Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:04:12 (6296)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi fékk ég ekki svar við því í ræðu hv. formanns allshn. hvernig á því stendur að ,,þau``, þ.e. ekki ,,þeir``, stendur þarna inni vegna þess að frumlagið ,,hver`` vísar til ,,maður``, til karlkyns, og síðan segir í greininni: ,,hefur . . .  kynferðismök við mann`` sem er líka karlkyn og þá hlýtur að eiga að standa þarna þeir en ekki þau ef nefndin er sjálfri sér samkvæm. Og ég spyr hvernig á því standi að ,,þau`` er þarna inni og við því hef ég ekki fengið neitt svar. Ég var ekki að spyrja hvort þetta gæti náð til samkynhneigðra heldur hver væru rökin á bak við þetta.
    Varðandi samkynhneigða, fyrst formaður allshn. kom inn á það, þá geta þeir að sjálfsögðu búið í óvígðri sambúð þótt hún hafi engan lögformlegan ,,status``. Þeir geta samt búið saman og búið saman árum saman og þar af leiðandi er í raun um óvígða sambúð að ræða þótt hún njóti ekki lagaverndar.
    Varðandi vændið þá sagði formaður allshn. að það væri almennt ekki refsivert samkvæmt þessum lögum. Þá hlýt ég að biðja um skilgreiningu á vændi því það segir: ,,Hver sem stundar vændi sér til framfærslu . . .  `` Ég hef alltaf litið svo á að menn þyrftu að hafa framfærslu einhvers konar af því að selja líkama sinn til þess að teljast stunda vændi. En það er greinilega einhver annar skilningur á ferðinni í allshn. og ég hlýt því að spyrja hvernig menn skilgreina hugtakið vændi.