hv. þingmenn um hvað það þýddi ef fallið yrði frá ákvæði 6. gr. um svokallaða eftirágreiðslu. Þetta var það sem ég sagði. Ég hef þegar upplýst hv. menntmn. um þetta atriði. Ég skrifaði menntmn. bréf og sendi minnisblað sem skýrir þetta allt saman út. Ég veit ekki nákvæmlega hversu marga klukkutíma umræðan um lánasjóðsfrumvarpið hefur staðið. Ég sá í einhverjum fréttum að það væru komnir milli 30 og 40 klukkutímar og mér er satt að segja á þessari stundu ekki ljóst hvaða spurningum ég hef ekki svarað eða hvað það er sem á enn að vera óljóst í sambandi við þetta mál og kynni að útskýrast eitthvað betur á fundi hv. menntmn. Ég vissi satt að segja ekki fyrr en áðan að það hefði verið óskað sérstaklega eftir því að ég mætti á fundi menntmn. Ég hef einu sinni mætt þar fyrr í vetur og ef ætti að taka þetta mál sérstaklega til umfjöllunar í nefndinni þá vík ég mér ekki undan því að mæta þar.
    Ég vil hins vegar benda á það ákvæði þingskapa að því aðeins tekur nefnd mál til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. að gerðar hafi verið breytingar á frv. við 2. umr. sem væru ekki í samræmi við brtt. meiri hluta nefndarinnar. Þetta eru ákvæði í 39. gr. þingskapa, 2. málsgr. ef ég man rétt. Það er aftur annað mál hvort nefnd vill af öðrum ástæðum taka mál til sérstakrar umfjöllunar milli 2. og 3. umr. En skylda er það ekki nema svona fari og þannig fór ekki við atkvæðagreiðslu um málið eftir 2. umr.
    Mér er ekki ljóst hvaða óvissuþættir það eru sem líklegt er að mundi greiðast úr á sérstökum fundi nefndarinnar en það má vel vera að þeir séu einhverjir sem ég ekki þekki. Ég hélt satt að segja að tekið hefði verið á öllum þáttum þessa máls á þeim 30--40 klukkutímum sem umræðan hefur staðið. En ef einhverjir eru vildi ég gjarnan heyra um þá og ef það er skoðun hæstv. forseta og formanns nefndarinnar, og ekki ætla ég að leggja stein í götu þess að hæstv. forseti og formaður menntmn. tali saman, eins og var nefnt hér áðan, að það sé ástæða til þess að tala frekar um málið og í þrengri hóp en hér ætla ég heldur ekki að leggja stein í götu þess. En ég legg afar mikla áherslu á að þessari umræðu verði fram haldið. Það eru ekki margir þingdagar eftir og eins og hér hefur komið fram er þetta eitt af stærri málum þingsins. Ekki ætla ég að draga úr þeirri fullyrðingu og ef menn eiga svona mikið ósagt þá er kominn tími til að halda áfram. --- [Fundarhlé.]