Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:43:59 (6309)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að þurfa að leiðrétta það sem form. allshn. sagði að við værum ósammála um, hún teldi að konur væru menn en ég ekki. Ég sagði áðan skýrt og skorinort að konur væru menn. Þær væru líka manneskjur, svo væru þær líka bara konur, þannig að þetta þurfum við ekki að deila um. Málið snýst kannski ekki um það eins og það er komið hér í hnotskurn í umræðunni heldur afskaplega klúðurslegt orðalag 7. gr. sem er ekki sjálfri sér samkvæm í orðalagi. Mér finnst hv. form. allshn. vera farin að drepa málinu á dreif og vera farin að tala um annað en það sem er kjarni málsins í umræðunni. Svo það taki nú af allan vafa, því að mér finnst svolítið hafa verið gefið í skyn að maður sé með einhverjum hætti andvígur þessu frumvarpi, þá ætla ég að láta koma fram að ég tel að þarna sé mjög margt gert til bóta. Þetta er jákvætt frumvarp og þarf að fá afgreiðslu á þessu þingi. En ég get ekki látið hjá líða að benda á hluti eins og þessa sem mér finnst skipta máli fyrir frumvarpið vegna þess að lögin, sem við ætlum að setja, hljóta að eiga að standa og þau verða að standast slíka skoðun annarra en alþingismanna og þess vegna kem ég þessum athugasemdum á framfæri þótt við 3. umr. sé.