Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:23:51 (6302)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál og sem ég efast ekki um að vel hafi verið unnið í nefnd og eins og hér kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar. En ég verð þó að segja að þegar ég les 7. gr. þá skil ég hana ekki og mér finnst svo ótrúlegt að það skuli ekki vera hægt að orða hana einhvern veginn þannig að hún sé betur skiljanleg. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann vegna þess að hann heldur ranglega að þau hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.``
    Það er ekki auðvelt að skilja þennan lagatexta. Ég fór til eins nefndarmanna og fékk þetta túlkað yfir á venjulegt mál svo að nú skil ég hvað þetta þýðir. Ef við setjum ,,hún`` alls staðar í staðinn fyrir ,,hann`` þar sem orðið hann kemur fyrir í textanum þá skiljum við textann betur og vitum hvers konar vandamál hér er um að ræða. Ég veit að það er ekki hægt að breyta honum þannig en maður skilur hann betur: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við konu vegna þess að hún heldur ranglega að þau hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hún er í þeirri villu að hún heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.``
    Ég veit að miðað við það að orðið maður kom inn í textann og gildir bæði fyrir karla og konur er ekki hægt að breyta textanum eins og ég las hann í seinna skiptið. Ég er ekki að gera neitt að gamni mínu hér. Mér finnst bara mikilvægt að textinn sé auðskiljanlegur og mér finnst strax að hann sé betur skiljanlegur ef hér stæði: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann og viðkomandi heldur ranglega að þau hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi. Þetta eru kannski smámunir en ég vildi samt að þetta kæmi hér fram, hæstv. forseti.