Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:42:35 (6308)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir athugasemdir varðandi íslenska tungu. En við erum greinilega ekki sammála því að ég lít á konur sem menn.
    En varðandi það atriði sem hv. þm. sagði áðan, eða þingkona eins og fulltrúar Kvennalistans kalla sig á þingi, um það að ég hafi sagt að ekki hafi komið fram athugasemdir áður um 7. gr., þá er það ekki rétt skilið vegna þess að mér er kunnugt um að athugasemdir komu fram við 1. umr. frá Ingibjörgu Sólrúnu, hv. þingkonu Kvennalistans. Hins vegar komu engar breytingartillögur fram frá fulltrúum Kvennalistans við 2. umr. í málinu og ég man ekki til þess að fulltrúi Kvennalistans í allshn. hafi gert athugasemdir við texta 7. gr. enda þótt hún hafi að sjálfsögðu verið sammála samflokksmönnum sínum um að halda orðinu ,,manneskja`` inni.
    Þetta vildi ég að kæmi fram.