Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:45:22 (6310)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég ætla aðeins að tala um málfræði og leiðrétta hugsanlegan misskilning. Allir hafa leyfi til að hafa smekk á máli og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni finnst orðið manneskja ljótt og ekkert er við því að segja. En ég hef gert það að gamni mínu að fletta upp í orðabókum af því að það var sagt hér að orðabækur hafi ekki orðið til fyrr en á 18. öldinni, svoleiðis að orðið gæti ekki verið gamalt. Það er út af fyrir sig rétt að orðabækurnar eru ekki allar gamlar en málið er auðvitað miklu eldra en orðabækurnar og þær urðu til á eftir orðunum.
    En orðið ,,manneskja`` er rammíslenskt og er mjög gamalt og mjög fallegt, manneskjulegt og skemmtilegt, en ég held að það væri rétt að fara að þeirri hugmynd sem hér hefur komið fram að menn ræddu þetta áður umræðu yrði lokið. Við eigum auðvitað að komast að niðurstöðu um það að orðalag sé rétt á lagagreinum eftir því sem hægt er og mér sýnist við vera í ógöngum ef við ekki frestum málinu og hættum umræðu sem fyrst til þess að greiða fyrir öðrum málum. Þá er væntanlega hægt að afgreiða þetta þegar málhagir menn og vísindamenn á þessu sviði hafa skorið úr þessu.