Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:05:52 (6297)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir miður ef hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur misskilið orð mín. Ég held að við þurfum ekki að fara út í ítarlegar umræður um það hvað felist í vændi. Ég vil aðeins ítreka það sem áður hefur komið fram að í þessu tilviki, í 1. málsgr. 13. gr., er vændi til framfærslu skýrt þannig að þar sé átt við að vændi sé stundað sem atvinnugrein og sé þá eina atvinnan sem stunduð er.
    Varðandi 7. gr. er rétt að það komi skýrt fram að með orðinu ,,þau`` er vísað til karls og konu vegna þess að það eru einungis karl og kona sem geta gengið í hjúskap samkvæmt íslenskum lögum og búið í óvígðri sambúð. Eins og ég sagði áðan var þetta mál rætt sérstaklega í allshn. í morgun og menn sáu ekki ástæðu til að breyta textanum.