Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:22:00 (6301)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess að hér er verið að ræða um merkingu orðsins maður þykir mér rétt að vekja athygli á því að þau mál hefur fyrr borið á góma á hinu háa Alþingi. Þann 16. mars 1964 var umræða í neðri deild Alþingis um nafnbreytingu á lífeyrissjóði, Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, vegna þess

að karlar höfðu komið inn í þá stétt og voru uppi tvær tillögur, að sjóðurinn héti lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna eða lífeyrissjóður hjúkrunarfólks. Veturinn 1964 vildi svo til að sá sem þetta mælir var þingfréttaritari og þá var haldin ræða sem mér hefur ekki úr minni farið. Hana hélt þáverandi forsætisráðherra dr. Bjarni Benediktsson. Með leyfi forseta, þá var ræðan svona:
    ,,Herra forseti. Þetta þykir kannske of lítið mál til að deila um en ég vil alls ekki fallast á það að konur séu ekki menn. Þetta er hrein málvilla sem á að fara að láta okkur samþykkja hér. Það er latmæli tekið upp á síðustu áratugum að kalla konur ekki menn. Samkvæmt gamalli íslenskri málvenju og algerri hefð eru konur auðvitað menn. Þess vegna er ekki hægt að samþykkja þessa vitleysu og réttast væri að vísa henni frá.``
    Mér sýnist að þessi ræða sé í fullu gildi enn þann dag í dag.